13.03.1985
Efri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3531 í B-deild Alþingistíðinda. (2875)

342. mál, verslunaratvinna

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég vil taka í sama streng og þeir hv. ræðumenn sem hafa talað hér á undan mér. Ég held að eins og þetta ákvæði er orðað í frv. fái það hreinlega ekki staðist og því verði að breyta. Ég bendi á tvennt. Borgarbókasafn Reykjavíkur leigir út bækur. Bækur eru lausafé — ekki satt? — í skilningi laga. Þá er Borgarbókasafnið í Reykjavík farið að stunda verslun skv. orðanna hljóðan í lögum. Sama má segja um Norræna húsið í Reykjavík þar sem leigð eru út listaverk, eftirprentanir ýmiss konar. Þetta er gert í atvinnuskyni, má segja, á báðum þessum stöðum. Ég tek undir það og mér sýnist einsýnt að þetta þurfi að athuga langtum betur.