28.02.1985
Sameinað þing: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3433 í B-deild Alþingistíðinda. (2767)

310. mál, viðmiðunargrunnur verðtryggingar langtímalána

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við þessa till.

Í fyrsta lagi langar mig að vekja athygli á því að það er ekki eins einfalt verk og það virðist vera við fyrstu sýn að leggja réttan grunn fyrir lánskjaravísitölu, hvaða grunn sem menn velja sér, vegna þess að ef menn miða t.d. við vísitölu kauptaxta eða vísitölu ráðstöfunartekna eða einhverja slíka vísitölu og ætla að byggja lánskjaravísitöluna á því, þá mun það gerast að fari svo, sem við stefnum nú öll að, að kaupmáttur taki aftur að aukast, þá þyngist lánið, þá hækkar lánið meira en eðlilegt er. Gallinn á núverandi viðmiðun lánskjaravísitölunnar er sá að kaupmáttur hefur dregist saman og þess vegna eykst greiðslubyrðin. Ef kaupmáttur hefði hins vegar staðið í stað, ég tala nú ekki um ef hann hefði aukist, hefði greiðslubyrði lánanna alls ekki aukist. Ef kaupmáttur hefði staðið í stað hefði greiðslubyrðin staðið í stað. Ef kaupmátturinn hefði aukist, hefði greiðslubyrðin minnkað. Menn verða því að skoða það mjög vandlega hvernig þeir ætla að breyta þessari viðmiðun því að öll stefnum við að því að kaupmáttur aukist á ný og þá væri mjög óeðlilegt að greiðsluþunginn af láni ykist samsvarandi. Þá gæti komið til skoðunar að þegar árferði er eins og nú, að kaupmáttur fer rýrnandi, væri ákvæði um það sett í lánskjaravísitölu að til greiðslu skyldi þó aldrei koma meira hverju sinni en sem samsvaraði breytingu á kaupmætti annaðhvort kauptaxta eða ráðstöfunartekna og sé mismunur þar á milli bættist hann við höfuðstónsins og yrði e.t.v. til þess að lengja lánstímann.

Það er annað atriði sem ég vildi benda á, en varðar þetta mál ekki beint þó svo að það varði ákveðinn hluta þess. Það er það sem hv. frsm. sagði áðan um möguleika fólks til frádráttar á vöxtum og verðbótaþætti af lánum eins og hér er verið að ræða um, þ.e. lánum til öflunar húsnæðis eins og flest þessi lán eru með einum eða öðrum hætti. Sjálfsagt hafa allir, sem þurft hafa að telja fram til skatts, rekið sig á að í greiðslukvittunum frá lánastofnunum, bönkum og lífeyrissjóðum, eru gjarnan ekki tilteknar nema tvær tölur, annars vegar vextir sem gjaldfalla og eru innheimtir af greiðanda og hins vegar svokölluð afborgun sem er samanlögð tala afborgunar af nafnverðsupphæð og verðbótum. Nú er það svo skv. gildandi skattalögum að húsbyggjendum er heimilt að draga frá tekjum sínum ekki aðeins vextina heldur einnig verðbótaþáttinn í afborgunargreiðslum. Eins og gengið er frá greiðslukvittunum frá bönkum og allflestum lífeyrissjóðum er hins vegar ógerningur fyrir fólk að sjá af afborgunartölunni, sem færð er í einu lagi, hvað af henni eru verðbótagreiðslur sem má draga frá skatti og hvað af því er nafnverðsafborgun. Þetta verður til þess og hefur orðið til þess að fjölmargir einstaklingar, sem telja sjálfir fram og mér er ekki grunlaust um einnig ýmsir einstaklingar sem láta aðra telja fram fyrir sig, hafa orðið af stórfé í sambandi við vaxtafrádrátt sem skattalögin heimila þeim. M.ö.o.: þegar það lítur á þessar tvær tölur á greiðsluviðurkenningarseðli heldur fólkið að það megi aðeins draga frá skattinum sínum það sem fært er á greiðslukvittun sem vaxtagreiðslur, en athugar ekki að því er einnig heimilt að draga frá tekjum sínum þann hluta afborgunar sem eru verðbætur. Sá hluti getur oft verið stærri en nafnverðsafborgunin sjálf.

Það er að sjálfsögðu fráleitt að lánastofnanir skuli ganga þannig frá greiðslukvittun að það sé ekki alveg ljóst hvaða fjárhæðir það eru sem heimilt er að draga frá launum skv. gildandi skattalögum. Einmitt þess vegna hef ég rætt um þetta mál í dag við hæstv. viðskrh. og lagt fram fsp. til hans hér á Alþingi sem ég vona að verði þess valdandi að þessum málum verði kippt í lag og bönkum og lánastofnunum settar reglur um gerð greiðslukvittana, þannig að það geti ekki gerst, sem hefur gerst á undanförnum árum, að fólk hafi orðið af stórum fjárhæðum, sem því er heimilt að draga frá launatekjum sínum til skatts, vegna þess hversu ranglega og villandi greiðslukvittanir banka og lánastofnana eru gerðar.