11.03.1985
Efri deild: 48. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3443 í B-deild Alþingistíðinda. (2782)

285. mál, verslun ríkisins með áfengi

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er að sönnu ekkert stórmál á ferðinni og skiptir sennilega ekki miklu hvoru megin hryggjar eldspýtur og vindlingapappír liggja, en eins og fram kemur á nál. hv. fjh.- og viðskn. Ed. skrifa ég undir nál. með fyrirvara og vil nú gera grein fyrir þessum fyrirvara.

Ég sé í sjálfu sér enga ástæðu til þess að ríkið hafi einkarétt á sölu á eldspýtum og vindlingapappír. Hvað eldspýturnar varðar mun upprunaleg ástæða fyrir þeirri einkasölu hafa verið sú að tryggja með því móti að landið væri aldrei eldfæralaust og mun sú ástæða ekki vera lengur gild. Hins vegar kom það fram á fundum fjh.- og viðskn. að að óbreyttu mun þetta frv. þýða rúmlega 10 millj. kr. tekjutap á ári fyrir ríkissjóð og er það orða sannast að eitthvað þarft gætum við örugglega gert við þær 10 millj. Fram komu hugmyndir um að þessum fjármunum mætti ná inn með tollum eða á annan máta, en um það hafa engar upplýsingar komið fram enn sem komið er.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns tel ég að ekki skipti mjög miklu máli hvernig farið er með sölu á eldspýtum og vindlingapappír, en ég sé samt ekki ástæðu til að skerða tekjustofna ríkisins án þess að eitthvað komi á móti og mun ég því ekki greiða atkv. með samþykkt þessa máls.