13.03.1985
Neðri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3542 í B-deild Alþingistíðinda. (2889)

347. mál, aðgerðir til að bæta hag sjómanna

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. er ákaflega hress maður í ræðustól og lætur sig ekki muna um að dylgja um að ég álíti að slæm skilyrði í sjónum séu slæmri stjórn á sjávarútveginum að kenna. Hvers konar málflutningur er þetta nú hjá hæstv. forsrh. sjálfum? Þetta gengur auðvitað ekki. Menn verða að vera aðeins vandari að virðingu sinni þegar þeir tala um þessa hluti. (Grípið fram í: Þm. sömuleiðis.) Ég hef aldrei látið mér detta það í hug einu sinni. Auk þess tel ég skylt að nefna það að ég átti ekki aðeins við stjórn á sjávarútvegsmálum þegar hæstv. forsrh. var sjútvrh. Þetta nær auðvitað yfir langtum lengra tímabil.

Hitt er svo annað mál að margumtöluð stjórn á sjávarútvegi og þá ekkert síður í valdatíð hæstv. forsrh. þegar hann var í sjútvrn. er svo sem ekkert glæsileg. Það sem lesa má frá Landssambandi ísl. útvegsmanna um stjórn hæstv. ráðh. Steingríms Hermannssonar á sjávarútvegsmálum er ekki glæsilegt. Ég er svo sem ekkert undrandi á því þó að hæstv. ráðh. reyni að fegra það ástand og reyni að fegra sína stjórn á þessum hlutum, menn verða að reyna að klóra svolítið í bakkann, en ekki má gera það með þeim hætti að verði hreinlega hlægilegt. Það er sama hvar gripið er niður, þegar sjómenn, útgerðarmenn og aðrir aðilar í sjávarútvegi tala um afkomumál sjávarútvegsins. það er allt á sömu bókina lært. Ég er t.d. með fyrir framan mig þskj. nr. 8 frá 43. Fiskiþingi. Það er svo sem ekki fallegur lestur. Ég get auðvitað leyft hæstv. ráðh. að hlusta á hvað Fiskiþing segir um þessa hluti og raunar ýmsir aðrir því að ég er með margs kyns álit og skjöl mætra og ábyrgra manna í þessum efnum. Það væri ekki úr vegi að leyfa hæstv. ráðh. að heyra eitthvað af því svo hann geti ekki verið með útúrsnúninga og heldur ómerkilegan málflutning þegar hann er að finna að því hvað ég segi hér.

Ég er auðvitað ekki eins fróður í sjávarútvegi og hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson. Hann hefur raunar aldrei komið nálægt sjávarútvegi öðruvísi en að vera ráðh. og kann það auðvitað ekki góðri lukku að stýra, svo einfalt er málið. Ég þekki sjávarútveginn kannske frá svolítið annarri hlið því að ég hef verið til sjós um áratuga skeið.

En ég veit ekki hvað ætti að velja af öllum þeim gögnum sem hinu háa Alþingi hafa verið send um þessi mál. Það er svo sem alveg sama hvort það kemur frá Fiskiþingi, Landssambandi ísl. útvegsmanna eða flokksbræðrum hæstv. forsrh. í öllum áttum, sem vinna í sjávarútvegi, hvort sem þeir heita Björgvin Jónsson eða Arni Benediktsson eða eitthvað annað. Þetta er allt saman á sömu bókina lært. Nefnum aðeins eitt dæmi. Telur hæstv. ráðh. það eðlilegar aðstæður í sjávarútvegi þegar mikið aflaskip greiðir samviskusamlega og skilvíslega 20% af öllum sínum afla sem það dregur á land, miklum afla, verðmætum afla, beint í kjaftinn á sjóðunum til þess að borga skuldir og vexti? Það skeður á sama tíma að lánin stíga til himins þrátt fyrir allar þessar greiðslur. Það er mikil kvöð og þung að greiða 20% af aflaverðmæti upp úr sjó í skuldir og vexti. Það þarf auðvitað að greiða fleira en vaxtakostnað.

Það sem fer til sjómanna, það er misjafnt eftir skipum, er á milli 30 og 40%. Olían á togurunum er á milli 20 og 30% og enn fremur kosta veiðarfæri og viðhald sitt og allt það sem er óþarfi upp að telja. Það er næstum því ekki hægt að ætlast til þess að nokkur leið sé að greiða 20% í fjármagnskostnaðinn. Þetta hafa menn þó gert, en samt hækka skuldirnar upp úr öllu valdi og þessir myndarlegu sjómenn og skipstjórar, sem bera þennan gífurlega mikla og verðmæta afla til lands, horfa sífellt á skuldirnar hækka og hækka vegna þessarar snarvitlausu meðferðar á fjármálum í landinu: vextir og vaxtavextir sem engin einasta leið er að éta sig út úr.

Það er auðvitað þetta sem við verðum að laga. Og það er mín skoðun að í þessum efnum sé ekki til annað ráð en pennastrikið sem nefnt var hér í fyrra þó margir leyfðu sér að brosa og teldu þann mann sem það nefndi af göflunum genginn. En hann hafði auðvitað rétt að mæla þrátt fyrir allt.

