11.03.1985
Neðri deild: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3449 í B-deild Alþingistíðinda. (2788)

5. mál, útvarpslög

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég tel rétt að taka þátt í þessari umr. um frv. til útvarpslaga á þessu stigi og skýra mín sjónarmið til þessa máls. Ég á sæti í menntmn. hv. Nd. og hef því tekið þátt í samkomulagi sem felst í framlögðum brtt. meiri hl. nefndarinnar.

Það er ljóst að frv., eins og það var lagt fram, var málamiðlun á milli ákveðinna sjónarmiða sem vildu ganga mismunandi langt í þessu efni. Þær brtt. sem meiri hl. menntmn. flytur bera þess einnig ljóslega vott að um frekari málamiðlun er að ræða. Það er hins vegar alveg ljóst að meiri hl. nefndarinnar er fylgjandi því að afnema einkarétt Ríkisútvarpsins til hljóðvarps og sjónvarps og það er að sjálfsögðu grundvallaratriði sem mjög mikilvægt er að fram komi og náist í gegn.

Um hitt eru skiptar skoðanir milli flokka og jafnvel innan flokka, hvaða reglur skuli gilda. Allir flokkar hafa sérskoðanir á því hvernig þessum málum verði fyrir komið. Það er t.d. alveg ljóst að stjórnarflokkarnir hafa mismunandi sjónarmið þannig að ef málið ætti að ná fram að ganga reyndist nauðsynlegt að gera samkomulag innan nefndarinnar um framgang þess og um ákveðnar breytingar á frv. Til að undirstrika enn betur nauðsyn einhvers konar samkomulags um framgang málsins er rétt að gefa gaum að afstöðu stjórnmálaflokkanna hér á hv. Alþingi eins og hún kemur fram í brtt. þeirra.

Alþb. hefur tilhneigingu til að draga mest lappirnar í þessu máli að Samtökum um kvennalista undanskildum. Alþb. hefur gert sér grein fyrir því að baráttan gegn frjálsu útvarpi er vonlaus og því beinir það nú kröftunum að því að takmarka það sem mest. Það kemur fram í algeru banni við auglýsingum í öllum öðrum stöðvum en í Ríkisútvarpinu og enn fremur í kröfu um að öll dreifikerfi útvarpsstöðva skuli vera í opinberri eigu. Samtök um kvennalista vilja viðhalda einokun Ríkisútvarpsins og hafa lagt fram sérstakt frv. í Ed. sem gengur út á það. Skal ég ekki gera það nánar að umtalsefni hér.

Bandalag jafnaðarmanna vill frjálst útvarp og að leyfisveiting og eftirlit sé í höndum menntmrh. en ekki útvarpsréttarnefndar. Þá vill Bandalag jafnaðarmanna engar hömlur á auglýsingar. Hins vegar vill Bandalagið takmarka hverjir geta fengið leyfi til útvarpsreksturs. Skv. þeirra brtt. yrði einstaklingum eða fyrirtækjum, sem hafa atvinnu af öðrum greinum fjölmiðlunar eða eiga hlut í fyrirtæki með þeirri atvinnugrein, svo sem dagblöðum, óheimilt að eiga hlutdeild að útvarpsrekstri. Þetta ákvæði er mjög takmarkandi og alveg óaðgengilegt og er nú farið að sneyðast um frelsisástina hjá þeim flokki.

Alþfl. vill í orði kveðnu frjálst útvarp. Brtt. þeirra Alþfl.-manna bera þess þó mjög glöggt merki að Alþfl. reynir að drepa þessu máli á dreif og mundi vafalaust gráta það þurrum tárum þótt afgreiðsla þess drægist og málið yrði ekki afgreitt á þessu þingi. Í brtt. þeirra er ítarlegur kafli um boðveitur sem séu í eigu sveitarfélaga. Jafnframt er áskilið að þeir sem nýta sér það boðveitukerfi hafi ekki heimild til auglýsinga.

