27.02.1985
Neðri deild: 45. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3376 í B-deild Alþingistíðinda. (2747)

5. mál, útvarpslög

Guðrún Agnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Fyrir þessu 107. löggjafarþingi liggja tvö frumvörp til útvarpslaga. Annað er það stjfrv. sem hér er til umr. í Nd. og lagt er fram af hæstv. menntmrh. Hitt er frv. Kvennalista, lagt fram í Ed. af hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur.

Viðleitni hefur verið sýnd á undanförnum árum hér á Alþingi til þess að endurskoða og breyta og bæta löggjöf um útvarpsrekstur. Það stjfrv. sem hér er lagt fram var samið af þar til skipaðri nefnd og skilaði hún áliti sínu fyrir nær þremur árum til þeirra sem þá voru þm. í þessu húsi. Frv. þetta var svo lagt fram á síðasta þingi nær óbreytt frá því sem nú er. Þó sætir það furðu að þessu viðamikla máli skuli hafa verið ætlaður jafnnaumur tími til umfjöllunar og lögð var áhersla á þegar þessu frv. var fylgt úr hlaði laust eftir miðjan október s.l., en þá var til þess ætlast að frv. tæki gildi röskum tveimur vikum síðar. Það hefur nú komið í ljós við nánari umfjöllun málsins í nefnd að þarna var um óraunsæjar kröfur að ræða. Málið snertir afstöðu manna til ýmissa grundvallarhugmynda eins og t.d. frelsis. Það er tæknilega margslungið og um ýmsa fleti þess og framkvæmd ríkir ágreiningur, ekki aðeins milli flokka heldur líka meðal einstaklinga innan flokka. Ég vil því af þessu tilefni vara við slíkum vinnubrögðum, sem allt of oft sjást hér á Alþingi, þegar þm. er ætlað að kasta til höndunum vegna naumra tímamarka sem sett eru um mál. Slíkt er ekki hægt að sætta sig við.

Þetta er þeim mun meiri ábyrgðarhluti þegar um er að ræða viðamikil mál. Kvennalistinn tók þegar frá upphafi þá afstöðu í útvarpsmálum að styðja einkarétt Ríkisútvarpsins, en í stefnuskrá Kvennalista segir, með leyfi forseta:

„Við viljum ekki breyta útvarpslögunum að því er tekur til einkaréttar Ríkisútvarpsins til útsendinga en styðjum hugmyndir um fleiri rásir, landshlutaútvarp og beinan aðgang hópa eða félagasamtaka að ríkisfjölmiðlum.“ Reyndar segir áfram í stefnuskránni: „Í samræmi við hugmyndir okkar um valddreifingu viljum við leggja niður flokkspólitísk ráð og stjórnir á öllum sviðum menningar og lista.“

Það er því ljóst af þessari tilvitnun að hugmyndir Kvennalistans stangast frá öndverðu í meginatriðum á við þær skoðanir sem túlkaðar eru í stjfrv. Þær hugmyndir sem ég kynnti áðan ásamt þeim grundvallarhugmyndum um valddreifingu sem eru ein af undirstöðum Kvennalistans eða hugmyndafræði hans urðu síðan kveikjan að því frv. sem samið var af Kvennalistakonum, en um valddreifingu segir m.a. í stefnuskrá Kvennalista, með leyfi forseta:

„Við teljum nauðsynlegt að dregið verði stórlega úr miðstýringu íslensks samfélags. Síaukin miðstýring færir völd og ábyrgð á æ færri hendur. Talandi dæmi um þetta eru viðamikil ráðuneyti þar sem ákvarðanir eru teknar um jafnt hin stærstu mál sem varða þjóðina alla og minni mál sem snerta eingöngu einstök sveitarfélög. Allir þekkja ráðuneytis tilskipanir um hvernig skuli haga þjónustu, t.d. við fatlaða og aldraða, og hvernig fyrirkomulagi skólastarfs skuli háttað án tillits til staðhátta eða þarfa neytenda.

Sambærilega miðstýringu er að finna í öllum ríkisstofnunum. Þar ráða ríkjum flokkspólitísk ráð og nefndir en starfsfólk og neytendur eru áhrifalitlir um allar meiri háttar ákvarðanir. Flestir fá þannig litlu ráðið um skipan samfélagsins, verða áhorfendur og þolendur, í stað þess að vera þátttakendur. Í slíkum kerfum er rödd kvenna veik og hagsmunir þeirra fyrir borð bornir.

Því viljum við leggja áherslu á að kannaðar verði leiðir til aukinnar valddreifingar í stjórnkerfinu. Við viljum valddreifingu sem felur í sér að fjármála- og stjórnunarvald færist frá miðstýrðum ríkisstofnunum út til fólksins í landinu. Einkum leggjum við áherslu á að minnka miðstýringu og kerfisbindingu í skóla- og menningarmálum og á sviði heilbrigðis- og félagsmála. Á þessum sviðum viljum við smáar og sjálfstæðar einingar þannig að hver og einn hafi tækifæri til að hafa þar bein áhrif á gang mála ...

Með valddreifingu af þessu tagi viljum við stuðla að frjórra og fjölbreytilegra mannlífi sem tekur tillit til þess sem hver og einn hefur fram að færa þar sem samheldni og samábyrgð sitja í fyrirrúmi.“

Þetta frv. er um margt gerólíkt því stjfrv. sem hér er til umr. og því mjög erfitt að bera það sem heild eða hluta þess fram sem brtt. við stjfrv. Þó er þar nægilegt hráefni góðra hugmynda og því vil ég kynna þær hér til þess að þær eigi greiðari aðgang að þeirri almennu umfjöllun um útvarpsmál sem fer fram hér á Alþingi og úti í þjóðfélaginu. Ég vil því lesa úr grg. þessa frv. Kvennalista um útvarpsmál, með leyfi forseta:

„Fæstum blandast hugur um þýðingu fjölmiðla í nútímasamfélagi. Almennur þekkingarforði ræðst sífellt meira af starfsemi fjölmiðla og þeir gegna æ stærra hlutverki í skoðanamyndun og félagsmótun almennings. Auk þess eru fjölmiðlar mikilvægur miðill menningar, listsköpunar og afþreyingar. Fjölmiðlar eru því áhrifavaldar á öllum sviðum þjóðfélagsins.

