19.03.1985
Sameinað þing: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3638 í B-deild Alþingistíðinda. (2987)

345. mál, greiðslukvittanir lánastofnana

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykn. hefur mælt fyrir fsp. sem hann hefur flutt ásamt hv. varaþm. Sighvati Björgvinssyni. Ég hef látið athuga þessi mál og skv. þeim upplýsingum sem viðskrn. hefur aflað hjá Sambandi viðskiptabanka hefur verið unnið að því að koma greiðslukvittunum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum í það horf sem lýst er í fsp. og munu greiðslukvittanir víðast með þeim hætti nú, þó að ég vilji ekki fortakslaust segja að það sé alls staðar svo komið.

Þær upplýsingar fengust hjá Húsnæðisstofnun ríkisins varðandi húsnæðisstjórnarlánin að þannig sé þetta komið þar. Þar var þó tekið fram að innan tíðar yrði greiðslukvittunum vegna afborgana af húsnæðisstjórnarlánunum breytt í sama horf og nú er eða verður hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum.

Hjá Sambandi almennra lífeyrissjóða fengust þær upplýsingar að greiðslukvittanir væru útbúnar á þann hátt sem lýst er í fsp. Sama á við um greiðslukvittanir hjá Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda. Að öðru leyti liggja ekki fyrir upplýsingar um fyrirkomulag og gerð greiðslukvittana hjá lífeyrissjóðum. Hins vegar var haft samband við fjmrn. vegna fsp., en fjmrn. fer með málefni lífeyrissjóða, og því greint frá þeim óskum um sundurliðun á upplýsingum sem fyrirspyrjendur óska eftir að fram komi á greiðslukvittununum.

Með hliðsjón af því sem ég hér hef sagt sýnist mér að þetta mál sé að komast í það horf sem fyrirspyrjendur víkja að, en ég lýsi mig reiðubúinn til þess að undirstrika við samtök þessara stofnana og standa að því að sundurliðaðar kvittanir liggi fyrir við greiðslu í hvert sinn. Það sýnist vera eðlilegt og ekki aðeins það, heldur að greiðandinn eigi á því kröfu. Ég mun beita mér fyrir því að það geti gerst alls staðar.