Það er skoðun mín að ákvæði um boðveitur eigi fremur heima í fjarskiptalögum og þessar ítarlegu tillögur um boðveitur eigi ekki við varðandi útvarpslagafrv. og því sé hér um að ræða tilraun til að drepa þessu máli á dreif. Ég held að það sé ljóst að endurskoða þurfi fjarskiptalögin, ef þetta frv. nær fram að ganga, og þar komi til athugunar þær hugmyndir sem Alþfl. hefur lagt fram um boðveitur í eigu sveitarfélaga.

Þá leggur Alþfl. til að sérstakt leyfisgjald sé tekið af þeim stöðvum sem heimild fái til útvarpsreksturs.

Í Framsfl. eru öfl sem engu vilja breyta í þessu efni. Það kom m.a. glöggt fram í þeirri ræðu sem hv. 3. þm. Norðurl. e. flutti hér áðan þar sem hann lýsti því yfir að hann mundi ekki fylgja neinum breytingum í þessu efni. Í Framsfl. eru líka menn sem eru áhugasamir um framgang þessa máls. En meginágreiningsefnið milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í þessu efni innan nefndarinnar, og væntanlega milli flokkanna að öðru leyti, er um frelsi til auglýsinga. Ég tel hins vegar rétt að geta þess hér, þannig að það komi glöggt fram, að hæstv. menntmrh. hefur skýrt frá því í þingflokki sjálfstæðismanna að skv. samkomulagi, sem hún og hæstv. forsrh. hafa gert, hafi þm. beggja flokka Framsfl. og Sjálfstfl., óbundnar hendur í atkvgr. um þennan þátt málsins. Ég á fyllilega von á því að þm. Sjálfstfl. styðji þær brtt. sem hv. 2. þm. Reykv. hefur hér flutt um það efni.

Eins og sjá má af þessu stutta yfirliti eru skoðanir flokkanna mjög skiptar og því nauðsynlegt að semja um málið ef það grundvallaratriði eigi að komast í gegn að einokun Ríkisútvarpsins verði aflétt. Í slíkum samningum er alltaf fólgin málamiðlun, enginn kemur sínum skoðunum fram að öllu leyti. Ég hef hins vegar talið það svo mikilvægt að fá frelsi til útvarpsrekstrar fest í lög, þótt með takmörkunum sé, að ég hef frekar viljað ganga til samninga um málið en láta það daga hér uppi. Og ég vek athygli á að skv. þeim brtt. sem nú hafa verið fluttar er gert ráð fyrir því að þessi lög verði endurskoðuð eftir þrjú ár þannig að þá sé hægt að sniða af þeim verstu agnúana. Ég vil hins vegar á þessu stigi ekki láta hjá líða að gera að umtalsefni þau atriði sem ég er í mestum vafa um varðandi þetta frv. og þær brtt. sem fram hafa komið og ég tel að endurskoðun, þegar hún fer fram, eigi einkum að beinast að ef þessi atriði yrðu lögfest nú.

Í fyrsta lagi vil ég víkja að útvarpsréttarnefnd. Ég hefði kosið að leyfisveitingar og eftirlit væri í höndum annarra en nefndar sem kjörin væri af Alþingi. Ég hefði talið að þetta verkefni ætti að vera í höndum menntmrh. eða menntmrn. Sumir óttast misnotkun af hálfu pólitísks ráðherra. Vafalaust er eitthvað til í því að slíkt megi óttast, ég segi t.d. ef Alþb.-maður sæti í því sæti, og ég reikna með að ótti manna beinist helst að því, en engu að síður tel ég rétt að taka þá áhættu og þetta verkefni ætti frekar heima í menntmrn.

Verkefni nefndarinnar er mjög viðamikið eins og það er skilgreint í frv., einkum við 3. og 4. gr., og ég tel að það sé mikil hætta á því að í kringum útvarpsréttarnefnd geti risið mikið bákn með fjölda starfsmanna. Ég vil beina því til hæstv. menntmrh. að þess verði gætt í reglugerð að forðast megi að þetta verði einhver risastofnun með fjölmennu starfsliði en upptalning verkefna gæti gefið fulli tilefni til þess.