Hin öra tækniþróun, sem átt hefur sér stað í dreifingu hljóðvarps- og útvarpsefnis, hefur skapað margvíslega möguleika m.a. til móttöku erlends efnis. Það má þó aldrei verða stefna Íslendinga að nota tæknina tækninnar vegna og verða þannig þrælar hennar heldur ber að taka tæknina í þjónustu íslenskrar menningar. Ef allar gáttir eru látnar standa opnar í þessum efnum gefur auga leið að íslenskri menningu og tungu er hætta búin.

Ríkisútvarpið hefur verið eitthvert öflugasta menningartæki landsmanna og hefur lögum samkvæmt miklar menningarlegar skyldur. Menning kostar peninga en gildi hennar er ómetanlegt. Það er hagur allra landsmanna að menning og tunga þjóðarinnar sé varðveitt. Enginn einn aðili í landinu annar en Ríkisútvarpið á hagsmuna að gæta í að miðla íslenskri menningu og efla hana í allri sinni fjölbreytni handa öllum landsmönnum í senn. Þess vegna er m.a. í frv. þessu tryggt að hlutfall íslensks efnis verði aldrei minna en helmingur af útsendu efni hverrar útvarpsstöðvar. Samræmd fjölmiðla- og menningarstefna hefur úrslitaþýðingu fyrir okkur sem þjóð og einstaklinga og það ber að hafa í huga þegar sett eru útvarpslög.

Menningar- og fjölmiðlastefna Íslendinga hlýtur að byggja á lýðræðislegum grunni. Á undanförnum misserum hefur mikið verið rætt um frelsi og lýðræði í útvarpsmálum. Því hefur verið haldið fram að frelsi fælist í ótakmarkaðri uppsetningu útvarpsstöðva og ótakmarkaðri móttöku útvarpsefnis. En „frelsi“, sem aðeins kveður á um réttindi en ekki skyldur, sem helgar rétt hins styrkari án þess að gæta réttar þess sem minna má sín, er frelsi án ábyrgðar og samræmist vart raunverulegu lýðræði.

Útvarpsrekstur er fjárfrekt fyrirtæki. Aðeins þeir sem fjármagn hafa eiga þess kost að setja á stofn og reka útvarpsstöðvar. Lýðræði fjármagnsins er ekki það lýðræði sem stjórnarskráin kveður á um og stuðlar ekki að tjáningarfrelsi allra einstaklinga. Eingöngu útvarp allra landsmanna, þ.e. Ríkisútvarp í nýrri mynd, getur haldið í heiðri raunverulegt lýðræði og tjáningarfrelsi í útvarpsmálum.

Í þessu frv. heldur Ríkisútvarpið einkarétti á útvarpsrekstri í landinu en starfsemi stofnunarinnar er efld og komið er til móts við óskir um meiri fjölbreytni og greiðari aðgang landsmanna allra að fjölmiðlun þeirri sem útvarpstækni veitir með þriðju hljóðvarpsrásinni og möguleikum á staðbundnum útvarpsstöðvum, þ.e. hljóðvarps- og sjónvarpsstöðvum. Í annan stað er skipulagi og rekstri stofnunarinnar breytt í grundvallaratriðum og er það gert á eftirfarandi forsendum:

Íslenskt þjóðfélag byggir á valdakerfi fulltrúalýðræðis. Í hugum fólks býður þetta fyrirkomulag upp á eins mikið réttlæti og raunsætt þykir að fara fram á í samfélagi manna. Þetta valdakerfi hefur samt augljósa annmarka í framkvæmd. Menn kjósa fulltrúa til að annast mál sín á öllum sviðum og afsala sér oft um leið möguleika til að hafa bein áhrif á nánasta umhverfi sitt. Afleiðing þess kerfis er að allur þorri manna er gerður nánast óvirkur og jafnvel afskiptalaus um samfélag sitt. Þetta á alls staðar við í þjóðfélaginu. Eina leiðin til að vega þar upp á móti er aukin valddreifing á sem flestum sviðum þjóðlífsins.“

Í stefnuskrá Samtaka um kvennalista segir um valddreifingu það sem ég sagði áðan og mun því ekki endurtaka.

„Með þessu frv. er gerð tilraun til valddreifingar í Ríkisútvarpinu þar sem sérhver starfsmaður er gerður ábyrgari í starfi og honum jafnframt gefinn kostur á að nýta hæfileika sína betur. Til þess að svo megi verða er ákvarðanataka færð úr höndum deildarstjóra og annarra yfirmanna til starfsmanna þeirrar deildar er málið varðar hverju sinni. Þetta á við um allar ákvarðanir, hvort sem um er að ræða rekstur, mannaráðningar eða annað sem til fellur. T.d. á þetta við um dagskrá í dagskrárdeildum. Með þessu er starfsmönnum treyst til að vinna störf sín af metnaði og ósérplægni sem er stofnuninni nauðsynlegt til að fullnægja kröfum sem gerðar eru til hennar. Ef upp kemur ágreiningur innan deildar, sem ekki semst um á annan hátt, skal atkvæðagreiðsla skera úr um málið og er eðlilegast að það sé gert með vægiskosningu enda tryggir hún best jafnt vægi allra skoðana.

Starfsmenn hverrar deildar velja umsjónarmenn og sjá þeir um að framkvæma ákvarðanir sem teknar eru af starfsmönnum deildarinnar. Umsjónarmenn sitja í framkvæmdanefnd sem samræmir störf og ákvarðanir deilda og eru þeir tengiliður milli deilda og framkvæmdaráðs. Framkvæmdaráð tekur að hluta til við þeim störfum sem nú er gegnt af útvarpsstjóra en starfssvið þess er víðtækara þar sem ráðið er einnig tengiliður milli allra útvarpsstöðva.

