26.02.1985
Sameinað þing: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3244 í B-deild Alþingistíðinda. (2723)

251. mál, fullvinnsla sjávarafla

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Það er orðið langt liðið á dag og ég skal hafa mál mitt mjög stutt. Ég vil eins og aðrir þakka hv. 7. þm. Reykv. Guðmundi J. Guðmundssyni fyrir að hreyfa þessu máli hér í þingsölum. Allir sem hér hafa komið upp hafa fært honum þakkir og ég veit að hann fer svolítið hjá sér við það, en hann á þær skilið fyrir að hreyfa þessu máli á þessum virðulega stað.

Ég fagna þessari umr. vegna þess að það hefur verið of lengi of neikvæð umræða um íslenskan sjávarútveg á meðal okkar Íslendinga. Þar kenni ég engum sérstökum um. Þetta hefur verið tíska í þjóðfélaginu um of langan tíma. Það er kominn tími til þess að við snúum af þeirri braut og förum að átta okkur á því á hverju við lifum. Það hefur viljað gleymast of oft í umr. að undanförnu.

Hér hafa verið fluttar margar og merkilegar ræður um það hvernig hægt sé að bera sig að við fullvinnslu á því verðmæta hráefni sem úr sjónum kemur og þar er margt mjög athyglisvert og þarf að gefa góðan gaum. En allt kostar þetta tíma. Við eigum þarna miklu meiri möguleika en hafa verið hafðir í hámæli. Það eru alltaf að skapast nýir og nýir möguleikar í þessum efnum. Við eigum það besta gæðahráefni á matvælasviðinu sem fyrirfinnst, vil ég fullyrða, og það eigum við að nýta okkur. Hér hefur verið rætt um veiðimannaþjóðfélag. Ég tek undir það að við höfum of lengi hugsað eingöngu um þann tonnafjölda sem úr sjónum er dreginn, en ekki lagt nógu ríka áherslu á hvaða verð við gætum fengið fyrir aflann ef við stæðum rétt að vinnslu.

Ég vil einnig taka það fram að ég hef orðið var við að sá misskilningur er uppi að t.d. í frystiiðnaðinum, sem er enn þá mikilvirkastur í okkar framleiðslu, sé alltaf hægt að auka nýtingu. Ég held að með meiri vélakosti og öðru, sem nú er komið í flestöll frystihús landsins, göngum við ekki öllu nær því að naga af beininu en við gerum í dag. Þar er ekki mikils að vænta í viðbót frá því sem nú er. Þetta hefur breyst mjög til batnaðar á síðari árum vegna öflugs áróðurs í þessum efnum.

En hvernig getum við gert hráefnið að enn þá verðmætari vöru en það er í dag? Þar er við mikla erfiðleika að etja. T.d. ræddi flm. um verulega erfiðleika í ýmsum þáttum niðursuðuiðnaðar. Það er búið að reyna verulega á þetta. Valdið hefur miklum vonbrigðum að ekki skuli vera hægt að ná þar lengra. Auðvitað er það hægt með markvissri þróun í þessum efnum. En það eru þessi gömlu og grónu fyrirtæki og grónu lönd á niðursuðumarkaði sem ríkja þar algerlega. Þar má nefna Danmörku mjög framarlega í flota sem tekur stóran hluta af grásleppuhrognum okkar t.d. og sýður þau niður undir sínum vörumerkjum.

Ég er ekki að útiloka þann möguleika, meðan við erum að koma okkur af stað, að við séum í samvinnu við sterk fyrirtæki sem eru í slíkri framleiðslu og pakka hér, hvort það eru niðursuðudósir eða annað, og komum vörunni þannig inn á markaðinn. Þetta hefur verið gert að vissu leyti af Norðurstjörnunni í Hafnarfirði. King Oskars-merkið gekk allvel. Ég held að svo sé jafnvel enn þá. Við megum því ekki vera of lokuð fyrir svona löguðu meðan við vinnum okkur markaði.

Ég lofaði að vera stuttorður og ég ætla að standa við það og þarf litlu við að bæta, en aðeins þessu: Ég legg áherslu á það með flm., þar komst hann vel að orði, að við þurfum að komast sem næst diski neytandans. Þá er varan verðmest. Við þurfum að leita uppi allar leiðir til þess. Við þurfum að skapa meira frelsi í okkar markaðsmálum og virkja fleiri til þess að flytja vörur úr landi. Hér flytja nógu margir inn. Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól. En við þurfum að virkja þá betur sem vilja koma vörum okkar á markaði erlendis. Það er þungamiðjan í þessu máli. Ég er ekki með þessum orðum að leggja til að lögð séu niður hin stærri sölusamtök, en þau þurfa sterkt aðhald. Það þarf að fylgjast með þeim líka. En þau þurfa að starfa. Við eigum þó að virkja einstaklingana og aðra aðila til að afla nýrra markaða fyrir þessar vörur okkar sem við eigum hráefnið í en höfum ekki komið á markað.

Ég ætla ekki að fara að ræða við hv. 4. þm. Reykv. um ferskan fisk. Það yrði langt mál. Ég ætla að sleppa því núna vegna þess að það er svo áliðið. En ég ítreka þakklæti mitt til 7. þm. Reykv. fyrir að hreyfa þessu máli hér og vona að af því hljótist verulegur árangur.