13.03.1985
Efri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3525 í B-deild Alþingistíðinda. (2866)

307. mál, fjárfestingarsjóður launamanna

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt gott um þetta frv. að segja og þær hugmyndir sem í því koma fram og þann tilgang sem því er ætlaður, eins og segir í grg. með leyfi forseta:

„Frv. þetta hefur tvíþættan tilgang: Í fyrsta lagi er því ætlað að auka innlendan sparnað í þágu arðbærrar fjárfestingar fyrir atvinnuvegi landsmanna, í öðru lagi að stuðla með óbeinum hætti að aukinni eignaraðild launamanna í atvinnurekstri.“

Auðvitað er þetta allt saman góðra gjalda vert og auðvitað er það líka af hinu góða að veita starfsfólki aukinn íhlutunarrétt um stjórn þeirra fyrirtækja sem það vinnur hjá, þó að þetta sé ekki atvinnulýðræði í beinum skilningi þess orðs, eins og 1. flm. hv. þm. Ragnar Arnalds tók réttilega fram áðan, og við höfum séð dæmi um frv. hér á hinu háa Alþingi þar sem hugtakið atvinnulýðræði er svo hrapallega misskilið að það tekur nánast engu tali. En mér sýnist að e.t.v. hefði þetta frv. þurft meiri undirbúning og nokkru meiri aðdraganda því ýmislegt sýnist mér hér geta orkað tvímælis, að ekki sé dýpra í árinni tekið.

Það er vitnað hér til ályktunar 35. þings Alþýðusambands Íslands um atvinnulýðræði og þar segir m.a. efnislega að verkalýðshreyfingunni beri nú að undirbúa á næstu misserum baráttu fyrir stórauknum áhrifum verkafólks á atvinnulífið og sú undirbúningsvinna og athugun eigi að beinast að eftirgreindum meginatriðum. Síðan eru talin upp nokkur atriði hér. T.d. segir. með leyfi forseta: „að safna upplýsingum um reynslu og hugmyndir verkalýðssamtakanna um atvinnulýðræði í nágrannalöndunum; í því sambandi skal leggja sérstaka áherslu á launamannasjóði, að móta tillögur um leiðir til stóraukinna áhrifa vinnandi fólks í atvinnulífinu.“

Hér gera alþýðusamtökin sem sagt tillögur um að það verði aflað upplýsinga um reynslu og hugmyndir verkalýðssamtakanna og upplýsingum verði safnað um atvinnulýðræði í nágrannalöndunum með sérstakri áherslu á launamannasjóðina. Ég held að það hefði verið mjög eðlilegt að láta þessa vinnu og þessa upplýsingasöfnun eiga sér stað áður en flutt væri frv. um efnið. Og ég verð að játa að mér er ekki í öllum atriðum ljóst hvernig þetta á að gerast því að eins og fram hefur komið í ræðum hér áður fluttum er í rauninni eins og það eigi enginn að greiða þetta framlag. — Og þó. Í 3. gr. frv. segir:

„Í öllum atvinnurekstri skal greiða framlag til fjárfestingarsjóðs launamanna“ o.s.frv. sem vera skal endanlega 2%.

Síðan segir, með leyfi forseta, í grg.: „Spyrja má hvort með þessu væri ekki verið að leggja gjald á atvinnureksturinn sem síðan væri endurgreitt í formi hlutafjár eða lánsfjár. Svo er ekki. Greiðslan kæmi frá báðum aðilum, launagreiðendum og launamönnum, án þess að greint yrði á milli hvað væri frá hverjum.“ — Þess vegna er í rauninni ekki hægt að spyrja: Hversu mikið greiðir hvor? — „Hún kæmi til frádráttar í bókhaldi rekstrar og væri því í mörgum tilvikum greidd af neytendum.“ Þá má náttúrlega spyrja sem svo: Er þetta ekki bara nýr skattur sem atvinnureksturinn mundi velta út í verðlagið og sem neytendur mundu greiða?

Nú ítreka ég að þessar hugmyndir eru vissulega góðra gjalda verðar og ég vitna þá til launamannasjóðanna sem rætt hefur verið um í Svíþjóð, en hafa vissulega verið mjög umdeildir þar, ekki aðeins milli hinna ólíku stjórnmálaflokka, heldur hafa þeir verið umdeildir innan sænska jafnaðarmannaflokksins einnig. Mér sýnist líka að stjórnarfyrirkomulagið á þessu „apparati“ sé ekki mjög lipurlega hugsað þar sem er 45 manna fulltrúaráð og síðan níu manna stjórn, þar af þrír sem Alþingi kýs. Hvað á Alþingi að vera að skipta sér af þessu? Ég er ekki viss um það í fljótu bragði að Alþingi komi þetta neitt við. Ég tel að þetta eigi að vera mál launamanna og þeirra sem í þennan sjóð borga og leggja þetta fjármagn af mörkum. Ég sé ekki að Alþingi þurfi að vera með fingurna í þessu fjármagni. Það er sjálfsagt nógu víða sem það er.

Ég get tekið undir þessa meginhugmynd, en ég held hins vegar að eðlilegt hefði verið að verkalýðshreyfingin hefði fengið ráðrúm til að afla þeirra upplýsinga sem um er fjallað í ályktun síðasta Alþýðusambandsþings áður en hlaupið er til og farið að flytja frv. um málið á Alþingi og það hefðu þurft að liggja fyrir meiri upplýsingar. Það hefði í rauninni þurft að liggja fyrir vilji verkalýðshreyfingarinnar í málinu. Ég er ekki viss um að hann liggi fyrir. Mér sýnist raunar að hann liggi alls ekki fyrir þó að hér séu almennar yfirlýsingar um málið. Afstaða verkalýðshreyfingarinnar til þessa frv., eins og það er samið og eins og það liggur hér fyrir, liggur ekki fyrir.

Ég skal nú ekki, virðulegi forseti, hafa um þetta fleiri orð við 1. umr., en vildi aðeins koma þessum sjónarmiðum á framfæri. Ég á sæti í þeirri hv. þingnefnd sem þetta mál fær til meðferðar og þar gefst betra ráðrúm til að ræða einstaka þætti þess í smáatriðum.