Útvarpsráð í núverandi mynd leggst af. Reynslan hefur sýnt að meiri hluti útvarpsráðs, sem er pólitískt kjörið og hefur endanlegt ákvörðunarvald um dagskrá, hefur vald og aðstæður til að þjóna flokkshagsmunum fremur en að gæta hlutleysisskyldu sem á stofnuninni hvílir lögum samkvæmt. Það getur einnig reynst starfsmönnum erfitt að gæta fyllsta hlutleysis í starfi þegar úrslitavald til að ákveða dagskrá er að lokum í höndum fulltrúa pólitískra afla. Pólitískt kjörið útvarpsráð er því óæskilegt.“

Ég vil inni í þessari tilvitnun fá að vitna enn fremur, með leyfi forseta. Það kom í Ríkisútvarpinu í morgun frétt frá Danmörku þar sem vitnað er til kjörinnar 60 manna nefndar sem hafði verið falið að fylgjast með reynslutíma þeirra útvarpsstöðva sem hafa verið leyfðar í Danmörku. Hún var eindregið sammála því að aflagt skyldi pólitískt kjörið útvarpsráð. Það væri ríkisútvarpinu danska nauðsynlegt til að lifa af og standast samkeppni að lúta stjórn duglegra fagmanna. Ég held því áfram þar sem ég sleit þessa tilvitnun í grg. frv. um útvarpslög sem Kvennalistinn flytur:

„Þess í stað“, þ.e. í stað útvarpsráðs, „kemur notendaráð skipað 14 körlum og konum. Notendaráð er valið með tilviljunarúrtaksaðferð enda er hún eina úrtaksaðferðin sem tryggir jafna möguleika allra landsmanna, sem kjörgengi hafa og kosningarrétt, til setu í notendaráði. Slík tilnefning hefur hvetjandi áhrif á einstaklinga til skapandi hugsana og starfa. Jafnframt eykur valddreifing af þessu tagi áhuga einstaklinga á að hafa mótandi áhrif á umhverfi sitt. Hlutverk notendaráðs er að móta dagskrárramma útvarpsstöðvanna hvað varðar hlutfall hinna ýmsu efnisflokka, (t.d. hlutfall barnaefnis, íþrótta, afþreyingarefnis) og ráðið gætir þess að mismunandi sjónarmið allra málaflokka fái sambærilega umfjöllun. Að öðru leyti skiptir notendaráð sér ekki af dagskrárgerð né framkvæmd dagskrár en gagnrýnir hana eftir á og veitir starfsmönnum Ríkisútvarpsins þannig aðhald í störfum sínum.

Valddreifing sú, sem frv. þetta byggir á, er að mati flm. undirstaða sanngjarnari þjóðfélagsskipunar en við búum nú við. Með þessu frv. er leitast við að færa sér kosti valddreifingar í nyt í útvarpsmálum og tryggja að Ríkisútvarpið verði ótvírætt fjölmiðill landsmanna allra, lýðfrjálst útvarp þar sem íslensk menning og virðing fyrir skoðunum allra einstaklinga og hópa í íslensku þjóðfélagi sitja í öndvegi.“

Þegar þetta frv. var kynnt í Ed. flutti flm. útskýringar með hinum ýmsu greinum frv. og mig langar að vitna í hennar mál. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir sagði í framsögu fyrir frv., með leyfi forseta:

„Hér lýkur grg. með frv. Mun ég nú fjalla um einstakar greinar þess. Það er óhjákvæmilegt að hafa þann háttinn á því að nýmæli í frv. eru mörg og vísast eru aðrar leiðir ekki betri til að koma þeim skilmerkilega til skila við þessa umr.

Í 1. gr. frv. er kveðið á um að Ríkisútvarpið sé sjálfstæð stofnun í eigu íslenska ríkisins. Er þessi grein óbreytt frá 1. gr. gildandi laga. Í 2. gr. frv. er einkaréttur Ríkisútvarpsins á útvarpi, þ.e. hljóðvarpi og sjónvarpi, hér á landi áfram tryggður. Er ástæða til að fjalla hér dálítið um þetta atriði.

Skilningur manna á því hvað felist í einkarétti Ríkisútvarpsins er nokkuð mismunandi. Eins og fram hefur komið í umr. um útvarpsmál að undanförnu hafa sumir talsmenn svonefnds frjáls útvarps gengið svo langt að kalla einkarétt Ríkisútvarpsins á útvarpi einokun án þess þó að skilgreina, hver sé að einoka hvern í þessum málum. Að mínu viti einokar einkaréttur Ríkisútvarpsins engan og ekkert hér á landi af þeirri einföldu ástæðu, að Ríkisútvarpið er eign íslensku þjóðarinnar og ber skv. lögum að gæta hagsmuna landsmanna allra. Einkaréttur Ríkisútvarpsins á útvarpi er því almenningsréttur, sem á að tryggja, að landsmenn allir hafa sama rétt gagnvart þeirri fjölmiðlun, sem fram fer í útvarpi, að útvarp hér á landi sé almenningseign, þar sem öllum sjónarmiðum sé gert jafnhátt undir höfði. Raunverulegt einkaréttarfyrirkomulag á útvarpi felst hins vegar að mínu viti í þeim einkarekstri útvarpsstöðva, sem frv. ríkisstj. til útvarpslaga kveður á um og sá einkaréttur getur fyrirsjáanlega snúist upp í raunverulega einokun á þessu sviði fjölmiðlunar, það sem nefnt hefur verið einokun fjármagnsins í fjölmiðlaheiminum ... Þegar eru teikn á lofti sem benda í þá átt, að svo kunni að fara. Er þar nærtækast að minna á fyrirtækið Ísfilm, sem tilbúið er til að hefja útvarpsrekstur strax á morgun að því er virðist, ef leyfi fengist. En að því fyrirtæki standa m.a. tvö dagblöð, Morgunblaðið og Dagblaðið/Vísir, sem þegar ráða yfir stórum hluta þess fjölmiðlamarkaðar, sem hér er fyrir hendi. Í stað þess að auka á það misvægi, sem þegar er í fjölmiðlum hér á landi, þegar litið er til dagblaðanna og færa lögmál dagblaðamarkaðarins yfir á útvarpsrekstur í landinu vil ég tryggja almenningsrétt á þeirri fjölmiðlun, sem fram fer í úfvarpi, m.a. til að mynda eðlilegt mótvægi við einkarekstursfyrirkomulag dagblaða. Að öllu samanlögðu tel ég brýnt að tryggja jafnan rétt landsmanna allra gagnvart útvarpsfjölmiðlun og því er einkaréttur Ríkisútvarps á útvarpi áfram tryggður í 2. gr. frv. Jafn brýnt er vitaskuld að gera Ríkisútvarpinu kleift að gegna hlutverki sínu sómasamlega. Eru tekjustofnar þess því efldir í þessu frv., skipulagi og stjórn stofnunarinnar breytt í grundvallaratriðum og starfsemi hennar stóraukin og opnuð m.a. með þriðju rásinni, sem á að vera öllum þeim sem áhuga hafa á útvarpsútsendingum opin til notkunar. Kem ég nánar að þessum atriðum hér á eftir.

