24.10.1984
Neðri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

6. mál, orka fallvatna

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka fram að ég álít hina mestu nauðsyn bera til að sett verði löggjöf um þau efni sem hér er um fjallað í þessu frv., sem hv. 5. þm. Austurl. gerði grein fyrir, og einnig það sem hann hafði fram að færa vegna jarðhitaréttinda s.l. mánudag trúi ég að það hafi verið.

Þrír lögfræðingar hafa hafið starf á vegum iðnrn. til þess að safna upplýsingum og, í framhaldi af því, að semja frv. til laga um þessi mál, þar sem ég trúi að m.a. efni þeirra frv. sem hér hafa verið lögð fram um þessi efni, bæði af hv. 5. þm. Austurl. og hv. 3. þm. Reykn., verði tekið til rækilegrar meðferðar og reynt að samræma sjónarmiðin. Ég er minnugur afstöðu hv. 2. þm. Norðurl. v. og kann þeim sjónarmiðum að mörgu leyti vel. En ég vildi aðeins upplýsa vegna þessa málflutnings að í undirbúningi er að taka þessi mál hvor tveggju til rækilegrar meðferðar af hálfu ráðuneytisins. Er ég þó ekki með því að segja að nefndir þings eigi ekki að gefa sér tíma til að athuga þessi mál gaumgæfilega og auðvitað að vinna að rannsókn málanna og að reyna að finna á þeim niðurstöðu. Það er ekki verið að upplýsa þetta vegna þess að ég ætli að setja fót fyrir eðlileg vinnubrögð vegna þeirra mála sem þegar hafa verið flutt í þessu skyni.