13.03.1985
Neðri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3537 í B-deild Alþingistíðinda. (2882)

347. mál, aðgerðir til að bæta hag sjómanna

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Hér er auðvitað á ferðinni hið merkasta mál þar sem verið er með lögum að breyta kostnaðarhlutdeild svokallaðri í samræmi við lausn á kjarasamningum nú fyrir skömmu. Þegar undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar stöðvast vegna verkfalls sjómanna, sem voru orðnir langþreyttir á kjaraskerðingum umfram alla aðra landsmenn, þá hriktir auðvitað í þjóðfélaginu. Það var þó svo merkilegt að þegar sjómannaverkfallið stóð yfir heyrðist varla á það minnst miðað við aðrar vinnudeilur í landinu. Eftir því mætti ætla að launadeilur sjómanna og kjarabarátta þeirra væru minna virði en annarra þegna í þessu þjóðfélagi. En svo er auðvitað ekki. Sjávarútvegurinn hefur nú um alllangan tíma staðið illa og hagur hans farið versnandi um mörg ár enda er óhætt að segja að til margra ára hefur verið hin hroðalegasta stjórn á þessum atvinnuvegi. Það er ekki hægt að víkjast undan að viðurkenna það hverjir svo sem hafa átt sæti í ríkisstj. á þessum árum.

Þegar erfiðleikar hafa verið miklir og ráðamenn þurft að standa frammi fyrir því að leysa vandamál útgerðar hefur það skeð hvað eftir annað að þeir erfiðleikar hafa verið leystir á kostnað sjómanna. Hlutur sjómanna hefur verið rýrður á sama tíma og afli hefur minnkað. Þannig hafa þeir orðið fyrir meiri kjaraskerðingu en nokkrir aðrir. Þykir þó fólki nóg um kjaraskerðingar í öðrum atvinnugreinum og síst ástæða til að gera lítið úr því. Síðast þegar þessi hæstv. ríkisstj. gekk á kjör sjómanna til að leysa vanda í sjávarútvegi sagði ég hér úr þessum ræðustóli að þetta væri ekki hægt að endurtaka. Nú þegar væri gengið svo langt að lengra yrði ekki komist. Og það var auðvitað ekki í fyrsta skipti sem þessi ríkisstj. réðist á kaup og kjör sjómanna. Hún hefur verið mjög dugleg við það. Til þess að gera langt mál stutt langar mig aðeins að nefna þó það, að fyrir eins og áratug kom þriðjungur af afla, sem dreginn var á land, til skipta milli sjómanna (fyrir utan aukahlutina). Nú er hins vegar aðeins fimmti hlutinn skilinn eftir handa sjómönnum. Það er mikil skerðing.

Til þess að leysa vinnudeilurnar er í þessu frv. farin sú leið að minnka kostnaðarhlutdeildina nokkuð, lítils háttar er óhætt að segja. En það er þó til réttrar áttar. Og ég vil leggja á það áherslu að ég bæði ætla og vona að þetta sé aðeins upphafið á þeirri þróun að skila sjómönnum til baka a.m.k. verulega stærri hlut en þessum af því sem af þeim hefur verið tekið. Þrátt fyrir þær úrbætur sem felast í lausn vinnudeilnanna, sem eru ýmsar og að sumu leyti verulegar, þar sem er um lífeyrissjóðsmál að tefla, þá get ég ekki verið sammála hæstv. forsrh. þegar hann sagði rétt áðan að hann teldi tekjur sjómanna fyllilega sambærilegar við laun annarra stétta í landinu. Ég tel að miðað við vinnutíma, álag og erfiði. hættulegt starf, þá eigi það langt í land enn. Ég er viss um að við nánari íhugun gæti hæstv. forsrh. fallist á þá skoðun.

Það hefur ekki verið launahlutur sjómanna sem hefur verið að drepa útgerðina á undanförnum árum. Það eru allt aðrir hlutir. Ég ætla þó ekki að fara að eyða tíma í að telja þá upp. En nokkrir liðir eru svo stórir og augljósir sem þarf að ráðast á. Má t.d. nefna það, að útgerð á Íslandi þarf að búa við geysilega dýra þjónustu þar sem innlendur kostnaður, sem leggst á útgerðina, hækkar miklu meira en tekjur. Við höfum dýr skip, dýrustu olíu í heimi, mesta fjármagnskostnað sem þekkist. Og það sem vegur auðvitað þyngst er að við höfum lægra fiskverð en nokkurs staðar þekkist í veröldinni.

Fyrir þessu þingi liggur þáltill. um rannsókn á erfiðleikum sjávarútvegsins. Í hv. atvmn. sameinaðs þings er meiningin að afgreiða tillöguna til ríkisstj., þ.e. menn vilja ekki láta þá könnun fara fram sem þar er óskað eftir. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. að því af þessu tilefni hvort hann álíti það ekki þess virði að rannsaka í hverju þessir erfiðleikar sjávarútvegsins eru fólgnir og síðan að rannsaka hvernig hægt verði að bæta úr þeim með því að þessi þáltill. yrði samþykkt.

Herra forseti. Ég vil ekki eyða tíma fundarins í að ræða þetta mál, þótt stórt sé, miklu meira. En ég legg á það áherslu að ég, og vonandi minn flokkur, taki þátt í að afgreiða þetta frv. sem allra liðugast og fljótast í gegnum deildina.