Nýmæli í 2. gr. frv. er að felld eru niður tollagjöld af tækjum sem Ríkisútvarpið flytur inn til eigin þarfa. Árið 1983 námu tollagjöld af tækjabúnaði innanhúss rúmum 20 millj. kr. Þetta er liður í að mæta auknum kostnaði, sem Ríkisútvarpinu er gert að standa straum af vegna uppbyggingar nýrra stöðva og aukins starfsmannahalds. Nýr kostnaðarliður Ríkisútvarpsins er einnig dreifikerfi og tækjabúnaður vegna Rásar 3, en gera má ráð fyrir að stofnkostnaður við hana verði svipaður og vegna Rásar 2, eða um 60 millj. kr. á núgildandi verðlagi skv. upplýsingum fjármálastjóra Ríkisútvarpsins.

3. gr. frv. kveður á um skyldur Ríkisútvarpsins og hlutverk þess sem útvarps allra landsmanna. Greinin er að mestu leyti óbreytt frá 3. gr. gildandi laga en nýmæli er ákvæði um að a.m.k. helmingur útsends efnis hverrar stöðvar skuli vera íslenskur. Er þetta liður í að efla og varðveita íslenska tungu og menningu eins og fram kemur í grg. Enn fremur er bætt inn í greinina að Ríkisútvarpinu sé skylt að „efla skilning á mismunandi viðhorfum og menningarheimum“. Þetta hefur Ríkisútvarpið hingað til gert og er þessu atriði bætt hér inn eingöngu til áréttingar. Ekki þykir rétt að taka einstaka málaflokka fram yfir aðra og því er orðunum„... þar á meðal umferðar- og slysavarnamálum“, sem standa í núgildandi lögum, sleppt í þessu frv. enda kveður greinin ótvírætt á um slíka fræðslu.

Í greininni er einnig kveðið á um að menning og reynsla minnihlutahópa fái sambærilega umfjöllun og meirihlutahópa og þess skuli sérstaklega gætt að kynjum sé ekki mismunað á neinu sviði. Þetta ákvæði er sett inn til áréttingar og sem sjálfsagðar starfsreglur starfsmanna fjölmiðils allrar þjóðarinnar.

4. gr. frv. er svohljóðandi, með leyfi forseta: „Ríkisútvarpið skal senda út til alls landsins a.m.k. þrjár hljóðvarpsdagskrár og a.m.k. eina sjónvarpsdagskrá. Heimilt er Ríkisútvarpinu að stofna til fræðsluútvarps í samvinnu við fræðsluyfirvöld. Ríkisútvarpinu er heimilt að stofna staðbundnar útvarpsstöðvar óski sveitarfélög þess, eitt eða fleiri, að uppfylltum skilyrðum, sbr. 7. gr. laga þessara.“

Eins og fram kemur í aths. við greinina er hér gert ráð fyrir a.m.k. einni hljóðvarpsrás til viðbótar við þær tvær sem fyrir eru. Þriðja rásin er ætluð fyrir hvers konar efni frá félagssamtökum, hagsmunahópum og einstaklingum sem þar með hafa beinan aðgang að þeirri fjölmiðlun sem hljóðvarpstækni veitir. Einnig má benda á að rásin hentar einkar vel fyrir kennsluútvarp og beint útvarp frá Alþingi.

Gera verður ráð fyrir að nokkurn tíma taki að byggja upp staðbundnar útvarpsstöðvar, svo og dreifikerfi þriðju rásarinnar, en æskilegt er að hafist verði handa við uppsetningu dreifikerfis Rásar 3 svo fljótt sem auðið er. Landsrásir Ríkisútvarpsins þjóna landsmálum fremur en málum er varða einstök héruð og byggðarlög. Tilgangur staðbundinna útvarpsstöðva er að koma til móts við þarfir einstakra byggðarlaga sem landsrásirnar geta ekki orðíð við. Vil ég í því sambandi nefna það svæðisútvarp sem nú er verið að koma upp á Akureyri.

Svæðisútvarpi eða staðbundnum útvarpsstöðvum er ætlað að auðvelda upplýsingastreymi og tjáskipti á afmörkuðum svæðum. Hvað snertir stofnun staðbundinna útvarpsstöðva má telja eðlilega þróun að byrjað verði með landshlutastöðvar þannig að þróunin í uppbyggingu verði sambærileg í öllum landshlutum. Áætlað er að fleiri stöðvar bætist síðan við eftir því sem svigrúm leyfir. Með þessu er þjónusta Ríkisútvarpsins stórlega aukin að umfangi og fjölbreytni.

