12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3476 í B-deild Alþingistíðinda. (2811)

302. mál, framkvæmd iðnaðarstefnu

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Sinnaskipti hafa engin orðið og mun ég víkja að því síðar. Hv. 5. þm. Austurl. gerði fsp. sem krafðist einfalds svars.

Hún var með þessum hætti, með leyfi hæstv. forseta: „Hvernig hefur verið háttað í tíð núverandi ríkisstjórnar vinnu „samstarfsnefndar um framkvæmd iðnaðarstefnu“ o.s.frv. Svarið hlaut að verða einfalt: Hún hefur ekki starfað á þessu tímabili. Það hefur hv. þm. að vísu verið kunnugt um en ég skipti mér ekki af því. Ef hann hefði viljað fá einhver fleiri svör og frekari vegna þessa máls hefði hann getað haldið áfram fsp. sínum í þessu efni. En það ætti að vera regla manna, og hæstv. forseti hlýtur mjög að gá að því, að í þröngum fyrirspurnatíma haldi menn sig við þær fsp. sem gerðar eru en að mál séu ekki, eins og hættir oft til, rakin út í hörgul, oft og tíðum langt utan við það sem um er teflt í fsp. Þess vegna var það að ég kaus að svara þessu í fyrstu atrennu með þeim einfalda hætti sem ég gerði.

Ég tók fram að því hlutverki, sem þessari nefnd hefði verið ætlað að vinna og sinna, hefði verið gegnt á þessum tíma og rækilegar en nokkru sinni fyrr. En til þess að gera grein fyrir því þyrftum við eldhúsdag á hinu háa Alþingi en ekki tíma þar sem menn stikla á glóðum tímaskortsins. Og til þess er ég reiðubúinn, ef samkomulag næðist um það við hæstv. forseta, að gera grein fyrir því hvernig rekið hefur fram iðnþróuninni og stefnumótun og framkvæmd þeirrar þál. sem hér var gerð. Og það er aðalatriði málsins hvernig framkvæmd á vilja Alþingis, málefnalegum vilja Alþingis hefur farið úr hendi, en ekki hvort formennska í slíkri samvinnunefnd er skipuð Vilhjálmi Lúðvíkssyni, Ingjaldi Hannibalssyni eða einhverjum öðrum.

Þar á meðal er frá því að segja að hv. 2. þm. Reykv., varaformaður Sjálfstfl., hefur setið í sérstakri ráðgjafarnefnd þriggja manna sem með mér hefur starfað að framkvæmd þessara mála. Ég minni enn á það að mér var þetta mál ákaflega kunnugt og í fersku minni af því sem ég er einn af þeim sem skila nál. úr atvmn. á sínum tíma, árið 1982. A.m.k. vann ég að málinu í þeirri nefnd, hvort sem svo hefur nú viljað til að ég væri einn af þeim sem skilaði nál. þá eða ekki. Ég held þess vegna fast við það að ég hafi farið að ályktunum Alþingis, enda þótt ég hafi brugðið út af um þrengstu framkvæmd, eins og þá hvort heldur þessi stóra nefnd, sem er sett á fót fyrir atbeina fyrirrennara míns, starfaði að málinu eða einhverjar aðrar, eða ég með samtökum iðnaðarins eins og hefur verið gert.

Ég geymi mér, herra forseti, að útlista hér sjö meginmarkmið þeirrar þáltill. um iðnaðarstefnu sem við fylktum liði með hæstv. fyrrv. iðnrh. um, sjálfstæðismenn. Og þess vegna tókst að fella hana í þann farveg sem við gátum sætt okkur við og getum í meginefni enn sætt okkur við. M.a. má finna í henni ákvæði um að efla orkufrekan iðnað. Ég ætla nú ekki, hv. 5. þm. Austurl. til hrellingar, að fara að rifja það upp nú og hér hvernig honum fórst það úr hendi — við getum gefið okkur tíma til þess síðar — og í framhaldi af því í örstuttum fyrirspurnatíma að ég ætti að víkja að 21 leið sem þar er mörkuð til þess að ná fram eftirfarandi markmiðum. Til þess hefur vafalaust verið ætlast með þessari fsp., en því hlýt ég að vísa frá með öllu. Til þess þyrftum við marga fyrirspurnatíma og þótt þolinmæði hæstv. forseta sé óendanleg, þá veit ég að hann mundi frábiðja sér slík vinnubrögð. En ég ber aðeins niður í örfáa fyrstu punktana í þessum leiðum.

