24.10.1984
Efri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

83. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örstutt út af spurningu hv. flm. um að verðjöfnunarsjóðir séu allir tæmdir. Þetta kann að vera rétt nú og verðjöfnunarsjóðir hafa oft verið gróflega misnotaðir. En það sem ég sagði var það, að þeir hafa gert sitt gagn og þeir gera gagn enn og það væri tæpast hægt að gera út á suman veiðiskap í dag ef þeir hefðu ekki verið til. Þeir voru einu sinni, sérstaklega, gróflega misnotaðir, það var verðjöfnunarsjóður loðnu haustið 1981. Það er eitt versta dæmið sem um það er.

Ég vildi líka aðeins koma inn á það að hv. flm. margítrekaði að hún væri ekki að leggja til að Verðlagsráðið yrði lagt niður. En ég trúi því ekki að BJ vilji að hnefaréttur Sturlungaaldar gildi hér á nýjan leik í þessum efnum. Setjum sem svo að skip kæmu að landi öll með fullfermi af fiski og ekkert verð væri til því það hlýtur alltaf að mega búast við því þó að Verðlagsráð sé. Ef það er án nokkurs áfrýjunarréttar, þá verður fiskurinn ekki seldur. Þegar slitnað hefur svo upp úr samningum, hvað á þá að gera? Það verður ekkert róið. Á að reka sjómennina á sjó? Ekki kann ég ráð til þess. Á að láta fólk missa atvinnuna vegna þess að sjómenn róa ekki? Hvað um markaði? Hvað um gjaldeyrisöflun þjóðarinnar? Þannig mætti lengi spyrja. Það verður að ákveða fiskverð, það verður að vera róið frá landinu. Menn geta haft mismunandi skoðanir á því hvernig eigi að ákveða fiskverð, en menn verða líka að hafa tillögur um það.