5. gr. frv. kveður á um skiptingu Ríkisútvarpsins í útvarpsstöðvar og um sjálfstæði hverrar útvarpsstöðvar. Hér eins og ævinlega í frv. á útvarp bæði við um hljóðvarp og sjónvarp. I aths. með greininni segir svo um sjálfstæði útvarpsstöðva, með leyfi forseta:

„Með sjálfstæðri útvarpsstöð er átt við að stöðin fari sjálf með ákvarðanatöku um mál er hana varða innan ramma laga þessara. Miðstýring á þessum vettvangi, sem og öðrum, er óæskileg og því eðlilegt að hver útvarpsstöð verði sjálfstæð eining innan Ríkisútvarpsins, sbr. þær valddreifingarhugmyndir sem frv. byggir á og fjallað er um í grg.

Í 6. gr. frv. er kveðið á um starfsemi Rásar 3. Í aths. við greinina segir að vegna kostnaðar við hljóðver og annan tækjabúnað, sem nauðsynlegur er, þyki flm. fráleitt að félög, hagsmunahópar eða einstaklingar, sem vilja notfæra sér beinan aðgang að hljóðvarpi, þurfi hvert fyrir sig að fjárfesta í slíkum búnaði. Hér er því Ríkisútvarpinu gert skylt að leggja til hljóðver með tækniaðstoð til þáttagerðar á Rás 3. En þeim sem nýta sér útsendingar er gert að greiða annan kostnað við þáttagerðina.

Hugsanlegt er einnig að staðbundnar hljóðvarpsstöðvar noti dreifikerfi þriðju rásarinnar hluta úr degi til útsendingar hver á sínu svæði og er þá miðað við, að þriðja rásin sendi ekki út til alls landsins allan daginn.

Rétt þykir að staðbundnar útvarpsstöðvar hafi sama rétt og aðrir til að bjóða landsrásunum efni.

Í 7. og 8. gr. frv. er kveðið á um staðbundnar útvarpsstöðvar. Er það lagt í hendur íbúa hvers sveitarfélags að ákveða hvort stofna skuli staðbundna útvarpsstöð á svæðinu. Hlutverk sveitarstjórna í þessu efni er eingöngu að sjá um að kosning fari fram og sækja, að fenginni viljayfirlýsingu íbúa, formlega um að útvarpsstöð verði stofnuð. Ákvörðunarvaldið er sem sagt hjá íbúum í sveitarfélaginu og hlutverk sveitarstjórnar er eingöngu að sækja formlega um leyfi til að setja á fót staðbundna útvarpsstöð.

Nauðsynlegt er að sveitarstjórnir kynni íbúum kostnaðaráætlanir við mismunandi dreifikerfi staðbundinna sjónvarpsstöðva og hljóðvarpsstöðva, svo og annan kostnað sem íbúunum er gert að bera vegna stöðvanna, áður en kosning fer fram.

Til þess að auðvelda Ríkisútvarpinu að koma á fót staðbundnum útvarpsstöðvum er til þess ætlast að notendur, sem æskja þessarar þjónustu, standi undir hluta stofnkostnaðar sjálfir. Ríkisútvarpinu er gert að sjá um innheimtu stofngjalds frá notendum og í samvinnu við Póst- og símamálastofnun skal það sjá um að setja upp dreifikerfi staðbundinna útvarpsstöðva.

Ákveði sveitarstjórn að styrkja staðbundna útvarpsstöð með framlagi úr sameiginlegum sveitarsjóðum skal það framlag greiðast til Ríkisútvarpsins sem síðan skal standa viðkomandi sveitarstjórn skil á ráðstöfun fjárins.

Í 9. gr. frv. er kveðið á um mannaráðningar að útvarpsstöðvum. Í aths. með greininni segir, með leyfi forseta:

„Í frv. er gert ráð fyrir að starfsmenn hverrar stöðvar annist að jafnaði ráðningar starfsmanna að stöðinni, sbr. 10. og 11. gr. frv. Því verður augljóslega ekki við komið við stofnsetningu nýrra útvarpsstöðva og því er sá háttur hafður á að framkvæmdaráð Ríkisútvarpsins auglýsir eftir tveimur starfsmönnum og ræður í störfin þegar ný útvarpsstöð er stofnsett. Skal annar starfsmannanna hafa nauðsynlega tækniþekkingu en rétt þykir að hver stöð fyrir sig ákvarði starfssvið hins starfsmannsins.“

Í 10. og 11. r. er kveðið á um innra skipulag Ríkisútvarpsins. ~aths. segir, með leyfi forseta:

„Í samræmi við valddreifingarhugmyndir frv. er gert ráð fyrir að starfsmenn hverrar útvarpsstöðvar taki ákvarðanir um málefni sem stöðina varða innan ramma þessara laga. Á sama hátt er gert ráð fyrir að starfsmenn hverrar deildar innan stórra stöðva eins og landsrásanna stjórni sínum málum. Augljóst er að starfsmenn hverrar deildar hafa besta yfirsýn og þekkingu hver á sínu sviði. Því er eðlilegt að t.d. ákvarðanir um tækjakaup séu teknar sameiginlega af starfsmönnum hverrar tæknideildar í samræmi við fjárhagsáætlun Ríkisútvarpsins, sbr. 11. gr. frv. Á sama hátt teljum við eðlilegt að ákvarðanir um dagskrá hverrar stöðvar séu í höndum starfsmanna dagskrárdeildar og fréttamat og ákvarðanir um fréttir í höndum starfsmanna fréttadeildar, enda hlíti þeir ákvæðum 3. gr. frv., sem kveður á um hlutleysisskyldu Ríkisútvarpsins, og þeim sé jafnframt veitt aðhald í þeim efnum frá notendaráði og notendaþáttum.

