26.02.1985
Sameinað þing: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3248 í B-deild Alþingistíðinda. (2727)

319. mál, orkufrekur iðnaður á Suðurlandi

Flm. (Óli Þ. Guðbjartsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál., um orkufrekan iðnað á Suðurlandi, sem ég hef leyft mér að leggja hér fram á þskj. 504. Till. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að vinna að því nú þegar að koma á fót orkufrekum iðnaði á Suðurlandi. Í þeim tilgangi verði m.a. iðnrn. og stóriðjunefnd talið að leita eftir erlendum samstarfsaðila til þessa verkefnis.“

Búseta á Íslandi er ákaflega sérstæð og á sér trúlega hvergi annars staðar hliðstæðu. Er þar átt við þá staðreynd að í höfuðstað landsins, Reykjavík, og næsta nágrenni, á Reykjanesi, búa rúmlega 60% þjóðarinnar.

Ástæður þessa eru vitaskuld margar og aðdragandinn býsna langur. Alla þessa öld hefur þróunin verið í þessa átt, mishröð að vísu, en nánast aldrei stöðvast eða snúist við. Mannfjölgun á Íslandi frá síðustu aldamótum hefur verið um 1.4% að meðaltali á ári. Á sama tíma hefur fjölgunin verið yfir 3% í Reykjavík og á Reykjanesi, en innan við 1/2% á landinu utan þess svæðis.

Enda þótt landgæði séu á margan hátt mikil og þar með aðstæður góðar hér við Faxaflóa og þó að einnig beri að viðurkenna að tiltölulega fjölmenn höfuðborg hjá jafn fámennri þjóð sé heildinni allri til hagsbóta, þá er hér um svo gífurlegan mun að ræða, svo einhliða þróun um svo langan tíma, að sannarlega er þörf að leita lausna til að beina þessari þróun í aðra átt.

Skýringin á þessari þróun er vitaskuld sú að Reykjavík og Reykjanes hafa haft verulegt aðdráttarafl, sérstaklega eftir að atvinnutækifærum fækkaði annars staðar á landsbyggðinni samhliða tækniframförum, vélvæðingu og aukinni verkaskiptingu sem hafði í för með sér bætt lífskjör og vaxandi velmegun. Hafa verður þó í huga að fólksflutningar úr strjálbýli í þéttbýli hafa orðið um allt land lengst af þessu tímabili af sömu ástæðum.

Ef nefna á einn þátt sem öðrum fremur hefur haft úrslitaþýðingu um framvinduna undanfarna áratugi ber raforkuna og hagnýtingu hennar hæst. Af eðlilegum ástæðum hefur raforkuvinnslan á Suðurlandi, við sogsvirkjanir og á Þjórsársvæðinu, verið langmestur hluti framleiðslunnar. Með hringtengingu seinustu ára dreifist sunnlensk orka nú um allt land. Sem eðlilegt framhald af þessu hefur Alþingi ákveðið að raforkuvinnslan dreifist einnig um landið með fyrirhuguðum stórvirkjunum á Norður- og Austurlandi.

Þegar farið var að hagnýta orku íslenskra fallvatna til orkufreks iðnaðar var því orkan af Suðurlandi þýðingarmest, og er svo enn. Ekkert þeirra fyrirtækja, sem nýtti þessa orku, varð þar hins vegar staðsett og var m.a. hafnleysi suðurstrandarinnar borið við.

Áburðarverksmiðjan í Gufunesi, reist 1952–1954, varð fyrst þessara fyrirtækja. Sementsverksmiðjan á Akranesi, reist 1956–1958, varð annað fyrirtækið af þessu tagi. Álverið í Straumsvík 1966 markaði þáttaskil í þessum efnum með eignaraðild erlendra aðila.

Kísilgúrverksmiðjan við Mývatn 1966 varð fyrsta fyrirtækið sem telja verður orkufrekan iðnað og staðsett var utan Faxaflóasvæðisins. Sú staðsetning var að auki allfjarri höfn, enda ástæðan staðbundið hráefni. Engu að síður varð þessi framkvæmd hin fyrsta á þessu sviði til að sporna gegn þeirri búsetuþróun sem bent var á í upphafi þessa máls.

Málmblendiverksmiðjan á Grundartanga í Hvalfirði 1977 markaði tímamót með meirihlutaeignaraðild Íslendinga í félagi við útlendinga. Enn var sunnlensk orka burðarásinn en staðsetning fyrirtækisins við Faxaflóa. Hér var að auki annað fyrirtæki í Vesturlandskjördæmi sem byggði á orku af Suðurlandi.

