12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3500 í B-deild Alþingistíðinda. (2841)

333. mál, ávöxtun gjaldeyrisforða

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Spurt er:

„Hvernig ávaxta Seðlabanki og viðskiptabankarnir gjaldeyriseign Íslendinga og hversu góð hefur meðalávöxtun verið á árunum 1982, 1983 og 1984, hverju um sig?

Hvernig er sú ávöxtun í samanburði við meðalvexti á skuldum Íslendinga á sömu árum?“

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þótt við séum skuldug þjóð ráðum við á hverjum tíma yfir þó nokkru af erlendum gjaldeyri. Að vísu gerum við það að verulegu leyti með því að bæta á okkur skuldum, en engu að síður er ævinlega til þó nokkur gjaldeyrisforði sem oft er talað um að endist til framfærslu þjóðarinnar svo sem eins og tvo mánuði eða eitthvað slíkt og þykir kannske ekki mjög mikið. En hér er sem sagt um eign í erlendum gjaldeyri að ræða. Spurningin er: Hvernig er þetta fé ávaxtað á hverjum tíma?

Vitaskuld hafa bankar margvíslega möguleika til að ávaxta reiðufé sitt, margvíslega aðra möguleika en láta það liggja á ávísanareikningi eða sparisjóðsreikningi í einhverjum banka í útlöndunum. Mér er kunnugt um að erlendir bankar og sjóðir leggja mikla alúð við ávöxtun á lausafé sínu, ef svo má segja, og hafa til þess mjög hæfa og reyndar oft dýra starfskrafta að stunda þá ávöxtun með sem bestum hætti. Það er kannske að vonum vegna þess að hér geta verið gífurlegir fjármunir í húfi þar sem hvert brot úr prósentustigi skiptir verulegu máli. Það er út frá þessu sjónarmiði sem fsp. er hér borin fram um það hvernig Seðlabankinn og viðskiptabankarnir ávaxta gjaldeyriseign sína og hvernig til hafi tekist í prósentum talið á undanförnum árum og hvernig það standist samanburð við meðalvexti á skuldum.