13.03.1985
Efri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3530 í B-deild Alþingistíðinda. (2871)

342. mál, verslunaratvinna

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Með frv. því til l. um breytingu á lögum nr. 4l 2. maí 1968, um verslunaratvinnu, sem hér er til umr. og ég mæli fyrir, er gert ráð fyrir því að verslunarleyfi verði áskilið til að stunda megi leigu á lausafjármunum í atvinnuskyni. Í því skyni er lagt til að bæta við 2. gr. laganna eftirfarandi mgr., með leyfi forseta:

„Leiga lausafjármuna í atvinnuskyni telst einnig verslun skv. lögum þessum.“

Þegar um leigu lausaljármuna í atvinnuskyni hefur verið að ræða hafa sjaldnast verið gerðar nokkrar kröfur til rekstrarleyfis hér á landi. Þessi atvinnustarfsemi hefur færst mjög í vöxt á síðustu árum og þó sérstaklega kannske síðustu mánuðum. þar sem um hefur verið að ræða svonefndar myndbandaleigur. Er starfsemin, þ.e. leiga á lausafjármunum undir þessum kringumstæðum, oft umsvifamikil og líkist um margt verslunarrekstri, en ýmsar kröfur eru gerðar til þeirra sem verslun reka.

Lögunum um verslunaratvinnu er ætlað að tryggja að þeir aðilar, sem fást við verslun. séu búnir þeim hæfileikum að þeir geti uppfyllt skyldur sem slíkur rekstur leggur þeim á herðar gagnvart viðskiptavinum sínum og samfélaginu og hafi þá þekkingu á bókhaldi, vörum og lagafyrirmælum varðandi verslunarrekstur sem telja má nauðsynlega til þess að reka slíka starfsemi. Það virðist því eðlilegt að sömu kröfur séu gerðar til þeirra aðila sem fást við leigu á lausafjármunum í atvinnuskyni í sambandi við þá leigustarfsemi sem ég hef áður vikið að. Leyfisbinding starfseminnar stuðlar m.a. að því að lög og reglur viðkomandi henni — t.d. lög um bann við ofbeldiskvikmyndum þegar um myndbandaleigur er að ræða — séu virt.

Rétt hefur þótt að gera vægari kröfur til þeirra sem sannanlega stunda leigu lausafjármuna í atvinnuskyni við gildistöku laganna eða hafa á þeim tíma sannanlega lagt í umtalsverðan kostnað við undirbúning slíks reksturs án þess að hafa verslunarleyfi. Hins vegar er að sjálfsögðu ekki gert ráð fyrir því að þeir sem hafa verslunarleyfi þurfi að gera sérstakar ráðstafanir vegna gildistöku laga ef það frv., sem hér er til umr., verður samþykki. Það hefur færst í vöxt að viðkomandi leigustarfsemi sé stunduð með hefðbundnum verslunarrekstri og þess vegna er það óþarfi. Verði frv. að lögum verður firmaskráning undir öllum kringumstæðum nauðsynleg vegna leigu á lausafjármunum í atvinnuskyni, ekki aðeins þegar um er að ræða hlutafélög.

Virðulegi forseti. Með þessari greinargerð og með vísan til athugasemda við frv. leyfi ég mér að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.