Hér verður ekki tíundað hversu mikill mannafli hefur afvinnu af öllum þessum iðjuverum, hvað þá í þjónustugreinum þeim tengdum, en víst er að sá mannfjöldi skiptir þúsundum. Þegar hér er komið sögu finnst bæði þingi og þjóð að tími sé til kominn að efna til orkufreks iðnaðar víðar á landinu en eins við Faxaflóa. Kísilmálmverksmiðja við Reyðarfjörð hefur verið á dagskrá í röskan áratug og álver við Eyjafjörð er a.m.k. mjög til umræðu, enda virkjanir nyrðra og eystra ýmist á framkvæmda- eða undirbúningsstigi. Komist þessi áform í framkvæmd mun það treysta byggð í þessum fjórðungum og bæta heildarhag og stuðla að heilbrigðari búsetuþróun en hér hefur áður verið.

En Suðurland, sem fram að þessu hefur lagt til meginhluta allrar orku í orkubúskap þjóðarinnar, ber hins vegar enn skarðan hlut frá borði í þessum efnum. Um þessar mundir verða hins vegar þau tímamót í atvinnuþróun Íslendinga sem knýja menn til að leita nýrra leiða og láta einskis ófreistað til að fjölga atvinnutækifærum á áður óþekktum sviðum eins og eftirminnilega hefur komið fram hér á þessum fundi. En vandséð er að frumatvinnugreinar þjóðarinnar, landbúnaður og sjávarútvegur, taki við meiri mannafla um fyrirsjáanlega framtíð hlutfallslega a.m.k. Iðnaður verður þar lausnarorðið í æ ríkari mæli auk þjónustugreina.

Enda þótt mönnum hafi verið þetta ljóst um alllangt skeið er hægara sagt en gert að leggja grunn að hagkvæmri iðnþróun. Með flestum þjóðum tekur nokkrar kynslóðir að breyta svo um sem hér hlýtur að verða. Enn verður að leggja svo sem kostur er áherslu á úrvinnslu þess hráefnis sem landið og sjávarafli gefur af sér. Ég vil sérstaklega af því tilefni lýsa ánægju minni með hina gagnmerku till., sem 7. þm. Reykv. flutti hér á þessum fundi og mælti fyrir, og verð ég að skjóta því hér rétt inn í að mér hlýnaði um hjartaræfur að sú tillögugerð skyldi ættuð úr Arnarfirði.

Reynsla annarra þjóða, svo sem granna okkar Norðmanna, hefur hins vegar sýnt að farsæld fylgir að sækja fram á sem flestum sviðum í senn, þ.e. úrvinnslu- og smáiðnaður dafnar oft vel í skjóli orkufreks iðnaðar.

Suðurland hefur á undanförnum áratugum verið sá hluti landsins þar sem hlutfallslega flestir starfandi manna hafa haft atvinnu af frumatvinnugreinunum tveimur, sjávarútvegi og landbúnaði. Það gegnir því ekki furðu þó að harðast bitni á þeim fjórðungi þegar þessar atvinnugreinar taka ekki lengur við nýju fólki.

Eins og áður segir hefur sunnlenskt afl knúið flest þau orkuver sem enn hafa malað íslenskri þjóð gull. Hafnleysi suðurstrandarinnar hefur hins vegar orðið orkufrekum iðnaði á Suðurlandi þrándur í götu fram að þessu. Engu að síður hefur tækni fleygt fram á síðustu árum á sviði hafnargerðar,jarðvegsflutninga og annars þess sem til þarf í þessu efni. Það er hátt til lofts og vítt til veggja á Suðurlandi ef svo má að orði komast í þessu sambandi. Þess vegna er lítil hætta á loftmengun, enda búnaður nú orðið vandaður til varnar slíku. Þéttbýli er nauðsyn í þessu sambandi, en nú búa tæplega átta þúsund manns í þéttbýli Flóa og Ölfuss. Þegar liggur fyrir mat á því að á Suðurlandi er að finna aðstæður sem fullnægja þeim skilyrðum sem gerðar eru til staðhátta þar sem orkufrekum iðnaði er komið á fót, a.m.k. iðnaði af miðlungsstærð.