Mannaráðningar eru einnig í höndum starfsmanna hverrar deildar og hverrar staðbundinnar stöðvar þar sem starfsmenn hverrar deildar eru að jafnaði hæfastir til að meta störf við deildina og þar með umsóknir um þau. Þeir munu væntanlega einnig setja hagsmuni deildarinnar ofar öðrum hagsmunum við mannaráðningar, sem og í öðrum málum, einfaldlega vegna þess að annað kæmi niður á þeim sjálfum.

Hvað snertir störf umsjónarmanns er rétt að starfsmenn hverrar deildar skipti með sér umsjón framkvæmda, sem og öðrum störfum í eins ríkum mæli og unnt er. Ráðningartími umsjónarmanns ræðst af aðstæðum og óskum hverju sinni en ekki er gert ráð fyrir að hver starfsmaður gegni starfi umsjónarmanns lengur en þrjú ár í senn. Hlutverk umsjónarmanns er jafnframt að sitja í framkvæmdanefnd útvarpsstöðvarinnar sem sér um samræmingu á ákvörðunum hinna ýmsu deilda og fjallar um málefni sem snerta fleiri en eina deild.

Framkvæmdaráð er skipað þremur mönnum og tekur það að hluta til við störfum núverandi útvarpsstjóra. En jafnframt er starfssvið þess umfangsmeira þar sem gert er ráð fyrir fjölgun útvarpsstöðva. Eins og segir í greininni er það hlutverk framkvæmdaráðs að samræma rekstur útvarpsstöðvanna, sjá um tengsl milli framkvæmdanefnda allra stöðvanna og sjá um gerð og framkvæmd fjárhagsáætlana Ríkisútvarpsins.

Deildir Ríkisútvarpsins falla undir þrjú meginsvið útvarpsrekstrar: dagskrársvið, tæknisvið og rekstrar- og fjármálasvið. Þessi þrjú meginsvið eru lögð til grundvallar þegar valið er í framkvæmdaráð þannig að þau eigi hvert sinn fulltrúa þar sem fjárhagsáætlanir eru gerðar og þar sem endanleg ábyrgð á fjármálum er. Með þessu er tryggt að fagleg þekking og sjónarmið þessara þriggja meginsviða útvarpsrekstrar nýtist stofnuninni sem best.

Dagskrármenn allra útvarpsstöðva sameinast um að velja einn fulltrúa, tæknimenn allra útvarpsstöðva velja einn fulltrúa og starfsmenn aðalskrifstofu fjármáladeilda allra útvarpsstöðva velja einn fullfrúa til setu í ráðinu. Formleg ákvæði um fundasetu framkvæmdaráðs eru sett til að tryggja samskipti þess og allra eininga Ríkisútvarpsins.

Í frv. er gert ráð fyrir að enginn sitji lengur í framkvæmdaráði en þrjú ár í senn og er það í samræmi við valddreifingarhugmyndir frv.“

Í 12. og 13. gr. er kveðið á um notendaráð og starfssvið þess, en notendaráð kemur í stað núverandi útvarpsráðs sem, eins og menn vita, er pólitískt skipað. Er þessi háttur hafður á þar sem okkur Kvennalistakonum þykir miklu skipta að eigendur og notendur Ríkisútvarpsins, þ.e. almenningur í landinu, eigi þar greiðari og beinni aðgang að skipan mála en fæst með núverandi fyrirkomulagi.

Eins og segir í athugasemdum með 12. gr. er notendaráð skipað sjö konum og sjö körlum sem með tilviljunarúrtaki eru valin úr þeim hópi landsmanna sem kjörgengi hefur og kosningarrétt skv. lögum. Tilviljunarúrtaksaðferðin er eina úrtaksaðferðin sem tryggir jafna möguleika landsmanna til setu í ráðinu. Við gerð þessa tilviljunarúrtaks þarf að gera ráð fyrir a.m.k. tveimur lagskiptum úrtökum, þ.e. konur annars vegar og karlar hins vegar, og jafnvel fleirum þar sem menn vildu e.t.v. taka tillit til búsetu og jafnvel til aldurs líka. Með þessu móti er öllum kjörgengum og atkvæðisbærum landsmönnum gefinn kostur á að gegna störfum í notendaráði. Líta ber á setu í notendaráði sem þegnskyldu sambærilega við skyldu til að sitja í kviðdómi, til að mynda í Bretlandi, enda eru störf notendaráðs ólaunuð. Samt er gert ráð fyrir að þeir, sem valdir eru, geti hafnað setu í ráðinu ef góðar og gildar ástæður eru fyrir hendi. Gert er ráð fyrir að notendaráð komi saman eftir þörfum, a.m.k. fjórum sinnum á ári. Ríkisútvarpið greiðir ferða- og dvalarkostnað vegna fundanna. Gert er ráð fyrir að vinnuveitandi veiti leyfi frá störfum án tekjutaps þannig að einstaklingur geti gegnt störfum í notendaráði, enda séu þau skilgreind sem þegnskylduvinna. Sé um ólaunað starf að ræða, t.d. heimilisstörf, verði Ríkisútvarpinu skylt að bera sannanlegan kostnað sem seta í notendaráði kann að hafa í för með sér fyrir viðkomandi að þessu leyti. Einnig er gert ráð fyrir að framkvæmdaráð Ríkisútvarpsins undirbúi fundi notendaráðs og að fulltrúar úr framkvæmdaráði skipti með sér að stjórna fundum ráðsins. Hver útvarpsstöð skal skila notendaráði skýrslu um úfsent efni a.m.k. fjórum sinnum á ári svo og ramma að dagskrá næstu mánuði.

Í 13. gr. er kveðið á um starfsemi notendaráðs, hvernig það skal leggja drög að skiptingu efnis í höfuðdráttum í hverri útvarpsstöð og fjalla um drög að dagskrá sem gert er ráð fyrir að útvarpsstöðvar skili til ráðsins reglulega ásamt skýrslum um það efni sem þegar hefur verið sent út. Ráðið skal ávallt gæta þess að ákvæði 3. gr. séu í heiðri höfð. Að öðru leyti skiptir notendaráð sér ekki af framkvæmd dagskrár fyrir fram en gagnrýnir hana eftir á. Framkvæmdaráð sér um að koma vilja ráðsins á framfæri við deildir eða útvarpsstöðvar sem í hlut eiga og að honum sé framfylgt.