Ég vil þá víkja að kaflanum um auglýsingar og ítreka reyndar það sem ég sagði áðan, að ég vil hafa meira frjálsræði í þeim efnum en frv. gerir ráð fyrir. Ég vil hins vegar sérstaklega vekja athygli á því að um þennan þátt málsins hefur farið fram mjög villandi umræða úti í þjóðfélaginu. Sumir fjölmiðlar hafa skrifað á þann veg að skv. þessu frv. eigi að banna allar auglýsingar í öðrum útvarpsstöðvum en Ríkisútvarpinu. Þetta er misskilningur. Auglýsingar eru heimilar skv. frv. í öðrum útvarpsstöðvum en þeim sem senda um þráð. Skv. 4. gr. 1. mgr. segir, með leyfi forseta:

„Útvarpsstöðvar, er fengið hafa leyfi til þráðlausra útsendinga sbr. 3. gr., skulu hafa leyfi til að afla fjár til dagskrárgerðar með auglýsingum.“

Þessu ákvæði upphaflega frv. hefur ekki verið breytt í meðferð menntmrn. Skv. frv. á útvarpsréttarnefnd að gefa út reglur um auglýsingar og ákveða auglýsingataxta. Ég tel að þetta séu of þröng ákvæði og raunar að afskipti útvarpsréttarnefndar af þessu séu ekki nauðsynleg og þetta sé því atriði sem þurfi að taka til endurskoðunar. Hins vegar eru auglýsingar ekki heimilaðar skv. frv. í kapalsjónvarpi eða kapalhljóðvarpi, þ.e. ef útvarpað er um þráð. Þetta tel ég að sé of strangt og ég tel að þetta muni beinlínis hamla rekstri slíkra stöðva þótt þær hafi heimild til að innheimta afnotagjöld.

Ég vek athygli á að frelsi til auglýsinga er einmitt mjög líklegt til að auka gæði dagskrár. Auglýsingatekjur eru líklegar til þess að útvarpsstöðvar geti lagt meira í dagskrár og því líklegar til að auka menningargildi hljóðvarps- eða sjónvarpsdagskráa. Án auglýsinga er líklegt að það verði einungis á færi fjársterkra aðila eins og stórfyrirtækja eða öflugra félaga að reka einkastöðvar.

Hv. 2. þm. Reykv. Friðrik Sophusson hefur flutt sérstaka brtt. um þennan þátt frv. og ég er sammála því sem fram kemur í þeirri till.

Það hefur verið vikið sérstaklega að því að Norðurlönd heimili ekki auglýsingar í útvarpsstöðvum og það nefnt sem sérstök fyrirmynd fyrir okkur. Það er langt síðan við Íslendingar fórum aðra leið en Norðurlönd í þessum efnum vegna þess að við höfum alla tíð heimilað auglýsingar í Ríkisútvarpinu. Ástæðan fyrir því, og það vita vafalaust allir sem fylgst hafa með umræðum um fjölmiðla á Norðurlöndum, ástæðan fyrir því að Norðurlandamenn hafa ekki heimilað auglýsingar í útvarpi, þ.e. hljóðvarpi eða sjónvarpi, er sú að það er verið að vernda dagblöðin, það er verið að vernda þennan markað svo að dagblöðin og vikublöð eða blaðamaðurinn sitji einn að auglýsingum. Og öll umræða um það hvort leyfa eigi auglýsingar í útvarpsstöðvum á Norðurlöndum gengur út á þetta atriði. Við höfum hins vegar heimilað auglýsingar í Ríkisútvarpinu, bæði hljóðvarpi og sjónvarpi, og eigum því jafnframt að heimila auglýsingar í útvarpsstöðvum, þótt þær sendi um þráð, og gefa stöðvunum frelsi til að ákveða sína taxta og hvernig auglýsingum verði háttað.

