18.03.1985
Efri deild: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3614 í B-deild Alþingistíðinda. (2933)

98. mál, sóknargjöld

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Hv. menntmn. deildarinnar fjallaði um þetta frv. á mörgum fundum sínum. Meiri hl. hefur skilað áliti og mælir með samþykkt þess í meginatriðum óbreytts. Ég leyfi mér hins vegar að skila séráliti og legg til að gerð verði veigamikil breyting á frv., breyting sem mér finnst skipta verulegu máli.

Ég tel að það felist allveruleg skattahækkun í þessu frv. Og ég get ekki fallist á að það sé óhjákvæmilegt eða nauðsynlegt eins og á stendur að leggja stóraukna skattbyrði bæði á lágtekjufólk og fólk með meðaltekjur. Ég tel að hægt hefði verið að komast hjá því. Ég vek á því athygli að oft hefur það valdið miklum úlfaþyt hér á landi þegar útsvar hefur verið hækkað um 1/2 eða 1%. Það hefur ekki þótt neitt smámál. Og það er það heldur ekki, vegna þess að ef við tökum sem dæmi þá getur 1% aukning útsvars slagað upp í þriggja daga tekjur, sem verið er að taka af mönnum, og því engin furða þótt það hafi oft valdið illindum og illdeilum þegar slík skattahækkun hefur gengið yfir.

En hér virðist vera ætlunin að láta það gerast þegjandi og hljóðalaust að opnaðar séu leiðir til verulegrar skattahækkunar, og það án þess að nokkur hreyfi andmælum að því er séð verður, nema þá að svo stöddu sá sem hér stendur fyrir hönd síns flokks. Mér kemur alveg sérstaklega mikið á óvart að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna skuli telja sjálfsagt og eðlilegt að skattbyrði sé aukin með þessum hætti vegna þess að það er hægt að komast undan því. Mun ég nú færa rök fyrir því.

Ég vil taka það fram að ég er alveg samþykkur þeirri meginstefnu frv. að sóknargjöld verði ekki lengur nefskattur án tillits til tekna eins og verið hefur. Ég er því samþykkur að þau verði tiltekinn hundraðshluti af stofni hvers gjaldskylds manns. Ég er líka samþykkur því meginsjónarmiði, sem kom fram hjá talsmanni meiri hl. nefndarinnar og kemur fram í grg. frv., að brýn þörf er á því að fjárhagur safnaða sé efldur. Það er ljóst að margar kirkjur fara illa vegna þess að þeim er ekki haldið við og þær eru illa upphitaðar og fámennir söfnuðir eiga í erfiðleikum með að standa undir þeim mikla kostnaði sem þessu hvoru tveggja fylgir, að halda kirkjum við og hita þær upp. Ég tala nú ekki um eftir að raforkuverð hefur hækkað svo gífurlega sem raun ber vitni í seinni tíð.

En við verðum að gera okkur grein fyrir því að þessi rök eiga ekki við nema í undantekningartilvikum. Og undantekningartilvikin mega ekki neyða okkur til þess að opna möguleika á því að hækka skatta með svo rýmilegum hætti sem hér er gerð tillaga um. Undantekningartilvik eigum við að leysa með stofnun jöfnunarsjóðs þannig að hlaupið sé undir bagga með þeim aðilum sem sérstaklega eiga í vanda. Og það er einmitt það sem mín tillaga gerir ráð fyrir. Ég legg til að 10% af öllum sóknargjöldum gangi í jöfnunarsjóð sem leysi vandamál af þessu tagi. Þá er engin þörf á þessari miklu hækkun sem hér er opnað fyrir að geti átt sér stað.

Ég bendi líka á það í nál. mínu að fleiri leiðir eru færar til þess að koma í veg fyrir það að vandamál einstakra kirkna verði til þess að stórauka álögur á almenning í þessu sambandi. Það er mjög auðvelt að minnka vanda allra þeirra safnaða sem þurfa að hita upp kirkjur með dýru eldsneyti t. d. með því að gefa þeim öllum kost á raforku á lægsta verði. Satt best að segja eru það svo litlar upphæðir, sem um væri að ræða, að það mundi ekkert muna um fyrir Rafmagnsveitur ríkisins, nú eða ríkissjóð ef ekki semdist um á annan veg, að standa undir þeim kostnaði sem af þessu leiðir.