Notendaráð auglýsir eftir og ræður síðan umsjónarmenn að föstum þætti í hverri útvarpsstöð sem fjallar um gagnrýni notenda á útsendu efni stöðvarinnar. Þannig myndast bein tengsl milli notenda og starfsmanna viðkomandi stöðvar þar sem gert er ráð fyrir að starfsmenn svari gagnrýninni. Þessir þættir eru hluti af því aðhaldi sem starfmönnum Ríkisútvarpsins er veitt í störfum sínum og skulu umsjónarmenn þáttanna því ekki vera úr hópi fastra starfsmanna Ríkisútvarpsins.

Í II. kafla frv. er kveðið á um fjármál Ríkisútvarpsins. Helstu nýmælin þar er að finna í 14. og 15. gr. Í 14. gr. er leitast við að efla tekjustofna Ríkisútvarpsins, enda er tilgangurinn með frv. að efla og bæta Ríkisútvarpið og þar með að tryggja fjármagn til þess að það geti fullnægt lagalegum skyldum sínum.

Nýmælið í þessari grein er að lögbundið sé að öll aðflutningsgjöld af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum og hlutum í þau renni til Ríkisútvarpsins vegna aukinnar fjárþarfar þess. Árið 1983 voru aðflutningsgjöld af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum og hlutum í þau 47.5 millj. kr., sérstakt vörugjald nam tæplega 32 millj. kr. og tollafgreiðslugjald 0.8 millj. kr. Samtals gerði þetta því rétt rúmar 80 millj. kr., en þar af runnu til Ríkisútvarpsins 30.5 millj. kr.

Þótt lagt sé til að öll aðflutningsgjöld af hljóðvarpsog sjónvarpstækjum og hlutum í þau renni til Ríkisútvarpsins er sýnt að leita þarf fleiri leiða til að efla tekjustofna Ríkisútvarpsins. Má í því efni t.d. benda á þann tekjuöflunarmöguleika að undanskilja Ríkisútvarpið söluskatti af auglýsingum, en hann nam rúmum 35 millj. kr. á árinu 1983. Undanþágur sem þessar eru þegar fyrir hendi, sbr. að dagblöð eru undanþegin söluskatti af auglýsingum.

Samanlagt munu þessir tekjustofnar auk þeirrar gjaldaniðurfellingar, sem 2. gr. frv. kveður á um, skila Ríkisútvarpinu um 105 millj. kr. miðað við verðlag ársins 1983, en það sama ár námu rekstrargjöld hljóðvarps og sjónvarps rúmlega 350 millj. kr., svo að menn hafi einhverja hugmynd um hlutfall þeirrar fjárhæðar sem hér um ræðir. Vísast eru þessar tekjur engan veginn nægar til að standa undir stórfelldri starfsemi Ríkisútvarpsins á skömmum tíma. En þær eru spor í áttina. Það er vitaskuld undir Alþingi komið, eins og kveðið er á um í frv., að ákveða nýja tekjustofna Ríkisútvarpsins og þar með þann hraða sem á uppbyggingu þess verður.

Í 14. gr. er einnig gert ráð fyrir að hver útvarpsstöð ákveði auglýsingataxta og aðrar gjaldskrár sínar sjálf enda er hver útvarpsstöð sjálfstæð rekstrareining. Í þessu efni eru þó afnotagjöld undanskilin þar sem gert er ráð fyrir að framkvæmdaráð ákveði þau í samvinnu við framkvæmdanefndir hverrar stöðvar. Enda er framkvæmdaráð ábyrgt fyrir gerð og framkvæmd fjárhagsáætlunar Ríkisútvarpsins.

Í 15. gr. er kveðið á um að hver útvarpsstöð skuli standa sjálf undir rekstri sínum og því er áætlað að tekjur hverrar stöðvar renni óskiptar til hennar. Framkvæmdaráði er ætlað að yfirfara fjárhagsáætlun hverrar úfvarpsstöðvar og hafa hönd í bagga með ákvörðun afnotagjalda, enda er framkvæmdaráð ábyrgt fyrir gerð og framkvæmd fjárhagsáætlunar. Ríkisútvarpið hefur þegar innheimtukerfi sem sjálfsagt er að nýta fyrir innheimtu afnotagjalda allra útvarpsstöðva því að annars þyrfti hver og ein stöð að koma sér upp slíku kerfi og það yrði mikill kostnaðarauki.

Um aðrar greinar frv. sé ég ekki ásfæðu til að fjölyrða þar sem þær fela ekki í sér veruleg nýmæli frá gildandi lögum eins og þær greinar sem ég hef rætt um og þess vegna talið nauðsynlegt að fjalla dálítið ítarlega um. Rétt er þó að taka fram að í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að lög þessi verði endurskoðuð að fimm árum liðnum frá gildistöku þeirra, enda er hér um umfangsmiklar breytingar á skipan útvarpsmála að ræða sem eðlilegt er að endurskoða þegar reynslan hefur fengist af framkvæmdinni.

Og áfram vil ég vitna í orð hv. þm. Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur:

„Virðulegi forseti. Skipan útvarpsmála á tækniöld er menningarpólitískt stórmál. Hljóðvarp og sjónvarp hafa víðtæk mótandi áhrif hvarvetna í þjóðfélaginu. Þegar við fjöllum um útvarpsmál erum við um leið að fjalla um hvernig þjóðfélag við sjáum fyrir okkur og viljum hafa hér. Og þá megum við ekki gleyma því hver við erum. Við megum ekki gleyma því að við erum lítið menningarsamfélag í stórum heimi og okkur er nauðsyn að gæta menningar okkur og þjóðlegra einkenna jafnframt því sem okkur er nauðsynlegt að nýta okkur það besta úr menningu annarra þjóða.