Hér segir fyrst: „Bætt verði aðstaða til iðnrekstrar. Iðnaður búi við eigi lakari starfsskilyrði en aðrir höfuð atvinnuvegir.“ — Í þessum efnum hefur snarbreyst til hins betra. Við vissum að löngum og löngum hallaði á iðnreksturinn. „Í því skyni verði m.a. kannað hvort taka beri upp virðisaukaskatt.“ — Það hefur verið tekin ákvörðun um að taka hann upp frá og með næstu áramótum.

Enn segir hér í 2. lið: „Við gengisákvarðanir verði tekið tillit til samkeppnisaðstöðu iðnaðarins jafnt á innlendum og erlendum markaði.“ — Áður fyrr var eiginlega einvörðungu stuðst við viðmiðanir í sjávarútvegi og framleiðsluvörur sjávarútvegsins þegar mörkuð var gengisstefna. Nú hefur þessu verið breytt þannig að fyllsta tillit hefur verið tekið til iðnaðarins að þessu leyti, að þessu grundvallarleyti.

Í þriðja lagi: „Lánasjóðir iðnaðarins verði efldir með því að rýmka heimildir þeirra til lántöku og þeim þannig gert kleift að takast á við stærri verkefni og auka verulega þátttöku sína í fjármögnun á umbótum og nýsköpun í iðnaði. Arðsemi fjárfestingar“ o.s.frv. — Það hefur orðið gerbreyting á skipulagi lánasjóða iðnaðarins. Iðnrekstrarsjóður, máttlítill sjóður, sem ég ætla ekki að rekja frekar upphafssögu að, var lagður niður og sameinaður Iðnlánasjóði sem hefur verið rekinn af miklum myndarskap um langa hríð. Þeim sjóði, Iðnlánasjóði, var gert kleift að hlaupa undir bagga með útflutningsstarfsemi og margfalda það ráðstöfunarfé sem til þeirrar starfsemi var, svo að ég nefni einhver dæmi, fyrir utan það að nú hefur Iðnlánasjóði sjálfum vaxið fiskur um hrygg langt umfram það sem því miður verður sagt um aðra lánasjóði höfuðatvinnuvega í landinu.

Hér segir í fjórða lagi: „Fjármagn til rannsókna- og þróunarstarfsemi verði aukið eftir föngum og fyrirtæki örvuð til aðgerða í þeim efnum.“ — Menn þekkja að ákveðið hefur verið af hálfu stjórnvalda að af hinum áformuðu 500 millj. til nýrra framkvæmda og nýrra atvinnugreina verði varið 50 millj. kr. til rannsókna- og þróunarstarfsemi. Verður því fé að meginhluta til ráðstafað undir stjórn Rannsóknaráðs ríkisins.

Í fimmta lagi — þetta er aðeins fyrsta síðan á þessari þál. áminnstri: „Þjónustustofnanir iðnaðarins verði efldar og starfsemi þeirra löguð að breyttum þörfum“ o.s.frv. — Ég nefni þjónustustofnunina Iðnþróunarstofnun sem hefur tekið miklum stakkaskiptum. Það þarf heldur ekkert að liggja í þagnargildi að drög að því lagði fyrirrennari minn. Mér er ekkert umhendis að minna á það. En starfsemi hennar hefur farið miklu betur úr hendi en áður var og margeflst og stóraukist, fyrir utan það sem bæði rn. og fjölmargir aðrir aðilar hafa fengið þessari stofnun ný og fjölbreyttari verkefni.

En eins og ég segi, þess er enginn kostur að víkja í fyrirspurnatíma að svo viðamiklum málefnaflokki eins og hér er um að tefla. Þess vegna ítreka ég það boð mitt af minni hálfu, ef þess er kostur, að við fengjum til þess síðar eldhúsdag að víkja rækilega að þessum málum, sem eru áreiðanlega einhver þau allra mikilvægustu sem hið háa Alþingi getur fjallað um, og þá rifja ég enn upp þá staðreynd að iðnaðurinn, hinn almenni iðnaður, hlýtur að vera sú atvinnugreinin sem á næstu áratugum tekur við hér um bil öllum, langsamlega flestum nýjum vinnandi höndum.