12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3482 í B-deild Alþingistíðinda. (2816)

318. mál, framtíðarflugvallarstæði fyrir Ísafjörð

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Það hefur auðsjáanlega orðið einhver misskilningur á milli mín og hæstv. samgrh. um þetta mál, e.t.v. vegna þess að fsp. er ekki nægilega ljóslega orðuð. Sá vilji sem hefur komið fram í bæjarstjórn Ísafjarðar lýtur ekki að því að athugað verði um flugvallarstæðið í Arnardal þar sem fyrir löngu var athugað um flugvallarstæði þegar flugvelli var valinn staður innar í Skutulsfirðinum, heldur um nýtt flugvallarstæði í sjó fram utan við Arnarnes, þar sem talið er, eða a.m.k. er það skoðun bæjarstjórnarmanna á Ísafirði, að uppfyllingar séu ekki mjög dýrar, án þess þó að þeir hafi haft aðstöðu til að meta það. Það átti ég við þegar ég var að spyrja hæstv. samgrh. hvort hann væri reiðubúinn til að láta fara fram athugun á þessum vilja sem ég held að honum hljóti að vera ljós því að hann hefur fram komið bæði í bæjarblöðum og í bæjarstjórn Ísafjarðar.

Í öðru lagi er það alveg rétt hjá hæstv. samgrh. að það yrði mikil bót að því fyrir samgöngukerfið á norðanverðum Vestfjörðum öllum, og ekki aðeins fyrir flugvallarsvæðið heldur einnig fyrir vegasamgöngur, þegar komin verður brú yfir Dýrafjörð og með einhverjum hætti varanleg vegarlagning sem tryggir vetrarsamgöngur yfir Breiðadalsheiði. Ég hef, eins og hæstv. samgrh. hefur sjálfsagt einnig oft orðið fyrir, lent í því að flugvél sem ég hef verið í hefur ekki getað lent á Ísafirði á þeim árstímum þegar allir vegir voru opnir þannig að Breiðadalsheiðin hamlaði alls ekki því að hægt væri að fljúga á völlinn á Þingeyri. En ástæðan fyrir því að ekki var lent þar var sú að það er svo löng leið þar á milli, þó að vegir séu færir, að ef flugvöllur á Ísafirði lokast áður en lenda skal eiga Flugleiðir varla annan kost en fljúga beint suður vegna þess að það tekur svo langan tíma að flytja farþegana á Þingeyrarvöll að þá fer öll áætlun Flugfélagsins úr skorðum ef það er gert.

Herra forseti. Ég ítreka aftur að það hefur orðið einhver misskilningur á milli okkar hæstv. samgrh. Ég var að fara fram á að hann léti athuga þær hugmyndir sem verið hafa uppi í bæjarstjórn Ísafjarðar um annað flugvallarstæði við Arnarnes en það sem áður voru búnar að fara frumathuganir fram á.