11.03.1985
Efri deild: 48. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3443 í B-deild Alþingistíðinda. (2784)

338. mál, sala jarðarinnar Víðiness í Beruneshreppi

Flm. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 539 um sölu á jörðinni Víðinesi í Beruneshreppi, Suður-Múlasýslu. Frv. er svohljóðandi:

„1. gr.: Ríkisstj. er heimilt að selja Gunnari Guðmundssyni, Lindarbrekku, eyðijörðina Víðines í Beruneshreppi, Suður-Múlasýslu.

Við söluna skal fylgt ákvæðum 3.–5. málsgr. 38. gr. jarðalaga nr. 65 31. maí 1976, sbr. lög nr. 90 30. maí 1984.

2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Um frv. segir svo í grg., með leyfi forseta:

„Frv. þetta er flutt að beiðni Gunnars Guðmundssonar, bónda á Lindarbrekku í Beruneshreppi. Jörðin Víðines hefur verið í eyði frá árinu 1944 og eru engin mannvirki á jörðinni. Síðustu áratugi hefur Gunnar haft jörðina á leigu, en Lindarbrekka er nýbýli úr landi Berufjarðar og Eyjólfsstaða. Jörðin Lindarbrekka er lítil og búskaparskilyrði þar erfið. Hafa afnot af landi Víðiness því bætt úr brýnni þörf bóndans á Lindarbrekku fyrir aukið land og er það ósk hans að fá jörðina Víðines keypta og tryggja þannig afnot Lindarbrekku af þessu landi.

Hreppsnefnd Beruneshrepps og jarðanefnd Suður-Múlasýslu hafa mælt með því að jörðin verði seld Gunnari Guðmundssyni og fylgja meðmæli nefndanna með frv. þessu sem fskj.“

Við þessa grg. hef ég í rauninni litlu að bæta öðru en því að á Lindarbrekku er rekinn góður búskapur og þar eru nú að verða kynslóðaskipti, eins og kemur fram í jákvæðri umsögn hreppsnefndar Beruneshrepps sem fylgir frv. sem fskj. Einnig fylgir frv. umsögn jarðanefndar Suður-Múlasýslu sem mælir með þessari sölu.

Við flm. þessa frv. teljum eðlilegt að ábúendur á Lindarbrekku fái full umráð yfir eyðijörðinni Víðinesi með sölu jarðarinnar. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til landbn.