13.03.1985
Efri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3527 í B-deild Alþingistíðinda. (2867)

307. mál, fjárfestingarsjóður launamanna

Flm. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. alþm., sem tekið hafa til máls um þetta frv., fyrir aths. þeirra og ábendingar. Ég tel ekki að meginhugmynd frv. hafi mætt svo neikvæðu viðhorfi í þessum ræðum að nein ástæða sé til að kvarta þótt menn séu með fyrirvara um að þeir vilji hugleiða málið betur og athuga ýmsar hliðar þess.

Það var hins vegar misskilningur hjá hv. 3. þm. Vesturl. Valdimar Indriðasyni að hér væri um að ræða skyldusparnað á launþega og ég sé mig tilneyddan til að andmæla þeim skilningi. Það er ekkert í frv. sem hægt er að skilja á þann veg að laun launamanna lækki um 2% við samþykkt þessa frv., og bið ég nú hv. þm. Valdimar Indriðason að taka eftir því sem ég segi.

Ég held að það sé alveg ljóst að ef hv. þm. veittu atbeina sinn til að þetta frv. yrði að lögum á næstu vikum mundu laun verkafólks og annarra launamanna ekki lækka um 2% að sama skapi. Það er alveg ljóst. Það félli í hlut atvinnurekstrarins að greiða þessi 2% án þess að það breytti neinu um gildandi kjarasamninga. Þegar af þeirri ástæðu er rangt að túlka þetta sem skyldusparnað á launþega. Það er alveg ljóst af frv. að það fellur í hlut atvinnurekenda að greiða þetta til viðbótar við þau laun sem greidd eru skv. kjarasamningum. Hvort þetta hefði einhver áhrif á samninga á komandi árum skal ég ekkert um segja. Það er kannske þess vegna sem ég tek þannig til orða í grg. að greiðslan komi frá báðum aðilum, launagreiðendum og launamönnum, án þess að greint verði á milli hvað væri frá hverjum. Staðreyndin er að þetta er greiðsla skv. lögum. Hún fellur á launagreiðanda, en hvort hún hefur einhver áhrif á framtíðarsamskipti aðila vinnumarkaðarins og samninga þeirra um kaup og kjör getur enginn fullyrt neitt um á þessu augnabliki.

Mér þótti það satt að segja heldur miður að í annars heldur jákvæðri umsögn hv. þm. Eiðs Guðnasonar skyldi þetta atriði gert að einhverju stórmáli, eins og frv. væri eitthvað lakara fyrir það að þar kæmi upp spurning sem aldrei yrði svarað í raun og veru. Auðvitað hlýtur þróunin að fylgja á eftir samþykkt þessara laga. Hvort samþykktin á þessum lögum hefur áhrif á launataxta í komandi framtíð getur enginn sagt neitt um, hvorki nú né síðar. Það er miklu frekar túlkunaratriði hjá hverjum og einum hvaða skilning hann leggur í þessa hlið málsins. Ég hygg að aldrei væri hægt að útbúa löggjöf af þessu tagi á neinn hátt þannig að ekki yrði alltaf einhverjum spurningum ósvarað.

Mér fundust líka heldur léttvægar mótbárur hv. þm. Eiðs Guðnasonar þegar hann var að tala um að yfirstjórn sjóðsins ætti að vera í höndum 45 fulltrúa verkalýðsfélaganna og samtaka launamanna. Ég er nokkurn veginn viss um að ef ákveðið hefði verið að fulltrúaráðið skyldi skipað miklu færra fólki hefði verið sagt að allt of fáir ætti að ráða málum allt of margra. Það er alltaf hægt að velta fyrir sér þessum hlutum og segja að þeir eigi að vera einhvern veginn öðruvísi. Ég er til viðræðu við alla aðila um að haga stjórnarfyrirkomulagi sjóðsins á einhvern annan veg. Það er auðvitað hægt að hugsa sér mjög mismunandi fyrirkomulag í þeim efnum. En ég held að það verði að reyna að rata einhvern meðalveg í þessum efnum. Annars vegar verður fulltrúaráðið að vera vettvangur verkalýðshreyfingarinnar í heild sinni og það verður að tryggja að verkalýðsfélög víðs vegar um land hafi þarna eitthvað að segja og þá verður ekki hjá því komist að þarna sé um nokkuð marga að ræða. Hins vegar verður að reyna að tryggja að stjórnin verði ekki bákn. Þetta er stofnun sem á að koma saman þrisvar á ári og þar eiga sæti 45 menn. Ég hygg að það sé ofmælt að kalla slík fundarhöld eitthvert bákn.

Hv. þm. Eiður Guðnason gagnrýndi að Alþingi kysi þarna þrjá menn. Sjóðurinn er ekki stofnaður með hagsmuni launamanna einna í huga. Þetta er sjóður sem á að hafa almennt gildi fyrir þjóðina alla. Hann á að verða verulegt framlag til fjárfestingar í þjóðfélaginu. Það skiptir miklu máli hvernig hann mótar stefnu sína í fjárfestingarmálum. Því þótti mér eðlilegt að Alþingi kæmi þarna við sögu og ætti kost á því að hafa nokkur áhrif á hvernig fjárfestingarstefnan væri mótuð. Eins má kannske minnast þess, sem ég sagði hér áðan, að þetta er auðvitað fyrst og fremst greiðsla atvinnurekandans. Hún kemur ofan á þá kjarasamninga sem fyrir eru. Kannske má líta á þessa þrjá fulltrúa Alþingis sem nokkurs konar fulltrúa atvinnurekstrarins í landinu, hvort sem um er að ræða ríkisrekstur eða annan rekstur.

Hv. þm. Eiður Guðnason sagði alveg réttilega að verkalýðshreyfingin hefði ekki mótað endanlegar tillögur í þessum efnum. Það er ekki vegna þess að ekki hafi verið aflað gagna frá nálægum löndum. Ég hygg að þau gögn hafi legið lengi fyrir. Hins vegar hefur verkalýðshreyfingin haft svo mörgu öðru að sinna og verið svo upptekin af kjarabaráttu sinni í seinni tíð að kannske hefur mönnum ekki gefist sami tími og í nálægum löndum til að fjalla um mál af þessu tagi. En vilji Alþýðusambandsins liggur fyrir. Það kemur fram alveg skýrt, ekki aðeins í þeim orðum sem hv. þm. Eiður Guðnason vitnaði til heldur síðar í ályktun Alþýðusambandsins, að það er jákvæður vilji Alþýðusambandsins að fara þessa leið. Hér segir m.a.:

„Til þess að í slíku náist raunverulegur árangur [þ.e. að áhrif vinnandi fólks á daglega stjórnun í atvinnulífinu verði aukin] verður verkafólk að fá efnahagsleg ítök í

fyrirtækjum, t.d. með stofnun launamannasjóða.“ Þetta eru alveg ótvíræð jákvæð meðmæli með því að þessi leið sé reynd.

Ég hygg að allir gerir sér grein fyrir því að þetta frv. er hér fyrst og fremst lagt fram til að vekja athygli á þessari hugmynd, til að vekja umr. um hana. Það er síður en svo að flm. telji að fyrirkomulag þessara mála verði að vera í nákvæmlega því formi sem þeir hafa gert tillögur um. En hitt er áreiðanlegt að því aðeins eru einhverjar líkur til að sú hugmynd, sem hér um ræðir, verði að veruleika að hún verði rædd í þjóðlífinu, komi m.a. til umræðu hér á Alþingi, sé rædd af stjórnmálaflokkunum á Alþingi. Það er þess vegna sem þetta frv. er flutt.