12.03.1985
Sameinað þing: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3516 í B-deild Alþingistíðinda. (2858)

308. mál, hjúkrunarfræðingar

Flm. (Kolbrún Jónsdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram till. til þál. ásamt hv. þm. Kristínu Kvaran á þskj. 490, mál nr. 308 á þessu þingi, um úttekt á stöðu hjúkrunarfræðinga. Þáltill. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrrh. að skipa nefnd er geri úttekt á stöðu hjúkrunarfræðinga hérlendis. Nefndin kanni m.a.

1. hvaða ástæður liggi að baki því að skortur er á hjúkrunarfræðingum til starfa,

2. hvaða leiðir séu færar til úrbóta.

Einnig hlutist nefndin til um að gerð verði áætlun um hver þörfin verður á hjúkrunarfræðingum til starfa á næstu tíu árum.

Nefndin skili niðurstöðum sem allra fyrst og eigi síðar en að sex mánuðum liðnum eftir samþykkt þessarar till.

Alþingi Íslendinga getur ekki setið aðgerðarlaust varðandi þetta mál á sama tíma og tugir sjúkrarúma standa auðir og ónotaðir vegna skorts á hjúkrunarfræðingum til starfa.

Á vegum Hjúkrunarfélags Íslands var gerð könnun á afstöðu hjúkrunarfræðinga til starfsins varðandi laun og vinnuálag, ásamt fleiri atriðum. Þórólfi Þórlindssyni prófessor við félagsvísindadeild Háskóla Íslands var falin framkvæmd þessarar könnunar. Úrvinnslu á niðurstöðum úr þessari könnun er ekki endilega lokið, en það starf er nú vel á veg komið. Þessi könnun náði til tæplega 500 hjúkrunarfræðinga.

Í framhaldi af þessari könnun hafa birst tvær greinar í blaði Hjúkrunarfélags Íslands á s.l. ári um menntamál hjúkrunarfræðinga og um hjúkrunarfræðingaskortinn. Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í síðarnefndu greinina. Þar segir m.a.:

„Skortur á hjúkrunarfræðingum er engin ný bóla hér á landi. Árið 1942 skrifar Sigríður Bachmann grein í tímarit Hjúkrunarfræðifélags Íslands þar sem hún fjallar um vöntun á lærðum hjúkrunarkonum til starfa við almenn hjúkrunarstörf. Sigríður segir orðrétt:

„Þar sem útlit er fyrir að enn meiri vöntun á lærðum hjúkrunarfræðingum verði í ár en verið hefur virðist þess full þörf að athuga nákvæmlega hvernig sakir standa ef hægt yrði að ráða af því hvað gera þarf til þess að leysa þetta mikla vandamál sem hjúkrunarkvennaskorturinn er að verða.“

Í grein Sigríðar kemur enn fremur fram að árið 1942 voru 175 hjúkrunarfræðingar félagar í Hjúkrunarfélagi Íslands. 106 þeirra unnu við hjúkrunarfræðistörf eða rúmlega 60% félagsmanna. Þá voru 8–10 stöður óskipaðar. Það lætur því nærri að þarna hafi u.þ.b. 90% af leyfðum stöðum verið fylltar. Sigríður tekur ekki fram hve margir hjúkrunarfræðingar vinni hlutastörf eingöngu. Líklega hefur engin ástæða verið til þess. enda má ráða af þessum tölum að allir starfandi hjúkrunarfræðingar hafi þá verið í fullu starfi.

Árið 1964 fjallar Sigmundur Magnússon læknir um hjúkrunarfræðingaskortinn og leiðir til úrbóta í Tímariti Hjúkrunarfélags Íslands. Þar kemur fram að skv. upplýsingum sem sjúkrahúsmálanefnd Læknafélags Reykjavíkur tók saman hafi 30–40 hjúkrunarfræðinga vantað til starfa við sjúkrahús landsins. Lauslegir útreikningar, byggðir á upplýsingum úr grein Sigmundar, benda til þess að árið 1964 hafi 85% af nauðsynlegum stöðum verið skipaðar.

