13.03.1985
Neðri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3560 í B-deild Alþingistíðinda. (2901)

5. mál, útvarpslög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umr. sem neinu nemur, en víkja að örfáum atriðum sem mér finnst að valdi misskilningi.

Það er hárrétt athugað að skv. frv. eins og það kemur fram er gert ráð fyrir að frjálsar stöðvar, sem eru þau orð sem ég vildi nota yfir þær stöðvar sem koma, stöðvar sem hafa fengið leyfi til hljóðvarps- eða sjónvarpsreksturs, geta annaðhvort aflað tekna með áskriftum eða með auglýsingum, ekki hvoru tveggja. Þetta er skýrt mjög rækilega, undir hvaða kringumstæðum áskriftir eiga við og undir hvaða kringumstæðum auglýsingar eiga rétt á sér. Ég tel að Ríkisútvarpið, sem hefur hinar miklu skyldur, þurfi að hafa vissan forgang einnig og það hefur svo sannarlega vissan forgang skv. því frv. sem hér er verið að samþykkja. Það hefur bæði áskrift og auglýsingar.

Hv. 5. þm. Austurl. taldi að það kerfi sem þeir hefðu lagt til að yrði notað við innheimtu afnotagjalda og byggt yrði á hlustendakönnun kæmi réttlátlega út og ekki væri hægt að misnota það. Ég er á annarri skoðun. Ég tel að það sé mjög auðvelt að misnota það kerfi. Ég tel að þar gæti m.a. pólitískur þrýstingur haft áhrif á það á hvað menn segðust hlusta, hvort sem þeir hlustuðu á viðkomandi stöð eða ekki. Ég skýrði það í mínu máli.

Ég vil aftur á móti undirstrika að það útvarp sem ég er hræddastur við að leiði til lítillar menningar og hafi fyrst og fremst það markmið að reyna að hafa áhrif á skoðanir, sé útvarpið sem fær stuðningsgreiðslurnar. Það er útvarp á mála. — Hjá hverjum? Eitt útvarpið getur verið á mála hjá SÍS, annað hjá Loftleiðum, þriðja hjá ASÍ og þannig get ég haldið áfram að telja upp. Er það þannig útvarp á mála sem við viljum hafa? Ég held ekki. Ég held að menn verði að gera greinarmun á því hvort við viljum að útvarpsstöðvarnar séu reknar á þann hátt að þær eigi rekstrargrundvöll miðað við þá tekjustofna sem þær eiga möguleika á að hafa, fráleitt sé að líta svo á að það geti verið eðlilegt að þeirra styrkur leiði til hnignunar Ríkisútvarpsins. Ég er í það minnsta það harður stuðningsmaður Ríkisútvarpsins að ég teldi að slíkt væru mistök.

En ég er dálítið hræddur við útvarpsstöð sem sett væri á stofn án þess að hafa tekjustofna. Hvaða hvatir liggja þá á bak við það að menn reka slíka stöð? Það er ekki gróðahvötin. Er það hvötin til að láta á sér bera, nokkurs konar löngun til að komast fram í sviðsljósið, eða er það hvötin til að koma áróðri á framfæri og móta skoðanir manna með áróðri? Ég er því miður hræddur um að það yrði það síðastnefnda sem yrði grunnurinn að því að menn kæmu slíkum stöðvum af stað.

Frændur okkar á Norðurlöndum gera margt skynsamlegt, en ætli það sé samt ekki nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að reyna að meta hlutina sjálfstætt og ekki ávallt að líta á það sem heilagan erkibiskups boðskap sem frá þeim kemur? Það reyndist í það minnsta ákaflega hæpin kenning forðum þegar þeir héldu því fram að það væri fráleitt að eitt land í öllum heiminum hefði engan konung.

Auðvitað getum við deilt um þetta fram og til baka og menn haft á þessu misjafnar skoðanir, en hitt vil ég undirstrika, að þetta frv., ef að lögum verður. þarf að endurskoða innan þriggja ára. Með því er viðurkennt af þeim sem styðja frv. að þeir treysta sér ekki til að sjá fyrir þá þróun að öllu leyti sem verið er að tala um. Þeir vilja hafa það á hreinu að lagt verði mat á hverjar eru afleiðingar þess sem menn eru að gera og í ljósi slíks mats verði teknar ákvarðanir, annaðhvort um óbreytta stefnu eða um breytta stefnu.

Það má vel vera að ég hafi misskilið það sem kom fram í brtt. Alþb. varðandi sveitarstjórnir. að ég hafi litið svo á að þeir teldu að þær ættu nánast að vera umsagnaraðili á þann veg að þeirra umsögn ætti að vera mjög stefnumarkandi. Það má vel vera að ég hafi misskilið þetta, en það er ekki ætlun mín að snúa út úr orðum manna eða ætla þeim annað en þeir hafa sagt. En mér finnst að ef markmiðið er fyrst og fremst að sveitarstjórnum berist vitneskja um hvað er að gerast á þeirra svæði sé hægt að nota einfalda tilkynningarskyldu þar sem þeim sé tilkynnt formlega að sótt hafi verið um leyfi til útvarpsreksturs og hver niðurstaða hafi orðið.

Hitt vil ég undirstrika í þessu sambandi að upprunalega frv. var samið af nefnd manna úr öllum flokkum og þeir lögðu til málamiðlun. Hér hafa menn staðið upp, sem störfuðu í þeirri nefnd, og kvartað yfir því að sú málamiðlun hafi ekki verið þeim að skapi. Hv. 6. þm. Reykv. stóð upp og kvartaði yfir því að málamiðlunin hefði ekki verið sér að skapi. Ég hygg að hver sá sem kynnir sér þetta frv. geri sér grein fyrir því að hv. 6. þm. Reykv. hefur verið sveigður verulega af leið miðað við þær skoðanir sem hann lét hér uppi og hann hefur orðið að færa sig þó nokkuð langt til til að samkomulag næðist.

Mér er það efst í huga nú að ég tel æskilegt að þetta mál komi til atkvæða í þinginu og að Alþingi taki þá ákvörðun að láta reyna á hvort ekki er hægt að auka frelsi í fjölmiðlun án þess að það verði á kostnað íslenska ríkisútvarpsins og íslenskrar menningar. Hvort það tekst á eftir að koma í ljós, en ég bind miklar vonir við, eins og frá þessu er gengið, að það geti tekist.