24.10.1984
Neðri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

30. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er eðlilegt að hér á Alþingi komi fram frv. vegna margvíslegs ágreinings sem upp hefur komið vegna verkfalls opinberra starfsmanna og hljóta menn hér á Alþingi að velja því fyrir sér hvaða leiðir séu best til þess færar að búa svo um hnútana að viðskipti ríkisstarfsmanna og ríkisvaldsins geti verið sem best þegar til verkfalls hefur komið, og skal ég ekki rekja það hér að þessu sinni. En ég vil á hinn bóginn leggja á það áherslu að eftir að þessi kjaradeila er afstaðin er nauðsynlegt að taka þau lög. sem um þessi mál fjalla, til gagngerðrar endurskoðunar og endurmats þar sem m.a. hlýtur að koma til álita hvort ástæða sé til að kveða nánar á um verksvið kjaradeilunefndar og hvernig með öðrum hætti skuli haldið á þessum málum.

Mér fannst óþarfi af hv. flm. að gefa það í skyn, með óbeinum hætti þó, að kjaradeilunefnd gæti orðið eitthvert verkfæri ríkisvaldsins. Þetta held ég að sé óþarfa áburður. Í kjaradeilunefnd eiga sæti þrír menn skipaðir af BSRB, þrír menn af ríkisvaldi, tveir menn kjörnir af Alþingi og einn skipaður af Hæstarétti. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en þeir menn sem þar sitji reyni að taka efnisafstöðu til þeirra mála sem fyrir dóminn koma án þess að hafa í huga að verða einhverjum til þægðar sérstaklega, hvort sem það yrðu þá opinberir starfsmenn eða ríkisvaldið.

Þessi setning í grg., með leyfi hæstv. forseta: „Spurning er hvort ríkisvaldið geti í gegnum kjaradeilunefnd dregið verkfall opinberra starfsmanna endalaust á langinn“ o.s.frv. o.s.frv., er auðvitað þar sett til þess að reyna að vekja tortryggni í garð þeirra einstaklinga sem eiga sæti í kjaradeilunefnd. Ég veit ekki betur en þetta séu annálaðir heiðursmenn og sé ekki ástæðu til þess að þannig sé talað hér á Alþingi þó svo að þeir menn sem hér um ræðir hafi hér ekki málfrelsi. Þetta vil ég um það segja.

Ég vil í annan stað vekja athygli á því að í tillgr. er þessi setning: „Framkvæmd á úrskurði kjaradeilunefndar frestist uns dómur Hæstaréttar er fallinn.“ Þannig hugsa flm. sér að halda á málum ef ágreiningur rísi vegna úrskurðar kjaradeilunefndar.

Nú er það svo í lögum að kjaradeilunefnd er skylt að starfa svo að uppi sé haldið nauðsynlegri öryggisvörslu og heilsugæslu. Ég held af þeim sökum að nauðsynlegt sé að hafa regluna öfuga. Ég vil gjarnan heyra af hvaða ástæðum flm. kjósa að hafa þennan hátt á, af hverju þeir tóku ekki hinn kostinn að niðurstaða kjaradeilunefndar skuli gilda uns hæstaréttardómur er fallinn. Ég átta mig ekki alveg á því hvaða tilvik það geti verið sem valdi því að þessi regla er til valin, en ugglaust er þetta að yfirlögðu ráði og vildi ég mjög gjarnan fá að vita hvaða rök standi þá til þess. Einhver efnisrök hljóta að vera fyrir því.

Ég vil svo í þriðja lagi leggja áherslu á að það er komið í ljós, ég hygg að það sé samdóma álit þm. og forsvarsmanna opinberra starfsmanna, að lögin um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja þurfa endurmats og endurskoðunar við og ekki síst það ákvæði, að mínu mati, sem skyldar sáttasemjara til að leggja fram sáttatillögu um aðalkjarasamning a.m.k. fimm sólarhringum áður en verkfall skal hefjast. Ég held að það eigi að taka þennan kaleik frá sáttasemjara. Ég held að reynslan af sáttatillögunni í haust sýni okkur að þessi kvöð sáttasemjara varð síður en svo til þess að sættilegra yrði. Þvert á móti olli sáttatillagan því, — fyrst aðdragandi hennar þegar Bandalag starfsmanna ríkis og bæja beitti allri orku sinni til þess að fella sáttatillöguna, síðan sá dráttur sem var meðan talið var o.s.frv., — að eðlilegar samningaviðræður gátu ekki farið fram milli ríkisvaldsins og stjórnar BSRB um lausn kjaradeilunnar og átti sinn þátt í því að þessi kjaradeila varð illleysanlegri en ella. Ég held þess vegna að það sé mjög brýnt þegar á þessu þingi að það verði lagt í mat sáttasemjara sjálfs hvort hann telji skynsamlegt og rétt að leggja fram sáttatillögu áður en til verkfalls komi, honum sé það heimilt, enda sé sáttasemjara heimilt á hvaða stigi deilunnar sem er að leggja fram sáttatillögu sem sé lögð fyrir alla opinbera starfsmenn, en löggjafinn knýi hann ekki til þess að gera það kannske á viðkvæmu augnabliki og þegar slík tillaga verður einungis til þess að ýfa upp þann ágreining sem kannske hefur verið að minnka. Ég tel að þetta sé mjög þýðingarmikið atriði.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Ég vil aðeins ítreka það, sem sagt var þegar opinberir starfsmenn börðust fyrir verkfallsréttinum á sínum tíma og kom skýrt fram af hálfu BSRB og einnig alþm., að vitaskuld er það grundvöllur þess samkomulags að lög séu haldin í hvívetna af beggja hálfu. Og ég er þess fullviss að það sé rétt, sem framkvæmdastjóri Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sagði á fundi sem ég var staddur á í gærkvöldi, að í þessu verkfalli, sem nú er haldið, hafi verkfallsverðir opinberra starfsmanna hvarvetna haldið sig innan ramma laganna og hvergi brotið neitt sem varðar við lög.