Ég vil þá aðeins víkja að brtt. varðandi menningarsjóðinn. Ég skal viðurkenna að þó að ég standi að þeirri till. og muni að sjálfsögðu greiða henni hér atkv., þá hef ég ekki fulla sannfæringu fyrir þeim sjóði. Upphaflega hugmyndin byggðist á því að Ríkisútvarpinu væri skylt að taka þátt í rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands og því var haldið fram að með þann fjárhagslega bagga gæti Ríkisútvarpið ekki staðið jafnfætis öðrum stöðvum í samkeppninni. Því yrði að létta þeim fjárhagsbagga af Ríkisútvarpinu. Síðan var þessi hugmynd færð út og gert ráð fyrir að menningarsjóðurinn gæti, auk þess að greiða kostnað Ríkisútvarpsins af Sinfóníuhljómsveitinni, styrki dagskrárgerð annarra stöðva eða eins og það er orðað í 7. brtt. meiri hl. menntmn. á þskj. 505: „Hlutverk Menningarsjóðs útvarpsstöðva er að veita framlög til eflingar innlendri dagskrárgerð, þeirri er verða má til menningarauka og fræðslu.“ Í því sambandi var gerð sjónvarpskvikmynda m.a. höfð í huga. Ég tel þetta þó vafasamt. Það hefur komið fram að Ríkisútvarpið telur þetta ekki gert í sína þágu og forráðamenn Sinfóníuhljómsveitarinnar eru ekki hrifnir af þessu fyrirkomulagi. Ég tel því að þetta sé eitt af þeim atriðum sem skoða þurfi betur.

Herra forseti. Í hinni almennu umræðu um þetta mál er því haldið fram að tillögur meiri hl. menntmn. hnígi allar í þá átt að leggja stein í götu frjálsrar fjölmiðlunar, auka hlut Ríkisútvarpsins og binda starfsemi annarra fjölmiðla í meiri fjötra en ákvæði upphaflega frv. gera ráð fyrir. Bæði Morgunblaðið og DV hafa ritað í þá veru og gagnrýnt tillögur meiri hl. menntmn. Ég tel að þetta séu ekki réttar fullyrðingar og tel að ýmsar brtt. sem meiri hl. menntmn. hefur flutt hnigi í þá átt að auka og rýmka réttinn frá því sem var skv. upphaflega frv. Ég vil í þessu sambandi minna á að meiri hl. n. hefur ekki hróflað við upphaflegum ákvæðum frv. um auglýsingar og ég hef þegar gert það að umtalsefni. En í ýmsum atriðum hefur meiri hl. n. gert tillögur um að rýmka rétt og möguleika einkastöðva. Það virðist hins vegar hafa farið fram hjá mönnum og ekki komið nægilega fram í hinni opinberu umræðu til þessa og ég ætla því aðeins að gera þessi atriði að umtalsefni og rekja þau.

1. Skv. till. meiri hl. menntmn. geta fleiri fengið leyfi til útvarpsrekstrar en skv. ákvæðum frv. Skv. 3. gr. 1. mgr. frv. gat útvarpsréttarnefnd veitt sveitarfélögum og félögum, sem til þess eru stofnuð, leyfi til útvarpsreksturs. Þetta er rýmkað í brtt. þannig að nú geta „sveitarfélög og aðrir lögaðilar“ fengið slíkt leyfi. Sem sagt, það þarf ekki að stofna sérstakt félag til útvarpsreksturs heldur geta skv. brtt. félög sem fyrir eru eða fyrirtæki eða einstaklingar fengið leyfi til útvarps.

2. Í 3. gr. 2. tölul. frv. segir nú að það sé skilyrði fyrir veitingu leyfis að sveitarstjórnir á svæðum þar sem stofna skal útvarpsstöð mæli með veitingu leyfis. Þetta skilyrði er fellt niður í brtt. meiri hl. nefndarinnar enda hefði það vafalaust getað orðið þröskuldur fyrir veitingu leyfis.