En sú slæma þróun, sem áður var hér gerð að umtalsefni, í frumatvinnugreinunum tveimur hefur þegar sagt til sín í mannfjöldaþróuninni á suðurlandi. Árið 1984 varð 0.9% meðaltalsfjölgun íbúa á landinu. Fólksfjölgun á suðurlandi varð það ár einungis 0.33%. En þá bregður hins vegar svo við að bein fækkun verður í öllum sýslunum þremur austan fjalls og þeim mun meir sem austar dregur. Í Árnessýslu varð fækkunin 0.12%, í Rangárvallasýslu varð hún 1.06% og í Vestur-Skaftafellssýslu 1.34%. Hins vegar varð fjölgun í kaupstöðunum tveimur, 1.31% í Vestmannaeyjum og 1.88% á Selfossi.

Af því, sem hér hefur verið nefnt, er ljóst að tími er til kominn að byggðirnar austan heiðar fái notið þeirra gæða sem héraðið gefur af sér í orku fallvatnanna. Enn fremur er ljóst að fram undan er varnarbarátta á þessu svæði til þess að koma í veg fyrir fækkun fólks og þann vanda sem slíku fylgir. En íslenska þjóðin öll stendur í raun á tímamótum í atvinnumálum um þessar mundir. Hún á að baki mjög mörg stórverkefni, allt frá því að uppbygging sjávarútvegsins í nútímahorf hófst í byrjun aldarinnar. Ætla má að 20–25 þúsund manns komi á vinnumarkað fram um aldamót. Eina raunhæfa leiðin til að búa drjúgum hluta þess mannafla atvinnutækifæri í útflutningsatvinnuvegi eru stórvirkjanir og orkufrekur iðnaður. A þann veg er og haldið um stjórnvöl þessara mála. En algjör nauðsyn er að þessi verkefni dreifist víða um land. Suðurland þarf aukin atvinnutækifæri fyrir rösklega tvö þúsund manns á þessum tíma. Vandséð er að því verði náð nema orkufrekur iðnaður, útflutningsiðnaður, komi til á þessu svæði.

Venjulega eru fjórar meginforsendur lagðar til grundvallar þegar svæði er metið í þessa veru. I fyrsta lagi vinnumarkaður, í öðru lagi landrými, í þriðja lagi raforka og í fjórða lagi hafnarskilyrði. Um aðstæður á Suðurlandi hvað varðar þrjár fyrsttöldu forsendurnar þarf vart að ræða, svo augljóst er það hverjum manni. Vinnumarkaður um átta þúsund manns, landrými nær ótakmarkað og raforkan yfir 90% af virkjuðu afli hér á landi. En hinn gamli þrándur í götu stóriðnaðar eða miðlungsiðnaðar á Suðurlandi, hafnarskilyrðin, er hins vegar verður nokkurrar íhugunar.

Stundum eru stórverkefni, sem á eru einhverjir tækniörðugleikar að framkvæma, nánast afskrifuð um áratugi eða dæmd óframkvæmanleg í vitund manna. Svo var t.d. um brúun fljótanna á söndum Suðurlands. En einn góðan veðurdag dettur þm. einum í hug að efna til happdrættis í því skyni og öðrum að tengja framkvæmdina ellefu hundruð ára afmæli byggðar í landinu. Og viti menn. Hið óframkvæmanlega virtist nú leikur einn. Menn gerðu sér dagamun í sumarblíðunni 1974 og óku austur og vestur yfir fljótin sem byltust á brunasöndum.

Árið áður hafði gosið í Eyjum og margt gerðist nánast í sömu svipan. Í því sambandi var stórbætt hafnaraðstaðan í Þorlákshöfn. Þar er nú höfn fyrir 4–5 þúsund tonna skip, 110 metra langur viðlegukantur og 7 metra dýpi. Með tiltölulega litlum kostnaði er hægt að stækka höfnina fyrir 5–6000 tonna skip. Höfnin við Grundartanga er af þeirri stærð, enda þótt stærri skip geti lagst þar við bryggjuhaus. Þannig er það oft að stærstu framfarasporin verða nánast af ófyrirséðum ástæðum.

Hæstv. forseti. Ég tel að ég hafi hér rakið í fremur stuttu máli rökin fyrir þeirri bráðu nauðsyn sem Sunnlendingum er á að sú þáltill. sem hér er fram borin verði samþykkt og efni hennar komi til framkvæmda fyrr en síðar. Hér er um efni að ræða sem tekur langan tíma í umræðu og undirbúningi. Þess vegna er brýnt að því sé ýtt á flot sem fyrst. Ég vænti þess að skilningur og vilji þingheims reynist Sunnlendingum hliðhollur og bið þess, herra forseti, að till. verði að frestaðri þessari umr. vísað til hv. atvmn.