12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3474 í B-deild Alþingistíðinda. (2806)

297. mál, útflutningur landbúnaðarafurða

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þm. fsp. og hæstv. ráðh. fyrir svörin. Þetta er eina aðferðin sem við höfum til að fá svona mál upplýst eins og hér er verið að ræða um. Allar upplýsingar, sem koma fram um þessi mál, eru vel þegnar því að þær taka væntanlega af allan vafa um hvernig málum sé hagað.

Það er rétt, sem hv. þm. Ellert Schram sagði, að það er ekki mikill hvati til þess að leita nýrra og betri markaða þegar útflytjandi fær ávallt 2 % sölulaun af verðinu eins og það er innanlands hverju sinni, án tillits til þess hvaða verði hann nær fyrir vöruna erlendis. Auðvitað eiga umboðslaunin að vera ákveðið hlutfall af því söluverði sem næst á erlendum mörkuðum.

Mig langar enn fremur til að benda á að þar sem söluverð erlendis dugar hvergi nærri fyrir framleiðslukostnaði eru allir þeir kostnaðarliðir sem hér eru upp taldir — flutningskostnaður á vörunni til útlanda, umboðslaun til söluaðila, og ekki aðeins það heldur einnig bankakostnaður, geymslukostnaður vörunnar frá því að slátrun fer fram og þangað til að út er flutt o.fl. o.fl. — greiddir beint úr ríkissjóði. Þetta er greitt með skattfé.

Við þekkjum það, a.m.k. þeir sem hafa heyrt framleiðendur landbúnaðarafurða barma sér yfir erfiðleikum sínum, að bændur fá ekki gert upp fyrir sín verk fyrr en seint og um síðir. Hins vegar skilst mér að allir aðrir sem koma nálægt vinnslu, geymslu og sölu þessara afurða fái allt sitt uppgert þegar í stað.

Við hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hófum lagt fram fsp. á þskj. 501 til þess að forvitnast nánar um þessi mál og við höfum beint fsp. til hæstv. fjmrh. Nú eru þessi mál í höndum fleiri ráðh. Ósk mín til hæstv. landbrh., sem hefur lýst sig fúsan til að upplýsa þessi mál, er sú að hann hjálpi til við að svara þessari fsp. og veiti fjmrn. þau svör sem hans rn. varðar þannig að hæstv. fjmrh. geti svarað fyllilega fsp. okkar Eyjólfs Konráðs Jónssonar, jafnvel þó að sumir þættir fsp. heyri undir hæstv. landbrh. en ekki fjmrh. Ég óska sem sé eindregið eftir því við hæstv. landbrh. að hann beiti sér í því að upplýsa þessi mál eins og um er beðið og treysti á að hann muni gera það.