12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3465 í B-deild Alþingistíðinda. (2792)

196. mál, skattar verslunarinnar

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 220 að bera fram svofellda fsp. til hæstv. fjmrh. um skatta verslunarinnar, banka og skipafélaga árið 1983:

„1. Hver var hagnaður

a. smásöluverslunar,

b. heildverslunar

skv. skattframtölum 1983 af rekstri (fyrir skatta, „skattalegar ráðstafanir“ og framlag í varasjóð/fjárfestingarsjóð)?

2. Hve margar smásöluverslanir og heildverslanir töldu fram til skatts fyrir árið 1983?

3. Hver var hagnaður skipafélaganna alls skv. skattframtölum 1983?

4. Hver var hagnaður bankanna 1983 — sundurliðaður eftir bönkum?“

Þessa fsp. bar ég fram um svipað leyti og fsp. til hæstv. félmrh. um aðstöðugjöld, sem hann svaraði nú fyrir nokkrum vikum, þar sem innt var eftir upplýsingum um aðstöðugjaldsstofn fyrirtækja, smásöluverslunar, heildverslunar og skipafélaga fyrir árið 1983. Verður fróðlegt að fá svörin frá hæstv. fjmrh. um hagnað þessara fyrirtækja með hliðsjón af veltu, eftir að þau eru búin að gera svokallaðar skattalegar ráðstafanir sem eru margþættar eins og kunnugt er.