3. Fellt er niður ákvæði um fyrirfram ritskoðun útvarpsréttarnefndar. Í 3. gr. 7. tölul. í frv. segir að útvarpsstöðvar, er fái leyfi til útvarps, skuli gera útvarpsréttarnefnd grein fyrir þeirri dagskrárstefnu sem fyrirhuguð er. Síðan segir í frv.: „Ef óskað er skal einnig láta í té dagskrá á böndum.“ Hér var sem sagt um að ræða ákvæði um fyrirfram ritskoðun á efni í útvarpsstöðvum en þetta ákvæði er fellt niður í brtt. meiri hl. menntmn.

4. Í brtt. við 3. gr. 1. tölul. eru rýmkuð ákvæði um hvaða bylgjur einkastöðvar megi nota þar eð opnuð er heimild fyrir millibylgju þar sem landfræðilegar aðstæður torvelda útsendingar á metra- og desímetrabylgjum.

5. Í 5. brtt. meiri hl. menntmn. er mjög mikilvægt ákvæði til rýmkunar. Þar er gert ráð fyrir að inn í frv. komi ný grein sem kveður á um að útvarpsstöð sé heimilt að reisa sendistöð og endurvarpsstöð, eiga og reka senditæki, viðtæki og önnur slík tæki. Með þessu ákvæði eru tekin af öll tvímæli um að einkastöðvar geti átt og rekið tæki sem nauðsynleg eru til útsendingar en um þetta voru ekki ákvæði í frv. eins og það liggur fyrir. Ofangreind atriði horfa því öll til rýmkunar frá frv.

Ég vil einnig nefna tillögur til breytinga á 7. gr. frv. Í frv. segir:

„Útvarpsréttarnefnd getur afturkallað leyfi til útvarps séu reglur brotnar.“ Í brtt. meiri hl. menntmn. er lagt til að við ákvæði þetta sé bætt orðunum: „enda sé um alvarleg og ítrekuð brot að ræða.“ Með þessu er forðað geðþóttaákvörðunum útvarpsréttarnefndar.

Öll þessi atriði, sem ég hef hér nefnt. eru til rýmkunar og hagsbóta fyrir einkastöðvar þótt betur megi gera eins og ég hef áður vikið að. Einmitt þess vegna er sett inn í brtt. ákvæði um endurskoðun laganna innan þriggja ára þannig að sniða megi af agnúa í ljósi reynslunnar.

Í hinni almennu umræðu hefur bryddað á því sjónarmiði að allar takmarkanir á frelsi til útvarpsreksturs séu af hinu illa og algert frelsi eigi að ríkja í þessum efnum. Hafa menn í því sambandi talið að ýmis skilyrði í þessu frv. önnur en ég hef hér gert að umtalsefni væru óeðlileg. Um útvarpsrekstur verða auðvitað að vera reglur og setja verður útvarpsstöðvum skilyrði. Um það má hins vegar alltaf deila hversu langt eigi að ganga í þeim efnum. Í umræðum um frjálst útvarp eru Bandaríkin oft nefnd sem fyrirmynd. Víst er það að þar eru einkastöðvar aðalreglan og þar ríkir mjög hörð samkeppni milli stöðva um hylli áheyrenda og áhorfenda. Engu að síður hafa Bandaríkjamenn séð ástæðu til þess að setja mjög strangar reglur um rekstur útvarpsstöðva og setja stöðvunum mjög ströng skilyrði. Við í menntmn. höfum haft útdrátt úr bandarísku reglunum til athugunar. Í ýmsum greinum eru þær reglur mun strangari og skilyrðin meiri en fram koma í því frv. sem hér er til umr. Skal ég rekja nokkur atriði úr þessum reglum mönnum til upplýsingar.