Kirkjur verður að hita upp. Og það er auðvitað engin hæfa að söfnuðir þurfi að leggja út gífurlega fjármuni til þess að þær liggi ekki undir skemmdum. Hér er ég ekki bara að horfa á málið út frá sjónarmiði safnaðanna sem slíkra heldur líka út frá almennu menningarsjónarmiði. Viðhald kirkna er menningarverkefni þjóðarinnar allrar. Hún ætti því að tryggja það með lágu raforkuverði til kirkna að þeim yrði örugglega vel við haldið með góðri upphitun hverju sinni. Því er þetta einfaldasti hlutur í heimi að tryggja að kirkjur séu upphitaðar með raforku á lægsta verði.

Ég hefði helst kosið að útsvarsprósentan, sem gengi til safnaðanna, væri alls staðar sú sama og það væri ekki neinn möguleiki fyrir stjórnvöld í héraði, í þessu tilviki safnaðarstjórnir, að vera að ráðskast með það til eða frá. Við vitum að hugmyndir manna um framlög til ýmissa málefna eru mismunandi. Venjulega eru það nú þeir hópar sem eiga að stjórna málum og næst standa sem gera mestar kröfurnar. Og þær geta oft verið skynsamlegar og eðlilegar. En ekki mundum við vilja láta skólastjóra eða skólanefndirnar ákveða skattgreiðslur ríkisins til skólamála. Ekki mundum við vilja láta læknana og hjúkrunarliðið ákveða hversu mikið fé yrði lagt til heilbrigðismála. Og ekki mundum við vilja láta yfirstjórnir málefna fatlaðra alfarið ráða því hvað mikið gengi til þeirra málaflokka. Með nákvæmlega sama hætti finnst mér að við ættum ekki endilega að gera ráð fyrir því að fjárframlög til safnaða séu alfarið ákveðin af safnaðarstjórnum. Mér finnst að þetta ætti bara að vera ein prósenta yfir alla línuna og síðan væri jöfnunarsjóður sem kæmi í veg fyrir að vandamál sköpuðust hjá einstökum söfnuðum með framlögum til sérþarfa í sérstökum tilvikum. En úr þessu máli geri ég nú ekki svo mikið. Ef menn telja nauðsynlegt að söfnuðirnir hafi þarna eitthvert frelsi til álagningar sóknargjalda, þá ætla ég ekki að fara að hamla á móti því. Ég hef því ekki lagt fram brtt. um það efni. Ég segi bara hér hvað mér fyndist eðlilegast í þessum efnum. Mér finnst það hins vegar ekki vera aðalatriði málsins og því finnst mér ekki taka því að gera tillögu um það. Hins vegar finnst mér óeðlilegt með öllu að opnað sé fyrir að hægt sé að leggja á gjald sem geti numið allt að 0.8% af útsvarstekjum. Þetta er mjög mikil aukning frá því sem nú er. Nú er gjaldið tiltekin krónutala og þarna getur því í mörgum tilvikum verið um mjög verulega aukningu að ræða.

Menn hafa sagt við mig að nú orðið hafi söfnuðir ákveðið frelsi til álagningar og það sé því ekki verið að breyta neinu frá því sem nú er með þessu fyrirkomulagi. Þetta má auðvitað til sanns vegar færa, en þó er þetta ákaflega villandi málflutningur vegna þess að í dag er lögð sama krónutala á alla. Það er lögð sama krónutala á alla í söfnuðinum og það fyrirkomulag kemur þá að sjálfsögðu í veg fyrir að söfnuðir ákveði að hækka þetta mjög verulega, því að þá mundi það lenda af slíkum ofurþunga á þá í söfnuðinum, sem eiga erfitt með að standa undir háum útgjöldum, að menn sjá sóma sinn í því að ekki sé verið að pressa þetta upp. En þegar búið er að breyta þessu á þann veg, þá er ekki þessi fyrirstaða fyrir hendi og því meiri hætta á að um óþarflega háa álagningu yrði að ræða.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta. Ég hef lagt hér fram brtt. sem felur það í sér að 10% af innheimtum sóknargjöldum, sem þá yrðu einhvers staðar á bilinu 0.2 til 0.4%, eigi að leggja í jöfnunarsjóð. Framlög úr jöfnunarsjóði verði einkum ætluð sóknarkirkjum þar sem tekjur hrökkva ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum að dómi sóknarnefndar og sóknarprests. Sjóðurinn verði í vörslu dóms- og kirkjumálaráðuneytis sem ákveði úthlutun úr sjóðnum að fengnum tillögum biskups og prófasta skv. nánari ákvæðum í reglugerð. Ég tel að ákvæði af þessu tagi nægi algerlega til að mæta þeim vanda sem kann að vera hjá einstökum kirkjum. Með samþykkt þessarar brtt. félli þá niður heimild sóknarnefnda og dómsmrn. til að hækka gjaldið allt upp í 0.8%.