18.03.1985
Neðri deild: 48. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3625 í B-deild Alþingistíðinda. (2955)

111. mál, áfengislög

Frsm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 566. Það er 111. mál og er frv. til l. um breyting á áfengislögum nr. 82 2. júlí 1969.

Efni þessa frv. er að nýrri mgr. er bætt við lögin: „Um meðferð áfengis í skipi, er kemur frá útlöndum, vörslu þess eða innsiglun, fer skv. ákvæðum laga um tollheimtu og tolleftirlit.“

Þetta ákvæði kemur í stað 2.–6. mgr. 4. gr. núgildandi laga.

Auk þess er lagt til í frv. að niður falli 2. mgr. 6. gr. áfengislaganna, en þar er landhelgi ákveðin 4 sjómílur frá stórstraumsfjöruborði. Nú hafa verið samþykkt ný lög um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41 frá 1979, og samræmist þetta mark landhelginnar ekki þeim lögum þar sem þar er jafnan miðað við beinar grunnlínur. Því er lagt til að nefnd málsgrein verði felld niður.

Nefndin leggur til, eftir að hafa athugað þetta frv., að það verði samþykkt óbreytt.