18.03.1985
Efri deild: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3613 í B-deild Alþingistíðinda. (2932)

98. mál, sóknargjöld

Frsm. meiri hl. (Haraldur Ólafsson):

Virðulegi forseti. Þetta mál sem hér er til umr. hefur verið nokkra hríð í meðförum menntmn. Það hefur verið fjallað allítarlega um málið og rætt við ýmsa aðila. Á fund nefndarinnar komu biskup, dómprófastur, Árni Kolbeinsson stjórnarráðsfulltrúi og Ásgeir Pétursson bæjarfógeti. Einnig var rætt við ýmsa aðila símleiðis.

Eins og fram kemur í grg. er hér verið að breyta nefskatti í hundraðshluta af útsvari. Það er gert ráð fyrir að þetta gjald verði 0,20 til 0,40% af útsvarsstofni hvers gjaldanda. Þá eru ákvæði um það að fjárhagsáætlun skuli liggja fyrir áður en sóknargjald er ákveðið og að sama sóknargjald skuli vera í hverju prófastsdæmi.

Þá er í 3. grein bætt við að hrökkvi tekjur sóknarkirkju ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum þá geti safnaðarfundur samþykkt að hækka sóknargjöldin álit að tvöföldu, enda komi til samþykki kirkjumálaráðherra. Þetta atriði olli nokkurri umræðu í nefndinni og minnihlutaálit um það liggur fyrir. Þetta ákvæði er til komið vegna fjárhagslegs vanda margra kirkna eða sókna. Meiri hl. nefndarmanna þykir sýnt að til þess verði ekki gripið nema mjög ríkar ástæður séu til, enda er það kirkjumálaráðherra að veita leyfi eða synja um hækkun.

Brtt. meiri hl. nefndarinnar eru smávægilegar. Í 5. gr. segir að þeir sem utan þjóðkirkju séu greiði sama gjald og gert er í prófastsdæminu. Við leggjum til að við bætist: þó aldrei meira en 0,40% af útsvarsstofni. Nefndin telur að þeir eigi ekki að vera háðir samþykktum um tvöföldun gjaldanna.

Við 7. gr. var gerð sú breyting í lok 1. málsgr., þar sem segir um innheimtu: „Þóknun fer eftir því sem tíðkast um innheimtu þinggjalda eða um semst“, að þar standi eingöngu: Um innheimtuþóknun fer eftir því sem um semst. Það er eðlilegt að ákvæðin um innheimtu þinggjalda falli niður enda ekki sambærilegt.

Þá er í sambandi við 8. gr. lagt til að orðin „héraðsprófasts“ falli niður og eingöngu komi: prófasts. Það er eðlileg málvenja í íslensku. En eftir að gengið var frá þeirri brtt. kom í ljós að orðið héraðsprófastur kemur einnig fyrir í 2. gr. frv. og er mér ekki alveg ljóst hvort bera verður fram sérstaka brtt. um það efni. En eðlilegt er að sama regla gildi um þetta embættisheiti í öllum lagagreinunum.

Um þetta er ekki öllu meira að segja. Það er að sjálfsögðu mikils virði fyrir sóknirnar og kirkjuna að hafa slíkan fastan tekjustofn. Erfitt er að gera sér grein fyrir hvað þetta muni auka tekjur kirkna mikið. Reikna má með að þær geti aukist nokkuð. Hins vegar verða sóknargjöld nú mismunandi, þannig að hjá mörgum fjölskyldum kemur sóknargjaldið til með að lækka allverulega en hækkar þó nokkuð hjá öðrum. Margar kirkjur, sérstaklega í dreifbýlinu, eru mjög illa settar. Þar hefur hitunarkostnaður vaxið gífurlega. Einnig er mikill kostnaður við ýmsa þjónustu, organleikara og annað slíkt. Ég held að það hljóti að vera nauðsynlegt fyrir ýmsar hinar fámennari sóknir að fá meira fé í hendurnar til þess að hægt sé að sinna þar kirkjulegu starfi.

Við skulum einnig hafa í huga að í mörgum kirkjum, líklega í öllum kirkjum, hve fátækar sem þær ella eru, eru geymdir ýmsir dýrmætir gripir og merkir. Það er hörmulegt til þess að vita hve víða altaristöflur, orgel og aðrir kirkjugripir liggja undir skemmdum vegna þess að ekki er hægt að hita kirkjurnar upp eða búa þær þannig að vernd sé í.

Ég held að hér hafi komið fram meginatriðin sem um hefur verið fjallað. Meiri hl. menntmn. er samþykkur frv. og brtt. eru allar mjög smávægilegar.