12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3486 í B-deild Alþingistíðinda. (2824)

313. mál, vanskil vegna húsnæðislána

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. kveður sér leiðast að hlusta á að í umræðum um þessi mál sé talað um svik og brigsl. Ég er ansi hræddur um að hæstv. félmrh. verði bara að una því enn um sinn að svona sé talað. Frá því að hann tók við þessu embætti eru öll þessi mál búin að vera í skoðun. Við höfum heyrt hann segja það í hverju einasta viðtali, sem hann hefur komið í í fréttatíma sjónvarpsins, og þau eru ekki fá, að allt sé þetta í skoðun og allt sé þetta í athugun hjá ríkisstj. Og það er það eina sem hefur gerst. Enn eru þessi mál í skoðun. Ég minnist þess að hafa heyrt, ekki einu sinni og ekki tvisvar heldur miklu, miklu oftar, ef ekki í hverju einasta viðtali við þennan hæstv. ráðh. í fjölmiðlum, að alltaf sé verið að skoða þessi mál. Það er mál að þeirri naflaskoðun fari að ljúka hjá hæstv. félmrh. En hann verður bara að sætta sig við það að verk hans eða verkleysi í þessum efnum sé og verði gagnrýnt.

Mér fannst heldur lágt risið á hæstv. félmrh. áðan þegar hann var að svara þessari fsp. Það var eins og honum væri það heldur þvert um geð. Og ég man ekki betur en að fyrir hálfum mánuði. þegar þessi fsp. var hér á dagskrá líka og hv. fyrirspyrjandi var kominn í ræðustól og búinn að bera fram fsp., þá væri hæstv. félmrh. hlaupinn úr húsinu og fyrirspyrjandi varð frá að hverfa með sína fsp.

Hæstv. ráðh. gerir lítið úr því hér í ræðustól að 17 600 beiðnir hafi komið fram um nauðungaruppboð. Auðvitað voru ekki 17 600 fasteignir settar á nauðungaruppboð. Það dettur engum í hug. En aldrei fyrr í sögunni hygg ég að þetta hafi gerst, að beðið hafi verið á hverjum einasta degi um uppboð á tæplega 50 fasteignum, 48 fasteignum. Þar hefur þó þessi hæstv. ríkisstj. og hennar ráðherrar sett met, að ég hygg, með því að kreppa svo að almenningi í þessum efnum. Slíkt og þvílíkt hefur aldrei gerst fyrr, enda hafa nú húsbyggjendur og íbúðakaupendur um allt land risið upp til að reyna að ná rétti sínum gagnvart þessari ríkisstj. og hennar ráðherrum. Það hefur heldur aldrei gerst með þeim hætti sem nú er að gerast.