12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3474 í B-deild Alþingistíðinda. (2805)

297. mál, útflutningur landbúnaðarafurða

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég vildi nota tækifærið til að þakka hv. 5. landsk. þm. fyrir að bera fram þessa fsp. og um leið hæstv. landbrh. fyrir að upplýsa þingheim um nokkrar staðreyndir, sem þó eru aðeins brot af þeirri hrikalegu mynd sem blasir við í útflutningsmálum landbúnaðarins, og það sem snertir afskipti Sambands ísl. samvinnufélaga af þeim.

Það er aðeins eitt atriði, sem fram kom í svari ráðh., sem ég vildi þó undirstrika, en það var sú upphæð sem hann nefndi að væri umboðslaun til Sambands ísl. samvinnufélaga fyrir útflutning á kjötafurðum. Umboðslaun námu skv. þessum upplýsingum 10.5 millj. kr. Þessi upphæð er umboðslaun af brúttóandvirði þess kjöts sem var flutt til útlanda og það hefur margoft verið bent á það hneyksli sem í þessu er fólgið. Það hefur gefið auga leið að það er lítill hvati fyrir útflutningsaðila að fá hagstæðara verð á erlendum markaði eða leita yfirleitt markaða þegar hann getur fengið umboðslaun af brúttóverði afurðarinnar áður en búið er að greiða afurðina niður. Þetta er umtalsverð upphæð og er nánast furðulegt að landbúnaðarstjórnvöld skuli ekki hafa breytt þessu fyrirkomulagi og látið greiða umboðslaun af söluverði sem er hin algenga viðskiptaregla. Það mundi auðvitað þýða að Samband ísl. samvinnufélaga, sem ræður þar lögum og lofum, mundi gera einhverja tilraun a.m.k. til að leita eftir nýjum og betri mörkuðum. Það er ekki von til annars en að hér hlaðist upp birgðir af kjöti og að litlar breytingar verði á verðlagi erlendis á þessari útflutningsafurð þegar enginn hvati er í kerfinu til þess að fá útflutningsaðilana til að leita hagstæðari samninga.

Ég vildi nota tækifærið til að koma þessu sjónarmiði og þessari aths. að þó að ég geri mér grein fyrir, eins og sjálfsagt allur þingheimur, að þetta mál er miklu flóknara og viðameira en svo að hægt sé að ræða ofan í kjölinn í stuttum fyrirspurnatíma.