13.03.1985
Neðri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3545 í B-deild Alþingistíðinda. (2891)

341. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Fyrir hönd sjútvrh. mæli ég fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 51 frá 28. apríl 1983, um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Ég get að verulegu leyti vísað til þess sem ég sagði áðan um hinar almennu aðgerðir sem ríkisstj. ákvað vegna kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna. Ég vísa einnig til almennra athugasemda við þetta frv. þar sem fram kemur að ýmis útgjöld Aflatryggingasjóðs hafa verið ákveðin á undanförnum mánuðum. Þar ber í fyrsta lagi að nefna uppbætur á ufsa, karfa, ýsu og annan botnfisk, sömuleiðis útgjöld vegna Lífeyrissjóðs sjómanna að upphæð 80 millj. kr. og 50 millj. kr. vegna aukinna útgjalda áhafnadeildar vegna fæðispeninga sjómanna.

Jafnframt hefur verið ákveðið og samþykkt með fjárlagafrv. að söluskattur, sem fiskvinnslan greiðir, verði endurgreiddur sjávarútveginum með því að láta þá upphæð renna til Aflatryggingasjóðs og ásamt tekjum Aflatryggingasjóðs standa undir þeim auknu útgjöldum sem sjóðnum eru ætluð. Er lagt til í frv. að þessi upphæð, sem er áætluð 540 millj. kr. á árinu 1985, renni til Aflatryggingasjóðs. Á fjárlögum eru 450 millj. kr. þannig að hér er um nokkru hærri upphæð að ræða. Stafar það af því að hluti af þessari greiðslu kemur ekki fyrr en eftir áramót. Uppsafnaður söluskattur verður greiddur á svipaðan hátt og verið hefur í iðnaði en þar mun vera um þriggja mánaða biðtími eftir slíkum greiðslum.

Ég vil aðeins nota tækifærið og geta þess út af ræðu hv. þm. Garðars Sigurðssonar áðan, að það er hárrétt hjá hv. þm. að ég hef ekki reynslu í sjávarútvegi né við fiskveiðar. Hins vegar hafði ég mjög reyndan mann, Garðar Sigurðsson, sem formann sjútvn. Nd. meðan ég var sjútvrh. og frá honum komu margar ágætar ráðleggingar. Ég vísa því á bug að mér sé ekki leyfilegt að svara fyrir þegar því er lýst yfir að stjórn sjávarútvegsins hafi verið hroðaleg á undanförnum árum.

Ég tek undir það með hv. þm. að það er allt of mikið að þurfa að greiða 20% af heildartekjum, sumir greiða jafnvel allt upp í 25 Ég 30%, vegna botnlausra skulda. Það er allt of mikið. Ég þekki hins vegar sem betur fer nokkuð marga útgerðarmenn, þrátt fyrir reynsluleysi mitt á þessu sviði, sem greiða langtum lægri tölur en þetta og hafa átt auðvelt með að standa í skilum. Þessir menn hafa, skulum við segja, verið svo heppnir að kaupa skip með annaðhvort pundaláni eða láni í norskum krónum, en þau hafa, eins og allir vita, ekki hækkað nema um brot af því sem dollarinn hefur hækkað.

Það er út af fyrir sig ein leið að strika út skuldir. En einhver verður að borga. Og hér er um stórar upphæðir að ræða. Það verður þá ekki gert nema þjóðarbúið í heild greiði slíkar skuldir. Það gæti vel komið til greina en til þess yrði að sjálfsögðu að afla verulegra tekna með einhverju móti og ég ætla ekki að fara að ræða það hér. Og þó að þessu hafi verið hvað eftir annað slegið fram þá var niðurstaðan sú, eins og lýst hefur verið, að ráðast í mjög víðtæka skuldbreytingu. að lengja lánin mjög mikið, jafnvel svo mikið að líkur eru til þess að ýmis þessi lán séu lengri en endingartími viðkomandi skipa og muni því jafnvel falla á Fiskveiðasjóð og verða að greiðast af sameiginlegum sjóðum landsmanna. Vitanlega er þetta í raun og veru einn angi af umræddu pennastriki.

Ég hef að sjálfsögðu séð þá ályktun sem hv. þm. lýsti. Þar er áhersla lögð á að skrá gengið rétt. Ekki léttast nú skuldir útgerðarinnar við það að skrá gengið rétt, eins og fiskvinnslan leggur áherslu á. Þá hækkar dollarinn enn þá meira og skuldirnar enn þá meira. Þannig er það nú oft að það rekst hvað á annars horn.

Ég tek undir það með hv. þm. að ekki má gera neitt það sem stefnir viðskiptum okkar við Sovétríkin í hættu eins og fram kom í þessari ályktun. Þaðan kaupum við olíuna og skv. samningum við Sovétríkin þá er hún keypt á Rotterdam-verði. Það liggja fyrir og hafa hvað eftir annað verið lagðar fram hér ítarlegar upplýsingar um það hvernig olíuverðið er myndað. Nú er lagt til að létta öllum opinberum gjöldum af olíunni til að lækka hana, þó að vísu ekki nema um 2%. Ég hygg að útilokað yrði, nema þá að leggja til verulegt fjármagn úr ríkissjóði og afla þá tekna til slíks, að tryggja að meðalolíuverð yrði það sem ályktunin gerir ráð fyrir, m.a. stórlega niðurgreitt olíuverðið á Bretlandseyjum til útgerðarinnar. Ég vek athygli á því að olíuverð í Færeyjum er nokkurn veginn það sama og hér. Þó að þetta sé ágætur listi og margt í honum athyglisvert, eins og í öðru sem aðilar samþykkja, þá er staðreyndin þó sú að flestar þessar aðgerðir kosta óhemju fjár. Og einhvers staðar verður að taka það fé. Ef menn vilja heldur taka það frá hinum almenna launþega þá er það út af fyrir sig ein leið.

En ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan að ég held að flestir, sem til mála þekkja, bindi miklar vonir við batnandi afkomu fyrst og fremst með auknum afla og batnandi aðstöðu í sjávarútvegi.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til hv. sjútvn.