24.10.1984
Neðri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

30. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Reykv. og meðflm. hans að þessu frv. fyrir að hreyfa þessu máli. Hér er á ferðinni stórmál sem varðar samskiptareglur í viðkvæmum og erfiðum vinnudeilum.

Í grófum dráttum má segja að möguleikarnir í þessum efnum séu fjórir. Í fyrsta lagi sá að til sé kjaradeilunefnd, eins og nú er gert ráð fyrir í lögunum, sem hafi endanlegt úrskurðarvald. Rökin fyrir því að hafa kjaradeilunefnd með þeim hætti sem nú er gert ráð fyrir eru vafalaust þau sem hv. 1. þm. Vesturl. gat hér um áðan, að hún væri fljótvirk. Hér þyrfti að kveða upp úrskurði skjótt og skýrt.

Annar möguleikinn er sá sem lagður er til hér, að um verði að ræða áfrýjunarrétt þannig að niðurstaða kjaradeilunefndar sé ekki endanleg. Í þeim efnum eru þá til ýmsir möguleikar varðandi það hver það er sem á endanlega að úrskurða. Einn möguleikinn er Hæstiréttur eins og hér er lagt til. Annar möguleikinn er auðvitað félagsdómur. Og þriðji möguleikinn er önnur nefnd eins og hv. þm. Páli Pétursson nefndi hér áðan. Félagsdómur fer með deilumál í almennum kjaradeilum. Í 44. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur segir svo, með leyfi forseta:

„Verkefni félagsdóms er:

1. Að dæma í málum, sem rísa út af kærum um brot á lögum þessum og tjóni, sem orðið hefur vegna ólögmætra vinnustöðvana.

2. Að dæma í málum, sem rísa út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans.

3. Að dæma í öðrum málum milli verkamanna og atvinnurekenda, sem aðilar hafa samið um að leggja fyrir dóminn, enda séu a.m.k. þrír af dómendunum því meðmælir.“

Mér sýnist að út af fyrir sig mætti í þessum efnum skoða 1. tölul. 44. gr., hvort hann gæti átt við í þessum efnum, og mér finnst sjálfsagt að sú nefnd sem fær málið til meðferðar velti því fyrir sér.

Gallinn hins vegar við það að setja þetta mál í félagsdóm og í Hæstarétt er auðvitað einfaldlega sá að það yrði vafalaust um að ræða mikið málaflóð hjá þessum stofnunum ef þær ættu að vera hinn endanlegi úrskurðaraðili. Ég geri ráð fyrir því að í heitum kjaradeilum, eins og þeirri sem nú stendur yfir, mundu mál þróast þannig að flestum eða öllum málum yrði vísað til lokastigs, þ.e. Hæstaréttar eða félagsdóms. Þess vegna er ég ekki alveg 100% viss um að sú hugmynd sem hér er nefnd sé sú rétta. Ég er ekkert að gera lítið úr hugmyndinni, en ég er bara að velta hér upp atriðum til umhugsunar sem þingið þarf að skoða í þessari stöðu.

Ég hef nefnt tvo möguleika varðandi þessi mál. Annar er kjaradeilunefnd sem hefur endanlegan úrskurð. Hitt er áfrýjunarréttur til ákveðinna stofnana. Þriðji möguleikinn er svo aukinn meiri hluti sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson benti hér á áðan. Ég sé í sjálfu sér ekki að það breyti mjög miklu. Það kann að vera að hægt sé að koma við einhverju slíku ákvæði, en ég er ekki viss um að það breyti mjög miklu. Ég er sérstaklega ekki viss um að kjaradeilunefnd yrði í raun og veru neitt minna umdeild þó að það væri aukinn meiri hluti sem ætti að kveða upp úrskurði í málum. Þess vegna sækir það auðvitað að manni hvort ekki er eðlilegast í stöðu eins og þessari að segja sem svo: Þegar atvinnurekandinn, þ.e. ríkið, þarf á því að halda að láta vinna verk, koma út skipum svo að ég nefni dæmi, eða láta gera annað, og færir fyrir því gild rök, þá beinir hann umsókn sinni einfaldlega til verkfallsstjórnar BSRB, eins og gert er í hinum almennu kjaradeilum. Atvinnurekendur í hinum almennu kjaradeilum beina umsókn um undanþágur til viðkomandi verkfallsstjórna og ég held að við eigum að taka það til umhugsunar hvort þetta er ekki það eðlilega fyrsta stig í málinu. Ef hins vegar verkfallsstjórn synjar og viðkomandi er óánægður með þá niðurstöðu, þá er auðvitað hugsanlegt að kjaradeilunefnd eða önnur slík stofnun taki við.

