18.03.1985
Efri deild: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3617 í B-deild Alþingistíðinda. (2939)

309. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. hefur haft til meðferðar þetta frv. til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Eins og fram kemur í nál. kallaði nefndin til viðræðna fulltrúa ASÍ og Vinnuveitendasambandsins. Sömuleiðis létu þessir aðilar nefndinni í té skriflega viðhorf sín í málinu.

Eins og hv. þm. er í fersku minni, vegna þess að nýlega hefur verið mælt fyrir þessu máli, er þetta frv. fram komið sem framhald af yfirlýsingu ríkisstj. frá 6. nóvember s. l. varðandi það að hún mundi beita sér fyrir hækkun viðmiðunar bótagreiðslna atvinnuleysistrygginga. Þetta frv. tekur raunar til fleiri atriða. Þess skal getið að sú viðmiðun, sem gjaldprósenta atvinnurekenda er miðuð við, hækkar sömuleiðis.

Í 4. gr. frv. stendur: „Nú nemur vinnuframlag manns ekki 425 dagvinnustunda lágmarkinu skv. framansögðu, en viðkomandi hefur auk þess unnið eftir kjarasamningum opinberra starfsmanna, sbr. lög nr. 22/1981 og lög nr. 46/1981, og er þá heimilt að leggja saman dagvinnustundir unnar af viðkomandi og greiða bætur að tiltölu, enda náist þannig a. m. k. 425 dagvinnustundir.“

Eins og þetta hefur verið hingað til hafa menn þurft að ná lágmarksstundafjölda í hverju kerfi fyrir sig til þess að ná lágmarksrétti til greiðslu atvinnuleysisbóta.

Í umsögn og tilskrifum Vinnuveitendasambandsins kemur fram að þeir teldu eðlilegra að miða við ákveðin grundvallarlaun, ákveðna krónutölu, heldur en að miða við „störf í almennri fiskvinnu“ eins og það er orðað í þessu frv. Það var hins vegar niðurstaða nefndarinnar að mæla með því að miðað yrði við störf í almennri fiskvinnu, m. a. af þeim rökum sem fram höfðu komið þá þegar í málinu og voru ítrekuð við umræður í nefndinni, að hópar fiskvinnslufólks væru langstærstir. Sömuleiðis væri sá hópur fólks sem þægi eða hefði þegið atvinnuleysisbætur á undanförnum árum langstærstur einmitt úr röðum þessarar stéttar. Nefndin féllst því á að sá háttur verði hafður á að miðað verði við störf í fiskvinnu.

2. gr. frv. er raunar afleidd þeirri breytingu sem ég var að gera grein fyrir, þ. e. að breytt er um viðmiðun frá því sem nú er í lögunum, þ. e. 7. tölul. 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þessi grein tínir til þá sem ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Í 7. liðnum í gildandi lögum er vitnað til 8. flokks Verkamannasambandsins, sem er raunar löngu úreltur eins og alkunna er. Í þess stað er í frv. miðað við tekjur eða tekjuígildi sem samsvarar hámarksbótum atvinnuleysistrygginga á hverjum tíma.

Við 3. gr. frv. flytur nefndin brtt. Er hún flutt fyrst og fremst til þess að taka af allan vafa. Í 3. gr. frv. er talað um „hæsta starfsaldursþrep“. Þetta getur misskilist. Ef þetta stendur svona áfram gæti það verið túlkað sem starfsaldursþrep eftir 15 ár. Það var aldrei fyrirhugað. Það hefur ævinlega verið gengið út frá því — og hef ég fyrir því orð og raunar skrif forseta Alþýðusambands Íslands — að miðað væri við starfsaldursþrep eftir 7 ár. En flokkatilfærslan á sér eigi að síður stað eins og hv. þm. vita. Brtt. er sem sagt sú að þar sem stendur „hæsta starfsaldursþrepi“ komi: miðað við starfsaldursþrep eftir 7 ár. Nefndin gerir ekki aðrar brtt. við frv.

Svo að ég víki í örfáum orðum á nýjan leik að tilskrifum Vinnuveitendasambandsins um þetta mál þá kom það fram að fulltrúar Vinnuveitendasambandsins töldu að í efni þessa frv. væri farið nokkru dýpra í sakir en samningar hefðu gert ráð fyrir, þeir hefðu ekki vitað betur en að einvörðungu ætti að taka inn í þetta frv. þær breytingar sem síðustu samningar hefðu haft í för með sér. Skv. frv. eins og það liggur fyrir eru teknar inn þær tilfærslur sem ekki hafa verið leiðréttar frá því að lögin voru síðast sett 1981. Ég hef rætt þetta mál við hæstv. heilbr.- og trmrh. og hann hefur staðfest í samtali við mig að það sé einlægur vilji ríkisstj. og fullt samkomulag um það að framkvæma þá yfirlýsingu ríkisstj. sem ég vitnaði til áðan á þá lund sem frv. segir til um. Menn velkjast því ekki í neinum vafa um að það er vilji stjórnvalda að þetta nái með þessum hætti fram að ganga.

Það má e. t. v. deila um það hvaða viðmiðun sé eðlilegast að hafa. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Niðurstaða nefndarinnar er þessi. Hins vegar vil ég taka það fram, og nm. voru sammála um það, að ef verulegar tilfærslur yrðu innan taxta fiskvinnslufólks, til að mynda ef bónus yrði í ríkari mæli tekinn inn í almennt taxtakaup, þá lægi það í hlutarins eðli að þessi mál kæmu til endurskoðunar. Á þessu stigi er ómögulegt að fullyrða hver vilji stjórnvalda eða löggjafans né heldur verkalýðssamtaka yrði í því efni að hækka fjárhæðir atvinnuleysisbóta í takt við slíkar hækkanir. Á þessari stundu er útilokað að fullyrða neitt um það.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki um þetta fleiri orð. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem ég hef gert grein fyrir.