19.03.1985
Sameinað þing: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3637 í B-deild Alþingistíðinda. (2984)

325. mál, samfelldur skólatími

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég verð að játa að mér hafa orðið á nokkur mistök í möppuflóðinu í menntmrn. Sannleikurinn er sá að ég hafði ekki áttað mig á því að einmitt þessi fsp. væri á dagskrá. Hún er oft búin að vera hér á dagskrá og ég hef oft komið með hálfa tösku af upplýsingum til að fræða Alþingi einmitt um þetta mál, en ég sé, því miður, að mér hefur orðið á að skilja þau gögn eftir á borðinu hjá mér í menntmrn. að þessu sinni. Ég vil þess vegna biðja hæstv. forseta að fresta umr. þannig að mér gefist kostur á að láta koma þessum gögnum til mín. Ég er fús til þess að svara fsp. þó það verði síðar á fundinum eða þegar hæstv. forseta þóknast, en hér er hreyft mjög mikilvægu máli sem unnið hefur verið að. Ég vil þá, með leyfi hæstv. forseta, fá að nota þetta tækifæri, sem gefst í tilefni af þessari fsp., til að gera grein fyrir því sem þegar liggur fyrir um þetta mál.