13.03.1985
Neðri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3571 í B-deild Alþingistíðinda. (2908)

320. mál, sveitarstjórnarlög

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Á s.l. ári óskaði félmrn. eftir umsögnum sveitarstjórnarmanna um tillögur endurskoðunarnefndar um ný sveitarstjórnarlög eins og kom fram í máli hæstv. ráðh. Sú nefnd hafði starfað allt frá 1981 og unnið mikið starf þótt skiptar skoðanir séu um tillögur hennar. Að fengnum þessum umsögnum hefur hæstv. ráðh. nú lagt fram nýtt frv. til sveitarstjórnarlaga þar sem sniðnir eru af helstu vankantar sem voru í tillögum endurskoðunarnefndarinnar. Ber að fagna því. Skal hér aðeins drepið á nokkur atriði.

Í l. kafla er fjallað um stærð sveitarfélaga. Endurskoðunarnefndin lagði til í 5. gr. að lágmarksíbúatala verði 100 íbúar. Þessu er búið að breyta í 50 í frv. Ljóst er að fámenn sveitarfélög eiga undir högg að sækja Ég því nauðsynlegt að leysa vanda þeirra. Álitamál er við hvaða stærðarmörk valdboðin sameining á að miða en eðlilegra er að miða við töluna 50 eins og nú liggur fyrir.

Í 114. gr. í tillögum endurskoðunarnefndar er sett fram það ákvæði að rn. skuli vinna að því í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga, landshlutasamtök og héraðsþing að lágmarksíbúatala sveitarfélaga sbr. 5, gr. verði 400 íbúar árið 2000.

Lög um sameiningu sveitarfélaga hafa verið í gildi síðan 1970. Aðeins tvær sameiningar sveitarfélaga hafa átt sér stað síðan. Það er því ljóst að hægar hefur miðað í þessu efni en ýmsir vildu. Tíminn til að steypa sveitarfélögum saman með valdboði er ekki kominn.

114. gr. hefur nú verið breytt þannig að markið sem sett var við árið 2000 hefur verið fellt út. Rétt hefði raunar verið að fella út allan XI. kaflann, um stækkun sveitarfélaga, sleppa sláturtíðinni en halda sig að X. kaflanum um samvinnu sveitarfélaga sem er nýmæli í lögum en hefur verið framkvæmt og mjög víða vel gefist um hin stærri mál.

Ákvæði laga um frjálsa sameiningu sveitarfélaga er hins vegar eðlilegt að hafa í lögunum en varðandi þá sameiningu er nauðsynlegt að undirstrika að íbúarnir sjálfir ákveði þetta og ekki sé gengið fram hjá þeim.

IX. kafla frv., um lögbundið samstarf sveitarfélaga, hefur verið gerbreytt frá því sem endurskoðunarnefndin lagði til og er það vel. Í staðinn fyrir stór héraðsþing og fylkjaskipan eru komnar héraðsnefndir með aðild allra sveitarfélaga í stað sýslufélaga. Gömlu umdæmin halda sér og kaupstaðirnir á svæðunum fá fulltrúa í héraðsnefnd. Almenningur kýs ekki lengur sýslunefndarmenn. Þess í stað kjósa hreppsnefndir mann úr sínum hópi í héraðsnefnd. Þannig ættu að skapast góð tengsl milli hreppsnefndar og héraðsnefndar. Í sambandi við héraðsnefndirnar mætti skoða hvort fjölmennari hreppar í sýslufélögunum ættu ekki að eiga tvo fulltrúa í héraðsnefnd. Í 99. gr. er sagt að sveitarfélög með 2500 íbúa og færri skuli hafa einn fulltrúa. Eðlilegt væri að hafa þetta mark lægra. Hagsmunir minni hreppa þyrftu ekki að vera fyrir borð bornir ef þeir hafa hver einn fulltrúa. Í frv. er kveðið á um að kosningar í öllum sveitarfélögum fari fram annan laugardag í júní. Ætti að vera hægt að sameinast um þann dag.

Hér hefur aðeins verið minnst á örfá atriði varðandi þetta frv. sem tekið hefur miklum breytingum frá tillögum endurskoðunarnefndarinnar eins og fyrr kom fram. Ég á sæti í félmn. þessarar hv, deildar sem fær mál þetta til meðferðar. Ég vænti þess að gott samstarf takist um afgreiðslu þess.