Meginreglan er að útvarpsstöðvar séu í eigu einkaaðila en allar útvarpsstöðvar verða að fá leyfi alríkisnefndar um fjarskipti (Central Communication Commission) sem hefur aðsetur í Washington. Útvarpsstöðvar selja auglýsingatíma en alríkisnefndin verður að samþykkja gjaldskrá stöðvanna. Útvarpsstöðvar fá leyfi til þriggja ára í senn. Þegar sótt er um endurnýjun leyfis skal nefndin kanna hvort viðkomandi stöð hafi verið rekin í þágu hagsmuna almennings og í samræmi við útvarpsog fjarskiptalög. Ef kvartanir berast um starfsemi útvarpsstöðva skal rannsaka málið og endurmeta leyfisveitingu. Nefndin getur sektað stöðvar, sem gerast brotlegar. um allt að 10 þús. dollara og ef um alvarleg brot er að ræða afturkallað leyfi.

Nefndin úthlutar senditíðni og kveður á um útgeislað afl stöðva og löggildir tæknimenn. Ítarleg ákvæði eru um skrár og skráningarskyldu efnis og eru slíkar skrár opnar hverjum sem er. Í bandarísku reglunum eru fyrirferðarmikil ákvæði um sanngirnissjónarmið í rekstri útvarpsstöðva, svokölluð „fairness doctrine“. Skv. þeirri reglu verða útvarpsstöðvar að flytja andstæð sjónarmið ef þau útvarpa dagskrám um efni sem skiptar skoðanir eru um meðal almennings. Ef um er að ræða útvarp í sambandi við kosningabaráttu til einhvers opinbers starfs, t.d. þings eða einhvers embættis, þá verður viðkomandi stöð að tryggja aðalframbjóðendum jafnan tíma. Ef einn frambjóðandi kaupir tíma ber stöðinni skylda til að bjóða hinum frambjóðendum jafnan tíma og jafnvel láta hann ókeypis í té ef viðkomandi getur sannanlega ekki greitt fyrir tímann.

Þá eru ákvæði í þessum reglum sem koma eiga í veg fyrir einokun með því að takmarka fjölda sjónvarps- eða hljóðvarpsstöðva í eigu sama aðila og enginn má eiga nema eina stöð sem nær yfir sama landsvæði. Þá er og takmarkað hvað sjónvarpsstöðvar, sem starfa á stærstu mörkuðunum, mega leggja marga klukkutíma undir dagskrá sína á aðalsjónvarpstíma á kvöldin. Hér er væntanlega átt við hinar stóru stöðvar, þ.e. ABC, NBC, CBS, sem senda um öll Bandaríkin og fá tíma í flestum staðbundnum stöðvum t.d. fyrir fréttir. En það eru sem sagt takmörk fyrir því hvað þessar stóru stöðvar mega leggja undir sig marga klukkutíma á hverju kvöldi í hverri og einni staðbundinni stöð.

Þá er í þessum reglum ákvæði um kapal- eða áskriftarsjónvarp en slíkt sjónvarp hefur verið háð reglum og stjórnun alríkisnefndarinnar allt frá árinu 1968.

Herra forseti. Mér þótti rétt að rekja hér nokkur meginatriði úr hinum bandarísku útvarpsreglum því að mér finnst umræðurnar hér á landi benda til þess að það sé fróðlegt fyrir þm. og almenning að kynnast þeim. Þó að þær þurfi ekkert að vera til fyrirmyndar fyrir okkur er það ljóst að þær eru í mörgum greinum mun strangari en þær reglur sem verið er að ræða um að setja hér á landi. Eitt er þó víst. Ýmsum þeim sem gagnrýnt hafa hvað mest þetta frv. og brtt. meiri hl. menntmn., gagnrýnt þær í nafni frelsisins, mundi þykja æði þröngt fyrir sínum dyrum við útvarpsrekstur í guðs eigin landi, Bandaríkjunum.

Ég mun nú senn ljúka máli mínu. Ég ítreka að frv. með brtt. er málamiðlun. Meginatriðið er að afnuminn er einkarekstur Ríkisútvarpsins. Síðan verða vafalaust sniðnir af þeir agnúar sem á þessu frv. eru.