Herra forseti. Mig langar að lesa örlítinn texta af þskj. nr. 8 frá fiskiþinginu síðasta, með leyfi forseta: „Fiskiþing bendir á að nær öll útgerð og fiskvinnsla í landinu er nú að stöðvast vegna fjárhagsörðugleika. Gengisstefna, sem í raun hefur útilokað eða gert óarðbæran allan útflutning okkar á hina hefðbundnu markaði í Vestur-Evrópu, hávaxtastefna og miklar verðhækkanir í öllum þjónustugreinum og á aðföngum, ásamt miklu hærra olíuverði til fiskiskipa en í nokkru samkeppnislanda okkar, eru búin að eyða því litla eigin fé sem eftir var í atvinnugreininni. Rekstrarhallinn er búinn að veikja svo lausafjárstöðu viðskiptabanka sjávarútvegsins að þaðan er ekki hjálpar að vænta. Við þetta bætist svo vandinn af tveggja milljarða króna vanskilahala sem myndaðist í óðaverðbólgu síðustu ára.

Fiskiþing vekur athygli þjóðarinnar á því að fiskveiðar og vinnsla hafa þrátt fyrir alla þessa erfiðleika tekið af fullum heilindum þátt í tilraunum stjórnvalda og vinnandi fólks til að reyna að kveða niður verðbólguna sem var að steypa þjóðinni í efnahagslega glötun. Sjávarútvegurinn taldi ekki annarra kosta völ, enda yrðu allir látnir fórna. Í stað þess taldi hann sig hafa yfirlýsingar og fyrirheit um lækkandi vexti og verðlag. Eftir að ríkisvaldið tók að losa stóra hópa í þjóðfélaginu undan ábyrgð í þessum efnum og þó alveg sérstaklega eftir að ríkið sjálft tók upp og leyfði hina ríkjandi hávaxtastefnu, sem nú tröllríður atvinnuvegunum, sjá allir nema ráðamenn að þessi kapítuli í viðureigninni við verðbólguna er tapaður.

Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa. Eigi í alvöru að leggja til atlögu við verðbólguna á nýjan leik verða stjórnvöld að gera sér ljóst að sú orrusta er fyrir fram töpuð verði nokkur þjóðfélagshópur undanþeginn að færa þær fórnir sem til þarf.

Fiskiþing vekur athygli á að sjávarútvegurinn aflar 73% þess gjaldeyris sem þjóðin hefur til ráðstöfunar. Að baki þessarar gjaldeyrisöflunar eru þá aðeins 16% af erlendum skuldum þjóðarbúsins. Ef þessi gjaldeyrisöflun á að halda áfram verður að uppfylla viss grundvallaratriði:

1. Gengið verði skráð þannig að vel rekin fyrirtæki í sjávarútvegi hafi eðlilegan rekstursgrundvöll. Þess verði sérstaklega gætt við gengisskráningu að hún tryggi möguleika á útflutningi á hefðbundna markaði í Evrópu.

2. Vextir verði stórlækkaðir.

3. Verð á olíu til fiskiskipa verði meðaltal af olíuverði í Færeyjum, Noregi, Danmörku, Bretlandi og Vestur-Þýskalandi.

4. Raforkuverð til fiskiðnaðar verði stórlækkað.

5. Ekkert verði gert af hálfu íslenskra yfirvalda sem torveldað geti hin hagstæðu viðskipti sem sjávarútvegur og iðnaður eiga við Sovétríkin.

6. Þegar í lok þessa árs [þ.e. 1984] verði sjávarútveginum endurgreiddur uppsafnaður söluskattur ársins 1984“. — Og það hefur verið gert.

Að lokum: „Sjávarútveginum verði endurgreitt gengistap af 40% afurðalána ef til gengisbreytingar kemur, enda var þessi hluti lánanna færður yfir í erlenda mynt án samráðs við nokkurn aðila í sjávarútvegi.

Geti ríkisvaldið ekki tryggt sjávarútveginum viðunandi rekstursgrundvöll m.a. með framangreindum aðgerðum leggur 43. Fiskiþing til að gjaldeyrisverslun verði gefin frjáls þannig að þeir sem gjaldeyris afla geti notið fulls arðs af sinni starfsemi og kjör þess fólks sem í sjávarútvegi starfar batni.“

Svo mörg voru þau orð, herra forseti. Þetta er ekki sú lesning sem notar þyngst orð, síður en svo. Og ég tel að þrátt fyrir að ýmislegt hafi verið gert í þessum efnum, og skal ég ekkert vera að draga það neitt undan, sé höfuðvandamálið eftir.

Það kemur fram hér eins og víða annars staðar í þessu þjóðfélagi nú að vaxtafrelsið og peningafrelsið í þjóðfélaginu er að drepa niður alla atvinnuvegi. Það er að kroppa þökin ofan af fólki sem er að byggja eða kaupa, landbúnaðurinn fær sinn skammt af þessum ófögnuði og það er sama hvert er litið. Ég vil biðjast undan því að hæstv. forsrh., sá ágæti maður, leyfi sér aftur málflutning af því tagi sem hann viðhafði áðan.