12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3493 í B-deild Alþingistíðinda. (2831)

317. mál, meint fjársvik í fasteignasölu

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég hef alloft átt viðræður við sakadóm Reykjavíkur og borið upp fyrirspurnir um gang þess máls sem hv. 3. þm. Vestf. var síðast að ræða um og óskað eindregið eftir að því máli yrði hraðað eins og kostur væri. Ég mun vitanlega halda því áfram.

Hins vegar vil ég að það komi fram að hér er um opinbert sakamál að ræða um það hvort framin hafi verið þarna refsiverð athöfn eða ekki og það bætir ekki tjón þess sem í því tilfelli er talinn hafa orðið fyrir skaða. Það er vitanlega opið fyrir hverjum og einum að höfða skaðabótamál hvenær sem er. Þannig er það ekki nema önnur hliðin á málinu sem snýr að þessari málshöfðun.

Ég hef í fleiri tilvikum en þessu lagt áherslu á það við forstöðumenn stofnana í dómskerfinu að reyna að hraða málum eins og kostur er. Hefur verið rætt á hvern hátt væri hægt að flýta þar afgreiðslu mála. Í gangi eru athuganir á því hvort með breyttum vinnubrögðum væri hægt að ná slíku marki þar sem vitanlega er mjög brýnt að ekki verði óþarfur dráttur þar á. Þó hlýtur jafnan að verða að taka tillit til þess að mál séu athuguð eins nákvæmlega og kostur er. Gjarnan biðja hlutaðeigandi um frest á máli, eins og ég rakti að hefði verið í þessu tiltekna máli, og þá er talið nauðsynlegt að verða við slíku. En vissulega mun ég gera það sem í mínu valdi stendur til að þetta nái sem fyrst fram að ganga og einnig að farið sé í hvívetna að lögum eins og kostur er.