13.03.1985
Efri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3531 í B-deild Alþingistíðinda. (2873)

342. mál, verslunaratvinna

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Mér finnst einhvern veginn að þessi lagagrein geti orðið til þess að farið verði svolítið lengra en meiningin í þessu frv. gefur til kynna. Mín tilfinning er sú að hér sé fyrst og fremst verið að setja lög í sambandi við myndbandaleigur og koma í veg fyrir ýmis vandræði sem átt hafa sér stað í sambandi við rekstur fyrirtækja sem hafa verið með myndbandaleigur. En með samþykkt frvgr. er verið að staðfesta það að verslunarleyfi þurfi til ýmissa smávægilegra hluta sem eiga sér stað í þjóðfélaginu.

Sveitarfélög eru með leigur á alls konar tækjum, einstaklingar eru einnig með leigur á alls konar tækjum, tiltölulega litlar í sniðum. Við vitum jafnvel um einstaklinga sem stunda það að hafa stiga og stillansa til leigu. Þeir eru bundnir því að hafa verslunarleyfi eftir orðanna hljóðan í frv. Ég vildi aðeins spyrja hæstv. ráðh. hvort meiningin í þessari till. sé sú að þetta skuli vera svo víðtækt sem það gæti orðið skv. orðanna hljóðan ef frv. verður að lögum.