28.02.1985
Sameinað þing: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3434 í B-deild Alþingistíðinda. (2768)

310. mál, viðmiðunargrunnur verðtryggingar langtímalána

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Mig langaði aðeins að bæta hér örlitlu við vegna þess sem sagt var hér áðan. Ég vil byrja á því að þakka undirtektir hv. þm. sem hafa talað í þessari umr. Það var þetta með kaupgjaldsvísitöluna. Það hefur vissulega heyrst oft einmitt undanfarna daga og vikur, ýmsir hafa sagt sem svo að við ættum að ríghalda jafnvel í lánskjaravísitöluna, svo vitlaus sem mörgum virðist hún, og sagt að ekkert vit væri í því að taka upp kaupgjaldsvísitölu. Þetta sé óeðlilegt ástand, sem við búum við núna, kauptaxtar hljóti að hækka, jafnvel rjúka upp og þar með lánin á eftir eða lánsupphæðirnar. Vissulega vonar maður að kauptaxtar hækki. En vilja menn með þessu halda því fram að hækkun kaupgjaldsvísitölu hefði ekki áhrif á lánskjaravísitölu eða byggingarvísitölu, kaupgjaldsvísitalan gæti bara hækkað en lánskjaravísitalan setið eftir?

Reynslan sýnir að þessar vísitölur hafa yfirleitt fylgst nokkuð að, þótt breyting hafi orðið á nú síðustu mánuðina þar sem kaupgjaldsvísitalan hefur setið eftir. Hækkun kaupgjaldsvísitölu kemur býsna fljótt fram í hækkun framfærslukostnaðar. Kaupgreiðendur eru fljótir að velta því út í verðlagið. Eða kunna menn haldgóð ráð gegn því? Og aukinn launakostnaður hefur áhrif á byggingarvísitöluna og örugglega líka lánskjaravísitöluna. Þær hækka sem sagt í kjölfarið þótt sú hækkun komi eitthvað á eftir.

Við skulum líka athuga við hvaða atvinnustéttir er miðað. Vísitala kauptaxta er miðuð við kauptaxta verkafólks og iðnaðarmanna. Nú er alltaf erfitt að spá, og einkanlega um framtíðina, eins og vitringurinn sagði. En er fráleitt að hugsa sér að viðmiðun verðtryggingar lána við vísitölu kauptaxta hefði þau áhrif að þessum viðmiðunartöxtum yrði lyft upp? Ekki mundi ég sýta það. Mér finnst á allan hátt eðlilegasta hugsunin að miða endurgreiðslu lána við jafnmikið framlag vinnu og við upphaf lántöku. Ef menn kjósa síðan að leggja á sig aukna vinnu um skeið til að greiða niður skuldir vegna fjárfestingar í húsnæði eða öðru njóta þeir góðs af því. Í þessu sambandi er vert að minna á það hagræði sem öllum skattgreiðendum væri að því ef tekin væri upp staðgreiðsla skatta eins og Kvennalistinn hefur flutt till. um og tekið þar með undir sjónarmið sem á sér áreiðanlega fylgjendur í öllum flokkum og stjórnmálasamtökum. Slíkt fyrirkomulag væri tvímælalaust í hag skattgreiðendum, sérstaklega þeim sem hafa sveiflukenndar tekjur, í þessu tilviki þeim sem verða að auka við sig vinnu tímabundið til áð standa undir greiðslu skulda.

Það hefur líka heyrst, þó að það hafi alls ekki komið fram hér, að viðmiðun verðtryggingar við vísitölu kauptaxta mundi skerða tekjur þeirra sjóða og aðila sem lána. En í því sambandi hlýtur maður að spyrja hverra hag við eigum að bera mest fyrir brjósti og hvort ekki sé nær að tryggja að lántakendur geti staðið við fjárskuldbindingar sínar en að ýta þeim út á kaldan klaka og taka ekkert tillit til ástandsins í launamálum og nánast gera almennu launafólki gjörsamlega ókleift að áætla fram í tímann. Ég vildi aðeins koma þessum hugleiðingum að um leið og ég þakka þm. fyrir undirtektirnar.