18.03.1985
Efri deild: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3623 í B-deild Alþingistíðinda. (2946)

363. mál, lagmetisiðnaður

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Ég skal ekkert um það dæma hvort það er hæstv. iðnrh. sérstakt gleðiefni að mæla fyrir þessu frv. eður ei. Ég vil þó byrja á því að fagna því sem segir hér í 1. gr. frv. þar sem talað er um Sölustofnun lagmetis og síðar Sölusamtök lagmetisiðnaðarins. Það bendir þó til þess að þeir sem sömdu frv. sjái fyrir sér einhvern tíma í framtíðinni að lögum um Sölustofnun lagmetis verði breytt eða á þessari skipan verði þó einhver breyting í framtíðinni.

Ég verð að segja að ég sé svo sem ekki brýna nauðsyn þess að framlengja þetta svo lengi, ekki síst ef þarna verður einhver breyting á og Sölusamtök lagmetisiðnaðarins taka við. Varðandi þá fsp., sem til mín var beint um þá breytingu að hvorki Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins né Iðntæknistofnun eigi framar fulltrúa í stjórn Þróunarsjóðs, skal ég ekkert dæma um það hvort stjórnir þessara stofnana hafi ætíð hitt á að velja rétta menn í stjórnina. Það er sjálfsagt álitamál því að stjórnin, þ. e. stjórn Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins valdi fulltrúa í stjórn Þróunarsjóðs lagmetis. Ég vil ekkert um það segja hvort sá fulltrúi hefur haft afgerandi áhrif á stefnumótun sjóðsins. Það eru sjálfsagt aðrir betri til að dæma um það.

Hitt er svo annað mál að það væri e. t. v. ástæða til þess í Sþ. að spyrja hæstv. ráðh. að því einhvern tíma hvernig hefði verið með styrkveitingar úr þessum sjóði, hvort þær hefðu breyst eftir að þessi skipan sjóðstjórnar var tekin upp miðað við það sem áður var þegar sjóðurinn var meira eða minna undir stjórn Sölustofnunar lagmetis. Hvort þessi nýja skipan, sem tekin var upp fyrir þremur árum síðan, ef ég man rétt, hefur breytt um til batnaðar eður ei.