18.03.1985
Neðri deild: 48. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3628 í B-deild Alþingistíðinda. (2966)

334. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Þetta frv. varðar sölu á íbúðum sem byggðar voru á sínum tíma til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði, þ. e. voru byggðar fyrir gildistöku laga nr. 51/1980. Þannig stendur á að um endursölu þessara íbúða gilda önnur ákvæði en t. d. um endursölu verkamannabústaðaíbúða eða íbúða sem byggðar voru á vegum framkvæmdanefndar. Fyrir bragðið hafa eigendur íbúða, sem voru byggðar til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði á sínum tíma og fyrir gildistöku laga nr. 51/1980 og óska eftir að selja þessar íbúðir, orðið utangarðs í kerfinu. Þeim tekst ekki að komast í gegnum kerfið með málaleitan sína um að selja íbúðirnar. Það fyrirfinnst enginn sem á að meta íbúðirnar t. d. og meðan ekki fyrirfinnst aðili sem á að meta íbúðirnar geta sveitarstjórnirnar ekki tekið afstöðu um forkaupsréttinn.

Þetta er í rauninni kjarni þessa máls. Hér hefur hópur fólks orðið utangarðs lagalega séð, kemst ekki til þess að selja íbúðir sínar vegna þess að kerfið leyfir því í rauninni ekki að selja íbúðirnar eins og það er núna. Til þess að ráða bót á þessu er hér lagt til að með þessar íbúðir skuli fara með sama hætti og íbúðir í verkamannabústöðum frá sama tíma, þannig að við 62. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins bætist ákvæði sem hljóði svo:

„Um íbúðir sem byggðar voru til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis fyrir gildistöku laga nr. 51/1980 og sveitarfélög lögðu fé til skulu gilda sömu reglur og um íbúðir í verkamannabústöðum samkv. þessum kafla [þ. e. þessum kafla laganna]. Stjórnir verkamannabústaða skulu fara með kaup og sölu slíkra íbúða og gilda ákvæði 49. gr. um fjármögnun þeirra við sölu.“

Eins og af þessu má ráða er lagt til að sömu reglur gildi um þessar íbúðir, sem voru byggðar á sínum tíma til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði og sveitarfélög lögðu fé til, og nú gilda um verkamannabústaði. En jafnframt er nauðsynlegt að þan lagaákvæði, sem þó eru í gildi um þetta mál en virka ekki eins og ég lýsti áðan, verði numin úr gildi. Þess vegna er í 2. gr. þessa frv. til l. lagt til að jafnframt falli úr gildi lög nr. 106/1970, um sölu á íbúðum sem byggðar eru af framkvæmdanefnd byggingaráætlunar í Reykjavík eða til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði.

Sannleikurinn er sá að ákvæði þessara laga að því er varðar sölu á íbúðum sem byggðar voru af framkvæmdanefnd byggingaráætlunar eru í rauninni ekki lengur í gildi þó að lögin séu talin í gildi vegna þess að það eru komin ný ákvæði um það í lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þau lög sem hér um ræðir, þ. e. lög nr. 106/1970, hafa því einungis lagalegt gildi að því er varðar sölu á íbúðum sem voru byggðar til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði.

Það er sem sagt svo, að fyrir gildistöku laga nr. 51/1980 voru í gildi sérstök ákvæði um framlög sveitarfélaga til íbúðarbygginga í þessu skyni og skyldur ríkissjóðs til að leggja jafnháa upphæð á móti sveitarfélagi. Það var að því leytinu um félagslega aðgerð að ræða og lánakjör á þeim íbúðum, sem hér um ræðir, voru betri en við almennar íbúðabyggingar og að ýmsu leyti hliðstæð við kjörin í verkamannabústaðakerfinu. Menn geta líka ráðið hliðstæðuna af því að lögin nr. 106/1970 fjalla bæði um endursölu á íbúðum sem byggðar eru af framkvæmdanefnd byggingaráætlunar og um sölu á íbúðum sem eru byggðar til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði. Þegar af þessum sökum virðist eðlilegt að hér fylgist að sú regla sem menn hafa á hverjum tíma varðandi endursölu á íbúðum í verkamannabústaðakerfinu eða íbúðum byggðum af framkvæmdanefnd byggingaráætlunar og svo hins vegar þeim íbúðum sem byggðar eru til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði.

Ég ætla ekki að rekja þetta neitt frekar, herra forseti, en vísa til þeirrar grg. sem fylgir þessu frv. til l. og eins grg. til bæjarráðs Hafnarfjarðar frá bæjarlögmanninum Ingimundi Einarssyni, þar sem rakin er sú hörmungarsaga sem menn geta orðið fyrir í þessum efnum, að komast ekki til að selja íbúðir sínar vegna þess að eitt rekur sig á annars horn í kerfinu.

Á þessu máli geta menn í rauninni haft tvær skoðanir, nefnilega þá annars vegar að engar kvaðir skuli vera á þessum íbúðum og þær fari til frjálsrar sölu á hinum almenna íbúðamarkaði ellegar þá stefnu, sem hér er lögð til, að sama regla gildi og gildir um aðrar íbúðir sem byggðar voru á félagslegum grundvelli á þessum tíma. Sú stefna, sem hér hefur verið valin, gerir sem sagt ráð fyrir því að þessar félagslegu íbúðir haldi áfram að eiga samleið með öðrum félagslegum íbúðum sem byggðar voru á sama tíma. Ég tel það vera eðlilegt sjónarmið. Menn geta svo deilt um hvaða reglur skuli gilda um sölu á slíkum íbúðum á hverjum tíma, en ég tel einsýnt að reglan eigi að vera ein og sú sama hverrar tegundar sem félagslegar íbúðir eru, sú sama fyrir verkamannabústaði og fyrir íbúðir sem byggðar voru til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði og fyrir íbúðir sem byggðar voru af framkvæmdanefnd byggingaráætlunar.

Að lokinni þessari umr., herra forseti, legg ég til að þessu frv. verði vísað til félmn. og 2. umr.