19.03.1985
Sameinað þing: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3637 í B-deild Alþingistíðinda. (2983)

325. mál, samfelldur skólatími

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Það kann næstum að sýnast kaldhæðni að tala fyrir þeirri fsp. sem hér liggur fyrir á þskj. 519 og er 325. mál þingsins, en fsp. sú sem ég hef lagt fyrir menntmrh. fjallar um samfelldan skólatíma. En því kallaði ég það kaldhæðni að eftir því sem ég best veit liggja nú grunnskólar landsins niðri vegna samúðarverkfalls kennara í hatrammri kjaradeilu. En ég held að ég fylgi samt dagskrá þó að svo sorglegar kringumstæður séu fyrir hendi.

Spurning sú sem ég hef lagt fyrir hæstv. ráðh. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað líður framkvæmd þál., sem samþykkt var 10. apríl 1984, um könnun á kostnaði við einsetningu skóla, samfelldan skólatíma og skólamáltíðir?“

Þáltill. sú, sem lögð var fram á síðasta þingi, var borin fram af mér ásamt hv. þm. Svavari Gestssyni, Kolbrúnu Jónsdóttur, Karli Steinari Guðnasyni, Jóhönnu Sigurðardóttur og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur. Samþykkt hljóðaði hún svo er hún varð að þál., með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta meta kostnaðarauka ríkissjóðs og sveitarfélaga sem hlytist af því að komið yrði á samfelldum skóladegi grunnskólanema. Sú kostnaðarkönnun miðist við: 1) Einsetinn skóla. 2) Samfelldan skóladag. 3) Skólamáltíðir handa nemendum og starfsliði.

Jafnframt verði kannað hvort þörf fyrir skóladagheimili og skólaathvarf minnkar með samfelldum skóladegi og hverju sá sparnaður kann að nema.

Niðurstöður þessarar könnunar verði lagðar fyrir næsta löggjafarþing. Kostnaður greiðist af ríkissjóði.“ Nú er liðið langt á þetta þing og enn höfum við ekki séð það sem samþykkt hefur verið hér að leggja fyrir þetta löggjafarþing, sem sagt niðurstöður þessarar könnunar. Hér hefur verið dreift að ég held, a. m. k. hefur mér borist hún í hendur, áfangaskýrslu hóps sem þá þegar hafði verið við störf, en sá hópur átti raunar að fjalla um nokkuð annað en það sem hér er verið að tala um. Vinnuhópur sá var skipaður ári áður, og honum var ætlað að athuga sérstaklega tengsl fjölskyldu og skóla og athuga einkum hvernig má samræma betur vinnutíma foreldra og skólabarna o. s. frv. Þetta er hið ágætasta rit, sem hér liggur fyrir, en ég fæ ekki séð að það svari á nokkurn hátt því sem um var beðið með þál. sem hér var samþykkt í fyrra. Því hef ég leyft mér að bera spurninguna fram.