12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3500 í B-deild Alþingistíðinda. (2842)

333. mál, ávöxtun gjaldeyrisforða

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fsp. hv. þm. var send Seðlabanka Íslands og hefur bankinn sent viðskrn. svohljóðandi greinargerð sem ég leyfi mér að lesa upp, herra forseti:

Við ávöxtun gjaldeyrisforðans er þess fyrst og fremst gætt að hann sé ávaxtaður á öruggan hátt, í öðru lagi að hann sé til ráðstöfunar með sem stystum fyrirvara og í þriðja lagi að ávöxtunin sé sem arðbærust. Sjóðurinn er varðveittur á eftirfarandi hátt:

1. Í erlendum auðseljanlegum verðbréfum sem gefin eru út af: a) ríkisstjórnum iðnríkja sem mikils trausts njóta, b) alþjóðastofnunum, c) ríkisfyrirtækjum með sjálfskuldarábyrgð ríkisstjórna, d) erlendum bankastofnunum.

2. Með stutttíma innistæðum hjá erlendum bönkum sem Seðlabankinn hefur bein viðskipti við. Sjóðurinn er aðallega varðveittur í: a) Bandaríkjadollurum, b) þýskum mörkum, c) japönskum yenum, d) svissneskum frönkum.

Spurt er hvernig ávöxtun í samanburði við meðalvexti á skuldum Íslendinga á sömu árum sé. Meðalávöxtun gjaldeyrisvarasjóðsins var í lok áranna 1982–1984 eftirfarandi: 1982 11.4%, 1983 9.7% , 1984 10.3%. Meðaltalsvextir af erlendum skuldum Íslendinga til langs tíma voru á sama tíma eftirfarandi: 1982 11.8%, 1983 9.9% og 1984 10.4%. Hér er um að ræða bráðabirgðatölur. Í sambandi við samanburð á meðalávöxtun og meðaltali af vaxtagreiðslum er að geta þess að gjaldeyrisforðinn er ávaxtaður til frekar stutts tíma í auðseljanlegum skuldbindingum sem felur í sér nokkru lægri vexti en greiddir eru af lánum sem tekin eru til lengri tíma. Framangreindar upplýsingar eiga við um gjaldeyrisforða landsins sem varðveittur er af Seðlabankanum. Viðskiptabankarnir eiga að jafnaði ekki annan gjaldeyri en þann sem þeir þurfa til daglegra viðskipta.

Ég tel mig, herra forseti, hafa svarað fsp. hv. þm.