19.03.1985
Sameinað þing: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3640 í B-deild Alþingistíðinda. (2990)

352. mál, breytingar á húsnæði fyrir hreyfihamlaða

Fyrirspyrjandi (Sigríður Þorvaldsdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 562 fsp. til hæstv. félmrh. Fsp. er í tveim liðum og er á þessa leið, með leyfi forseta:

„1. Hvað liður framkvæmd úttektar á opinberu húsnæði til að auðvelda hreyfihömluðum aðgang, skv. þál. frá 22. maí 1980, um málefni hreyfihamlaðra?

2. Hvað líður frv. því, sem ríkisstj. var falið að semja og leggja fyrir Alþingi, skv. sömu þál., um fastan tekjustofn í því skyni að tryggja nægilegt fjármagn til breytinga á húsnæði vegna hreyfihamlaðra?“

Hinn 22. maí 1980 samþykkti Alþingi þál. um málefni hreyfihamlaðra. Ályktunin var í tveimur liðum. Hún fjallaði í fyrsta lagi um gerð úttektar á nauðsynlegum endurbótum á opinberu húsnæði til að auðvelda hreyfihömluðum aðgang og gerð kostnaðaráætlunar þar að lútandi. Í öðru lagi fól Alþingi ríkisstj. að leggja fyrir næsta þing frv. til laga um fastan tekjustofn í því skyni að tryggja nægilegt fjármagn til slíkra framkvæmda.

Ári seinna, 29. maí 1981, voru gefin út lög um breytingu á lögum vegna umbóta á opinberum byggingum í þágu fatlaðra. Þessar lagabreytingar voru sem hér segir:

Viðbótargreinar við

1. Lög nr. 57 1978, um kostnað við breytingar á heilbrigðisstofnunum.

2. Lög nr. 63 1974, um kostnað við endurbætur á húsnæði grunnskóla.

3. Lög nr. 112 1976, um kostnað við breytingar á dagvistunarheimilum.

4. Lög nr. 107 1970, um kostnað við breytingu á félagsheimilum.

5. Lög nr. 49 1956, íþróttalög, um heimild til að veita styrk úr Íþróttasjóði til breytinga á íþróttahúsnæði. Fagna má þessari lagasetningu svo langt sem hún nær. En á hinn bóginn verður að harma hve margar tegundir bygginga eru undanskildar. Ekki virðist ráð fyrir því gert að fatlaðir sæki framhaldsskóla, reki erindi á opinberum skrifstofum né sæki leikhús eða söfn svo nokkru nemi. Og sé litið á þennan stað, þingstað íslensku þjóðarinnar, er augljóst hve erfið aðkoman er fyrir hreyfihamlaða, illt að komast inn í þingsali og næsta ógerlegt að klifra upp á þingpalla.

Á fjárlögum fyrir árin 1982, 1983 og 1984 voru sérstakar fjárveitingar til breytinga á eldra húsnæði fyrir fatlaða. En á fjárlögum yfirstandandi árs er enginn slíkur póstur. Þar miðar því fremur aftur á bak en áleiðis. Fatlað fólk á rétt á því að nauðsynjamál þess gleymist ekki þó að harðni á dalnum hjá þjóðinni. Fötlun er ekki alltaf sýnileg og nægir að nefna hjartasjúkdóma og astma í því sambandi. Ótalmargt þarf að gera til að létta fötluðu fólki umferð innanhúss og utan. Margar minni háttar breytingar kosta sáralítið og ætti hið opinbera að ganga á undan og gefa gott fordæmi um breytingar en hvetja og jafnvel skylda einkafyrirtæki og einkastofnanir til að gera smærri breytingar hið fyrsta.

Ekki er nauðsynlegt að taka fé úr ríkiskassanum til slíkra minni aðgerða, en eigi að ráðast í meiri háttar breytingar þarf til sameiginlegan sjóð okkar allra. Og minnugir mega allir þess vera að flestir verða hreyfihamlaðir að meira eða minna leyti þegar aldurinn færist yfir og því er hér verið að minna á nauðsynjamál okkar allra.