Enn er hjúkrunarfræðingaskorturinn til umræðu 1971. Í 4. tölublaði Tímarits Hjúkrunarfélags Íslands sama ár gerir Kjartan Jóhannsson grein fyrir athugun á hjúkrunarfræðingaskortinum. Í niðurstöðum þessarar könnunar kemur m.a. fram að þá voru 515 hjúkrunarfræðingar við störf á sjúkrahúsum og í borgarhjúkruninni. Vinna þessara 515 hjúkrunarfræðinga samsvarar 480 stöðugildum. Í þessari sömu könnun kemur einnig í ljós að forsvarsmenn sjúkrahúsa töldu æskilegan fjölda hjúkrunarfræðinga til þeirra starfa sem fyrir lægju vera 587 hjúkrunarfræðinga í fullu starfi og væri þá ekki tekið tillit til sumarleyfa. Skv. þessum upplýsingum nemur hjúkrunarfræðingaskorturinn því u.þ.b. 19% af áætlaðri hjúkrunarþörf.

Athugun Maríu Finnsdóttir á hjúkrunarfræðingaskortinum bendir til þess að hann sé engu minni nú en árið 1971. Könnun Maríu fór þannig fram að hún sendi spurningalista til 52 hjúkrunarforstjóra um allt land. Niðurstöður eru byggðar á upplýsingum þeirra 46 hjúkrunarforstjóra sem svöruðu spurningalistanum. Könnunin sýnir að á þessum 46 stöðum eru 1032.60 stöðugildi leyfð eða áætluð. Setnar stöður eru hins vegar 887.83. Skv. þessu vantar því 144.77 stöðugildi til þess að leyfðar eða áætlaðar stöður séu fylltar. M.ö.o. eru 85.9% af leyfðum stöðum eða áætluðum stöðum fyllt.“

Vandinn sem við stöndum frammi fyrir í dag er að 145 stöðugildi eru ómönnuð. Þetta leiðir til þess að mörg sjúkrarúm standa auð. T.d. eru 27 sjúkrarúm ónotuð á Borgarspítalanum og 29 ónotuð á Landspítalanum. Enn fremur eykst vinnuálag á starfandi hjúkrunarfræðinga þegar hjúkrunardeildir verða verr mannaðar. Þetta á sinn þátt í því að rúmlega helmingur hjúkrunarfræðinga vinnur hlutastörf.

Í fyrrnefndri grein kemur fram að meginástæður þess að hjúkrunarfræðingar fara úr fullu starfi yfir í hlutastörf eru að þeirra eigin sögn vandamál sem skapast við að samræma vaktavinnu og óreglulegan vinnutíma heimilislífi, óhóflega mikið vinnuálag og léleg laun, Það er ekki ætlun mín að benda á eina leið umfram aðra til úrbóta. Það verður hlutverk þeirrar nefndar sem fær þetta verkefni. Ekki get ég samt látið hjá líða að nefna menntunarmál hjúkrunarfræðinga í nokkrum orðum.

Nú hafa 93% allra hjúkrunarfræðinga sína grunnmenntun úr Hjúkrunarskóla Íslands. Það er kunnara en frá þarf að segja að veruleg breyting hefur orðið á þessum þætti þar sem öll grunnmenntun hjúkrunarfræðinga mun færast á háskólastig. Þarft er því að kanna hvort þetta fyrirkomulag hafi áhrif á fjölda þeirra sem velja þessa námsbraut. Hjúkrunarfræðimenntun þarf að vera aðgengileg fyrir þá sem áhuga hafa á því að öðlast slíka menntun. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að opna ætti leið fyrir sjúkraliða sem hafa langa starfsreynslu en ekki stúdentspróf til þess að öðlast hjúkrunarfræðimenntun, t.d. með tveggja ára undirbúningsnámi undir hjúkrunarfræðinám. Með þessu er ég ekki að fara fram á skemmri skírn á sjálfu hjúkrunarfræðináminu. heldur varpa ég fram þeirri hugmynd að starfsreynsla væri metin sem hluti af undirbúningsnámi.

Eins og ég hef vikið að liggur fyrir nú þegar mikið af upplýsingum varðandi afstöðu hjúkrunarfræðinga til þessara mála. Þessar upplýsingar ættu að auðvelda og flýta fyrir störfum n. sem hér er lagt til að heilbrrh. skipi. Á sama tíma og lögð er áhersla á uppbyggingu sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana er ekki hægt að láta hjá líða að tekið verði á þessu vandamáli. Það er eins með heilbrigðisstofnanir og skóla. að lamist starfsemin vegna skorts á starfsfólki nær stofnunin ekki tilgangi sínum og því síður sínum markmiðum.

Að lokum, herra forseti, legg ég til að þessari þáltill. verði vísað til allshn.