24.10.1984
Neðri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

30. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vek athygli á því að þegar þessi lög voru sett var frv. til. l. um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja málefni fjh.og viðskn. Mér fyndist geta allt eins komið til álita að vísa málinu til þeirrar nefndar eins og félmn., án þess þó að ég sé neitt að vantreysta félmn. Nd. til þess að meðhöndla þetta mál vel og skynsamlega.

Ég er sammála hv. flm. um að það er nauðsyn að endurskoða lögin um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Þau eru frumsmíð og menn voru að prófa sig áfram. Það er eðlilegt að í ljósi reynslunnar taki menn sig til og reyni að sníða af þá annmarka sem menn sjá á slíkri smíði. Það eru fleiri atriði en þetta sem geta komið til skoðunar.

Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að þessi áfrýjunarréttur til Hæstaréttar sé það sem heppilegast er. Það er hægt að hugsa sér aðrar leiðir út úr þeim vanda sem ég viðurkenni að er fyrir hendi. Kjaradeilunefnd er sett upp þannig að hún á að geta starfað sem óháður dómstóll. Ég held að hugsunin, sem að baki því lá að setja þetta apparat upp, hafi verið góðra gjalda verð. Það er mjög nauðsynlegt að þarna sé einhver úrskurðaraðili sem geti skorið úr um það sem er allra brýnast í heilsugæslu- og öryggisgeiranum og það er spurning hvort kjaradeilunefnd er ekki bær dómari til þess að kveða upp endanlega úrskurði sem deiluaðilar yrðu að sætta sig við. Hitt er annað mál og það er rétt hjá hv. 1. flm., hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni, að það eru atriði sem liggja þarna á mörkunum og spurning er hvort kjaradeilunefnd á að fjalla um og út af því hafa spunnist harðar og svæsnar deilur.

Mér dettur í hug að það sé hægt að finna eðlilega samskiptaleið ríkisvalds og deiluaðila um atriði sem falla utan verksviðs kjaradeilunefndar. Kjaradeilunefnd hefur kveðið upp efnisúrskurði á þá leið að banna atriði sem hún hafði ekki vald til að leyfa. Mér fyndist eðlilegt að kjaradeilunefnd kvæði upp efnisúrskurði um þau atriði sem falla innan hennar verksviðs, annaðhvort til heimildar eða synjunar. Öðrum gæti hún vísað frá, en þau gætu verið þess eðlis að nauðsynlegt væri að taka þau til nákvæmrar skoðunar og fá um þau úrskurð og þá gæti verið leið að setja upp aðra nefnd eða annan úrskurðaraðila til hliðar við kjaradeilunefnd sem úrskurðaði önnur atriði sem ágreiningur gæti orðið um.

Varðandi framgangsmáta þessa máls vil ég vona að verkfall verði leyst áður en Alþingi vinnst tími til að ganga frá lagasetningu um þetta efni, enda er mjög vandasamt, þegar út í kjaradeilu er komið og ekki síst þegar komið er út í svo harða kjaradeilu sem nú er, að setja í lög atriði sem varða beint framkvæmd verkfallsins. Ég held að farsælla væri að við geymdum okkur lagabreytingar um þetta efni þar til verkfallið væri leyst og málsaðilar gætu talað saman sæmilega sáttir.

Ég ítreka það sem sagt að ég held að þarna þurfi að breyta lögum eða bæta við þau og endurskoða, en ég hef ekki enn sannfæringu fyrir því að þetta sé nákvæmlega sú leið sem farsælust er þó að sjálfsagt sé að taka hana til athugunar eins og aðrar.