19.03.1985
Sameinað þing: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3639 í B-deild Alþingistíðinda. (2988)

345. mál, greiðslukvittanir lánastofnana

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin, en ég verð að segja að það er okkur sem þjóð til nokkurs vansa að þetta skuli ekki hafa verið gert fyrir löngu. Það er forkastanlegt hversu lengi hefur dregist að greiðslukvittanir væru settar upp með skýrum og skilmerkilegum hætti þannig að fólk gæti af þeim lesið þann rétt sem það á í sambandi við skattframtölin. Ég óttast það og er sannfærður um að svo er, að mjög margir hafi einmitt verið hlunnfarnir á undanförnum árum af þessum ástæðum, þeir hafi ekki fundið sinn rétt á þeim kvittunum sem þeir hafa haft í höndunum, og þá einmitt þeir sem síst skyldi. Þeir sem eru klókir í fjármálum, þeir sem hafa komið sér vel fyrir, eru líklegri til að geta ratað um þessa refilstigu, hvernig svo sem kvittanirnar eru úr garði gerðar. En venjulegt fólk, sem stendur ekki í neinu fjármálavafstri, hefur áreiðanlega margt misskilið þessar kvittanir og farið varhluta af frádráttarliðum, sem það átti rétt á, vegna þess að hér hafði ekki verið nægilega vel um hnútana búið.

Ég skildi svar hæstv. viðskrh. þannig, að hann teldi að þetta mál væri komið allvel áleiðis og að þess vegna væri að líkindum ekki ástæða til að setja almennar reglur, en um frumkvæði hans í því að setja slíkar almennar reglur fjallaði þessi fsp. Ég held að þó væri a. m. k. ástæða til þess að hæstv. ráðh. beitti sér fyrir því með sérstöku bréflegu erindi til allra þeirra sem stunda útlánastarfsemi að þeir taki upp það form sem hér er gert að umtalsefni en er á leiðinni hjá hinum ýmsu aðilum eftir því sem hæstv. ráðh. upplýsir. Ég vil því spyrja hæstv. ráðh. hvort hann sé a. m. k. ekki reiðubúinn að beita sér í þessum efnum gagnvart öllum þeim sem stunda lánastarfsemi og ítreka þá ósk að frá greiðslukvittunum verði gengið með þeim hætti að þessar upplýsingar komi fram ef hann sér ekki ástæðu til þess að setja almennar reglur.