Ríkisútvarpið hefur allt frá því að það var sett á stofn stuðlað að sameiningu þjóðarinnar í eina menningarheild. Það hefur staðið vörð um tungu okkar og menningu, um það sem gerir okkur að einni þjóð í þessu landi. Slíka hluti hefur engin þjóð efni á að forsmá og því er tryggt í þessu frv., sem ég er hér að mæla fyrir, að Ríkisútvarpið gegni þessu hlutverki áfram. En þótt hér sé um stóra hluti að ræða þá er það samt ekki nóg. Það er ekki nóg að standa vörð um íslenska tungu og menningu. Það verður líka að opna gáttirnar til umheimsins, taka við nýjum hugmyndum hvaðan sem þær koma, nýta þær og þróa. Það verður að halda áfram að skapa íslenska menningu í orðsins fyllstu merkingu.“

Ég vil hér ljúka við þessa tilvitnun í orð hv. þm. Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur.

Það hefur verið lærdómsríkt fyrir Kvennalistakonur að leggja fram þetta útvarpslagafrv. á Alþingi og reyna þau viðbrögð sem það hefur vakið. Fjölmargir aðilar utan þings hafa látið í ljós velþóknun sína á þeim meginhugmyndum sem koma fram í frv. Þó er langt frá því að heyrst hafi lofið eitt. Ramakvein hafa runnið úr börkum og pennum manna.

„Argasta afturhald“, kallar íhaldið sem vill opna allar dyr upp á gátt. Samt bregður fyrir iðrunarviðbrögðum á þeim bæ þar sem menn skynja hættuna af opingáttinni og vilja efla íslenska tungu og Íslandssögu sem viðnám gegn holskeflu engilsaxneskra áhrifa, eins og það hefur verið orðað. Engum er alls varnað. „Algjört stjórnleysi“, hrópar kratinn. „Vitlaus, vitlausari, vitlausastur“, stigbreyta aðrir. Hástigið er talið eiga best við hugmyndir kvennanna og hver etur upp eftir öðrum. En þessu eru konur vanar þegar þær eru að læðast til að fóta sig á nýjum sviðum og svo sem endranær líka. En kannske hafa slíkar raddir sín áhrif og þess vegna gengur það e.t.v. svona hægt fyrir konur að fóta sig í nýju landnámi. Þær skortir nefnilega almennt sjálfstraust. Þeim er ætlað að halda aftur af sér og sú árátta verður þeim brátt eiginleg sem grundvallaratriði í viðteknum hegðunarvenjum í því samfélagi þar sem við búum. Þau skilaboð koma til okkar kvenna strax á barnsaldri, bæði heima og heiman. Meðal þeirra skilaboða, sem við fáum, eru t.d. þær venjur og væntingar sem gilda um hlutverkaskiptingu kynjanna. Sú hvatning, sem flestar konur hafa fengið, miðar ekki að því að auðvelda þeim að koma fram á opinberum vettvangi eða tala á fundum. Hún miðar heldur ekki að því að beina þeim í áhrifastöður í þjóðfélaginu. Nei, því miður. Konum er í reynd alls ekki ætlað að tala í samkunduhúsum, hvorki um útvarpsmál né önnur mál, jafnvel ekki á Íslandi í dag.

Það er verst að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson er ekki staddur hér í dag. Hann hefði haft gaman af því að ég vitnaði í grein sem hann skrifaði um Seðlabankann í Dagblaðinu og Vísi 23. janúar s.l. Þar segir hv. þm. þegar hann ræðir um árlegan mandarínafund bankans þar sem messað er um fjármuni þjóðarinnar:

„Samankomnir kerfiskarlar kinka ákaft kolli og líta málið alvarlegum augum. Þetta er hátíðleg stund. Kerfiskarlarnir kikna eilítið í hnjáliðunum þegar þeir hugsa til þeirrar ábyrgðar sem á þeim hvílir. Þarna eru allir í svörtu og hvítu, engin kona viðstödd.“

Hvers vegna? spyr ég.

Hæstv. iðnrh. hafði á orði hér í haust eitthvað á þá leið að allir flokkar hefðu haft áhyggjur af verðbólgunni fyrir kosningar, meira að segja Kvennalistinn. Er nú verið að treysta konum til að hafa vit á málunum? En þeir eru duglegir að stigbreyta: Vitlaus, vitlausari, vitlausastur.

Nei, hv. þm. Nú eru aðrir tímar. Konur láta ekki lengur ýta sér til hliðar með því að láta rýja sig sjálfstrausti og segja sér að þær hafi vitlausari hugmyndir. Við erum ekkert hræddar við að gera mistök. Það er mannlegt. Auðvitað reynum við að forðast þau. En við höfum almennt svo hreinan skjöld hvað varðar mistök í meðferð opinberra mála eða við stjórnunarstörf að það háir okkur engan veginn. Við höfum einfaldlega ekki verið þar til að gera mistökin. Það hafa verið aðrir. Ef fram koma gallar í þessu frv. okkar um útvarpslög má lagfæra þá. Mörgum finnst stjfrv. meingallað. Ég hef engan séð roðna af þeim sökum.

Hitt er svo annað mál að við erum hér öll 60 til þess kjörin að vera fulltrúar ólíkra skoðana sem bærast með þjóðinni. Skilningur minn er sá að hlutverk okkar sé m.a. að reyna að koma okkur saman um mál að svo miklu leyti sem það er hægt en ella að lúta atkvgr. um framkvæmd mála. Jafnframt er það skilningur minn að við hljótum að virða rétt annarra til að hafa skoðanir, hversu andstæðar sem þær eru okkar eigin, alveg eins og nauðsynlegt er að viðhafa í Ríkisútvarpi þar sem ríkja verður virðing fyrir skoðunum allra einstaklinga og hópa í íslensku þjóðfélagi.