Ég held m.ö.o. að vandinn í sambandi við kjaradeilur opinberra starfsmanna núna stafi fyrst og fremst af því, að menn eru að sumu leyti að reyna að fara aðrar slóðir við framkvæmd vinnudeilnanna en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði. Í þessum efnum bera menn það fyrir sig að opinberir starfsmenn sinni öryggisvörslu og heilsugæslu o.s.frv., og þar verða auðvitað að gilda sérstakar reglur, það er alveg ljóst. En þegar þeim reglum sleppir, þá held ég að farsælast sé fyrir alla aðila að að öðru leyti fari þessi mál eftir hinum almennu lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Í lögunum um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja frá 1976 er aftur og aftur vísað til félagsdóms og hinna almennu laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Það er skoðun lögfræðinga í vinnurétti og annarra lögfræðinga, sem hafa litið á þessi mál og farið vandlega yfir þau, að þegar lögunum frá 1976 um kjarasamninga opinberra starfsmanna sleppir, þá taki við hin almennu lög um stéttarfélög og vinnudeilur.

Ég held að nauðsynlegt sé að þau sjónarmið sem ég hef hér nefnt fái að koma hér fram. Hér er um að ræða flókið mál en ekki einfalt. Ég tel eðlilegt að þegar Alþingi tekur afstöðu í þessu máli sé leitað umsagnar allra aðila, m.a. BSRB en einnig hinna almennu verkalýðsfélaga. Þar er um að ræða fjöldamörg markatilvik á milli hinna almennu verkalýðsfélaga og opinberra starfsmanna, einmitt við framkvæmd kjaradeilna, þar sem þarf að tryggja betri vinnubrögð svo að ekki komi til átaka, misskilnings eða óþæginda vegna þess að reglur séu óljósar. Ég tel einnig að þegar um mál eins og þetta er að ræða sé mjög nauðsynlegt að reynt sé að tryggja um það sem besta pólitíska samstöðu. Ég tel þess vegna að ef menn ætluðu sér að fara út í að endurskoða lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna, þá verði náttúrlega að kalla til fulltrúa þeirra, en líka sem flestra stjórnmálasjónarmiða, því að það er eitt af höfuðatriðunum í okkar þjóðfélagsgerð allri að sæmilegur friður ríki um vinnureglur af þessu tagi. Og það er þess vegna sem lögin um stéttarfélög og vinnudeilur, þó gölluð séu, hafa staðið óbreytt í nærri fimmtíu ár í meginatriðum, vegna þess að menn hafa ekki viljað rífa þau upp í ágreiningi. Ég held að það sjónarmið, sem liggur þar á bak við af hálfu löggjafans á undanförnum áratugum, sé skynsamlegt sjónarmið. Ég held að það sé í raun og veru háskasamlegt ef jafn mikilvægur þáttur í okkar stjórnskipun eins og lög um vinnudeilur er rifinn upp í hörðum pólitískum ágreiningi.

Ég held að það séu hættulegt og geti dregið dilk á eftir sér á mörgum öðrum sviðum.

Ég neita því ekki að ég teldi það varasamt að lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna yrðu endurskoðuð undir forustu núverandi fjmrh. Ég tel að reynslan af honum sé svo slæm í þessu efni að ekki sé hægt að trúa fjmrn., eins og það er núna, fyrir því að fara með forustu um þessi mál. Ég tel þess vegna, ef þarna á eitthvað að gerast, að það verði í fyrsta lagi að gerast í góðri samvinnu við stéttarsamtökin, en í öðru lagi eigi að leita eftir annarri leið en þeirri að fjmrn. hafi um þetta forustu. T.d. gæti komið til greina að Alþingi sjálft tæki mál af þessu tagi upp.

Ég dreg svo ekkert úr því, herra forseti, að því verði flýtt að kanna þetta mál rækilega sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson mælti hér fyrir áðan. Og ég læt mér það í sjálfu sér í léttu rúmi liggja hvort það fer í félmn. eða fjh.- og viðskn. Ég held að það sé ekki til nein löggilt skoðun á því. En fordæmið er fjh.- og viðskn. þó að eðli málsins segi félmn. vegna þess að lögin um stéttarfélög og vinnudeilur t.d. hafa verið í félmn. En fordæmið er örugglega fjh.- og viðskn., það er alveg skýrt, þannig að ég mundi greiða atkv. með till. um fjh.- og viðskn. ef ekki kæmi annað fram.