12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3483 í B-deild Alþingistíðinda. (2819)

313. mál, vanskil vegna húsnæðislána

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 498 að bera fram fsp. til hæstv. félmrh. um vanskil vegna húsnæðislána. Fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hver var heildarupphæð vanskilaskulda í árslok 1984 vegna útlána annars vegar úr Byggingarsjóði verkamanna og hins vegar úr Byggingarsjóði ríkisins? Hve margir einstaklingar voru í vanskilum?

2. Hversu miklir dráttarvextir voru greiddir vegna vanskila á árinu 1984?

3. Hversu margar beiðnir um nauðungaruppboð sendi veðdeild Landsbanka Íslands frá sér á árinu 1984 vegna vanskila við Byggingarsjóð verkamanna annars vegar og Byggingarsjóð ríkisins hins vegar?“

Tilefni þessarar fsp. liggur ljóst fyrir. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þá greiðsluerfiðleika sem nú eru að sliga fjölda heimila í landinu, ekki síst vegna mikillar greiðslubyrði af húsnæðislánum. Ég tel brýnt að fá fram hér á hv. Alþingi hve um er að ræða miklar vanskilaskuldir hjá Húsnæðisstofnun til þess að stjórnvöld og Alþingi hafi heildarmynd af þeim mikla vanda sem við er að glíma og geti þá betur gert sér grein fyrir með hvaða hætti best er að taka á vandanum.