13.03.1985
Neðri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3538 í B-deild Alþingistíðinda. (2883)

347. mál, aðgerðir til að bæta hag sjómanna

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Mig langar til að beina einni lítilli fsp. til hæstv. forsrh. í tilefni af þessu máli. Hún varðar vinnubrögð í sambandi við samningagerðina. Nú munum við að þessi ríkisstj. hafði mjög á orði á fyrstu vikum og mánuðum lífs síns að hún berðist fyrir frjálsum samningum að frumkvæði og á ábyrgð samningsaðila. Sá ásetningur var birtur á ýmsan hátt. Það var t.d. tekið sérstaklega fram í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. Það var líka sérstaklega tekið fram í teiknimyndablaði sem ríkisstj. dreifði til þjóðarinnar á haustdögum 1983. Þetta var reyndar heldur hjárænulegt plagg og óvíst hvort það opinberaði hugarheim ríkisstj. eða hugmyndir hennar um gáfnafar borgaranna. Þetta plagg var engu að síður sent inn á hvert heimili í landinu. Í því var lögð þung áhersla á þetta fyrirkomulag við samningagerð. Þessi stefna hefur verið ítrekuð æ ofan í æ við kjarasamninga, að vísu með svolítið nýjum blæ þegar rammagerðarmeistararnir fóru á kreik í kringum ÍSAL-samningana, en engu að síður var aðaláherslan lögð á afskiptaleysi ríkisvalds af samningum af þessu tagi. Nú höfum við hins vegar haft um sinn fréttir af samningum í sjómannaverkfalli. Þar voru t.d. upplýsingar um mikla þátttöku fulltrúa ríkisstj., forstjóra Þjóðhagsstofnunar, Jóns Sigurðssonar. Það voru fréttir um fundi deiluaðila með ráðh. Svo var í dag sagt frá því í viðtali við hæstv. forsrh. í NT að þessir fundir hefðu raunar verið miklu, miklu fleiri en fréttamönnum auðnaðist að vita um. Þessir fundir voru haldnir svo ótt og títt að þeir festust ekki einu sinni á filmu. Því er spurning mín hvort öðruvísi hafi verið staðið að samningum að þessu sinni en venja hefði verið í tíð fyrrv. ríkisstj. Ég hygg að hæstv. forsrh. ætti að geta svarað þessu þar sem hann er fyrrv. sjútvrh. og ætti að hafa af þessu góðar fréttir og geta gert á þessu góðan samanburð. Í ljósi síendurtekinna yfirlýsinga ríkisstj. um nýjar aðferðir í samningamálum langar mig sem sagt að spyrja hvort á einhvern hátt hafi öðruvísi verið staðið að þessum málum í þetta sinn en venja hefur verið.