12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3471 í B-deild Alþingistíðinda. (2799)

255. mál, auglýsingar banka og sparisjóða

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það sem hefur vakið athygli mína helst á undanförnum vikum og sennilega margra annarra er ekki hin mikla auglýsingaherferð viðskiptabankanna heldur hin mikla auglýsingaherferð sem ríkissjóður heyr í sjónvarpi og útvarpi. Og það væri forvitnilegt að vita hvað herkostnaður ríkissjóðs í þessu vaxtastríði er mikill. (Gripið fram í: Allt frítt.) Það er að sjálfsögðu ekki hæstv. viðskrh. sem getur svarað því heldur hæstv. bankamálaráðh., hvað þessi Hollbert Gullmundsson eins og mig minnir að hann kallist í auglýsingunni, eða hvort það er Hollráður Gullmundsson, ég man nú ekki hvort heldur er, en Gullmundsson er hann alla vega, hvað hann kostar íslenska skattgreiðendur. Hvað kostar það stríð sem ríkissjóður Íslands heyr nú við banka og lánastofnanir og vekur athygli mína og margra annarra íslenskra skattgreiðenda?