12.03.1985
Sameinað þing: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3511 í B-deild Alþingistíðinda. (2853)

249. mál, rannsókn á innflutningsversluninni

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er kannske ekki mikil ástæða til þess að hefja hér umr. um þá þáltill. sem hér liggur fyrir til umr. Þetta er mál sem nokkrir hv. þm. Alþb. flytja og 1. flm., hv. þm. Svavar Gestsson, hefur gert grein fyrir till. Það er hins vegar nokkuð athyglisvert að lesa till. og þó sér í lagi þau fskj. sem fylgja með henni, því að hér er á ferðinni gamalt mál, mál sem þáv. viðskrh. Svavar Gestsson beitti sér fyrir á sínum tíma og var nokkuð til umr. hér í sölum Alþingis fyrir nokkrum árum.

Það er augljóst af lestri þessarar till. að hún er uppgjör Alþb. við Framsfl. Till. gengur mestmegnis út á það að skamma arftaka hv. þm., fyrrv. þm. Tómas Árnason, sem þá var viðskrh. Það kemur mjög sterklega í ljós í þessari tillögugerð, er sagt hér beinlínis, að Framsfl. hafi í stjórnartíð þessara tveggja flokka komið í veg fyrir að fylgt væri eftir þeim tillögum sem þáv. viðskrh. hafði gert. Síðan er tekið nýlegt mál, sem nú er fyrir dómstólum, svokallað kaffibaunamál, sem snýr að fyrirtæki sem er nokkuð nálægt Framsfl., þ.e. Samband ísl. samvinnufélaga. Eitthvað á annan tug blaðsíðna í grg. með þáltill. fjallar um þetta mál. Það er samansafn allra blaðagreina og frétta sem hafa verið skrifaðar um þetta mál, ekki síst úr Þjóðviljanum. Þetta er auðvitað hluti uppgjörs þessara tveggja vinstri flokka sem sátu saman í stjórn á sínum tíma. Loks er svo í grg. birt ræða hv. þm. frá þeim tíma sem hann var viðskrh. og er auðvitað gott að fá slíka upprifjun fyrir þá sem kannske eru búnir að gleyma því að hv. þm. gegndi á sínum tíma embætti viðskrh.

Þetta mál er gamalt. Það byggir á þeim grunni sem Alþb. venjulega flytur mál sitt á, þ.e. að hjá versluninni sé að leita að miklum fjársjóðum. Þar hafi verið stolið peningum frá alþýðunni og nú eigi að láta til skarar skríða.

Það besta sem kemur fram í þessari till. er bréf til fyrrv. forsrh. frá þeim Ragnari Árnasyni og Þórði Friðjónssyni, en það var áfangaálit, ekki lokaálit heldur áfangaálit um aðgerðir vegna halla á viðskiptajöfnuði og samkeppnisstöðu iðnaðar. Ég endurtek: vegna halla á viðskiptajöfnuði og samkeppnisstöðu iðnaðar. Þessum mönnum tveimur var nefnilega falið af hæstv. fyrrv. forsrh. að koma fram með tillögur um þetta efni og þessum tillögum var skilað. Eins og mjög greinilega kemur fram í lokaorðum tilagnanna þá áttu þær við þá stund sem þeim var skilað. Þar segir nefnilega að innflutningstakmarkanir af því tagi sem um sé rætt í tillögunum séu „tvíeggjað vopn“ og þessar tillögur helgist fyrst og fremst af þeim erfiðu aðstæðum sem þjóðarbúið átti við að stríða rétt um þær mundir sem hv. þm. Svavar Gestsson var að ljúka valdatímabili sínu, þ.e. í mars 1983. Síðan er sagt að tillögur þessar séu bráðabirgðaráðstafanir, þótt sumar þeirra gætu átt rétt á sér til lengri tíma, og loks er sagt að ef um innflutningstakmarkanir eigi að vera að ræða til frambúðar þurfi miklu meiri undirbúning en kostur hafi gefist á.

Það hefur ýmislegt gerst frá þessum tíma. Þar á meðal hefur það gerst að verðlagning í verslun á mjög mörgum sviðum hefur verið gefin frjáls. Sannarlega hefur sú aðgerð leitt til þess að vöruverð hefur lækkað. Ég endurtek: Sannarlega hefur komið í ljós við þær aðgerðir að vöruverð hefur lækkað. Ber ég þá fyrir mig Verðlagsstofnun, en um þá stofnun er ítarlega fjallað í ræðu hv. þm. sem er endurprentuð sem fskj. með þessu frv.

Það er auðvitað ekki nema góðra gjalda vert að Alþb. flytji till. á borð við þessa. Mér finnst sjálfsagt að í nefnd sé kannað með hvaða hætti er hægt að tryggja það fremur en nú er gert að gripið sé til íslenskra laga. En flest af því sem þeir tvímenningarnir Þórður og Ragnar bentu á var hægt að gera á grundvelli íslenskra laga. Þar á ég við m.a. jöfnunartoll og þó einkum og sér í lagi undirboðstollinn. Það finnst mér sjálfsagt að nefndin kynni sér og er ekkert nema gott um það að segja að fluttar séu slíkar till. Til viðbótar finnst mér að gjarnan mætti nefndin líka ræða það hvort ekki sé kominn tími til að innfluttar vörur séu merktar með sama hætti og vörur framleiddar hér á landi og að gerðar séu sömu gæðakröfur til innflutningsins eins og til þeirra vara sem framleiddar eru hér á landi.

Það situr ekki á mér að vera á móti hugmyndum sem geta verið til bóta. En flest af því sem kemur fram í þessari þáltill. sýnir þó að Alþb. er með þessari till. að gera upp við sinn fyrri samstarfsflokk og gefa það í skyn að hjá innflutningsversluninni sé að finna fjársjóði, sem auðvitað er ekkert öðruvísi nú en var þegar hv. þm. sat í ríkisstj. Ég hef ástæðu til að ætla að einmitt með aðgerðum núverandi ríkisstj., þó einkum og sér í lagi hæstv. viðskrh., hafi verið tekið stærsta skref í áttina til þess að innflutningsverslunin sé hagkvæm, m.ö.o. með því að gefa innflutninginn frjálsari og verðlagninguna frjálsari. Og ég ítreka það, sem ekki verður á móti mælt, að einmitt það frelsi hefur leitt til lækkaðs vöruverðs og þar með betri lífskjara fyrir þjóðina alla.