19.03.1985
Sameinað þing: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3641 í B-deild Alþingistíðinda. (2991)

352. mál, breytingar á húsnæði fyrir hreyfihamlaða

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Sem svar við þessari fsp. er mér ljúft að gefa svör sem ég hef aflað upplýsinga um, enda var ég höfundur að þessari þál. á sínum tíma og hef áhuga fyrir þessum málum.

Í framhaldi af ályktun Alþingis frá 22. maí 1980 um úttekt á opinberu húsnæði til að auðvelda hreyfihömluðum aðgang fól félmrh. Alfanefnd að kanna möguleika á framkvæmd hennar. Á vegum Alfanefndarinnar var stofnaður sérstakur starfshópur, Starfshópur um ferlimál. Hópurinn tók til starfa í ársbyrjun 1981. Á vegum hans var hannaður sérstakur greiningarlykill eða matskerfi til að meta hæfni húsa með tilliti til fatlaðra. Matskerfi þetta var síðan sent til 40 sveitarfélaga og óskað eftir því að byggingarfulltrúum yrði falið að beita því á helstu opinberar byggingar í sveitarfélaginu.

Í byrjun nóvember 1981 höfðu 12 aðilar skilað niðurstöðum sem tóku til yfir 100 bygginga. Edgar Guðmundsson verkfræðingur vann síðan skýrslu úr þessum niðurstöðum sem var gefin úf á vegum rn. og kynnt sérstaklega á ráðstefnu um ferlimál fatlaðra dagana 11.–12. nóvember 1981. Þessa ráðstefnu sóttu um 150 manns hvarvetna af landinu, þar á meðal tryggingafulltrúar, sveitarstjórnarmenn, arkitektar, verkfræðingar, alþingismenn og embættismenn auk fulltrúa fatlaðra. Hvað varðar niðurstöður úr áðurnefndri könnun læt ég mér nægja að nefna nokkur dæmi.

Heildarmat á opinberu húsnæði í þeim tólf sveitarfélögum sem skýrslan tók til var 43.8 stig af 100 mögulegum. Ráðhús, þ. e. skrifstofur sveitarfélaganna, fengu að meðaltali 29.1 stig af 100, sundlaugar fengu að meðaltali 29.6 stig af 100 mögulegum, kirkjur fengu 52.6 stig af 100 mögulegum, heilsugæslustöðvar 71 stig af 100, skólar fengu 42.5 stig af 100 mögulegum. Ég tel líklegt að þessar niðurstöður gefi nokkuð áreiðanlega vísbendingu um ástand mála á landinu öllu þótt örugglega megi finna bæði einstök sveitarfélög og byggingar þar sem ástandið er skárra.

Ég vil að lokum benda sérstaklega á að þessar niðurstöður hafa legið fyrir síðan í nóvember 1981 og þeim hefur verið komið á framfæri við hundruð manna. Hér er því ekkert það á ferðinni sem ætti að koma á óvart. Í desember 1982 skipaði félmrh. samstarfsnefnd félmrn. um ferlimál. Nefnd þessi tók til starfa 1983. Meðal verkefna hennar var að standa fyrir úttekt á húsnæði ríkisstofnana hér í Reykjavík. Úttekt þessi var síðan unnin á árunum 1983 og 1984 af embætti húsameistara ríkisins. Niðurstöður þessarar könnunar liggja nú fyrir og verður þeim komið á framfæri við hv. alþm. á næstunni.

Könnun þessi tekur, eins og áður segir, aðeins til húsnæðis stofnana ríkisins hér í Reykjavík. Niðurstöðurnar staðfesta raunar það sem vitað var áður, að ástand þessara mála er mjög slæmt. Meðaltal þeirra bygginga sem hér um ræðir er um 30 stig af 100 mögulegum. Svo að einstök dæmi séu nefnd má benda á að Arnarhvoll fékk 18 stig af 100, Alþingishúsið okkar hér 16 af 100, Stjórnarráðshúsið 8 af 100, Þjóðleikhúsið 35 af 100, Landsbókasafnið 18 af 100, Laugavegur 114, þ. e. Tryggingastofnun ríkisins, 66 af 100, sem er það besta sem mælst hefur. Í því húsi hefur reyndar verið unnið markvisst að endurbótum og var þeim ekki lokið að fullu þegar úttektin fór fram.

Í marsmánuði 1984 skrifaði ég 67 þéttbýlissveitarfélögum landsins bréf og fór þess á leit að settar yrðu á stofn ferlinefndir með fulltrúum tilnefndum af sveitarfélögum og fulltrúum fatlaðra. Hlutverk þessara nefnda er m. a. að gera úttekt á opinberum byggingum í viðkomandi sveitarfélagi, bæði byggingum sveitarfélagsins og ríkisins á staðnum. Tilgangur minn með þessum nefndum og þeirri úttekt sem þeim er ætlað að standa að er fyrst og fremst sá, að með starfi þeirra fáist samræmt mat á öllu opinberu húsnæði í landinu, bæði sveitarfélaga og ríkisins. Síðan tel ég að næsta skrefið yrði að ákveða í hvaða röð, forgangsröð og þá hvaða byggingum yrði ráðist í að breyta. Við hefðum þá skilgreint vandann rækilega og næstu skref yrðu framkvæmdir eftir fyrir fram gerðri áætlun.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að fram komi að sá vandi sem við ræðum hér nú er tvíþættur. Annars vegar er sá vandi að breyta eldra húsnæði með þeim kostnaði sem því fylgir og hins vegar sá að koma í veg fyrir að nýr vandi verði til. Ég vil leyfa mér að fullyrða að þrátt fyrir ítarleg ákvæði í byggingarreglugerð frá 1979 gerist það því miður álit of oft að nýbyggingar, bæði opinberar og í eigu einkaaðila, eru reistar án þess að tillit sé tekið til ákvæða reglugerðarinnar eða að nægur gaumur sé gefinn þessum vandamálum.

Ég vil einnig minna á að ferlimálin tengjast á mjög afgerandi hátt atvinnumálum fatlaðra. Vandinn þar er nægur þótt ekki bætist á útilokun þeirra til vinnu vegna aðgengisvanda. Sömuleiðis þykir mér rétt að minna hér á að ferlimál eru ekki bundin byggingum eingöngu. Þau snerta alla þætti skipulagsmála og þess ytra umhverfis sem búið er þegnum þessa lands. Skipulag gatna og umferðar, gerð gangstétta, aðgengi að almenningsfarartækjum, strætisvögnum, flugvélum og jafnvel skipum, skipta máli í þessu sambandi svo eitthvað sé nefnt. Við verðum einnig að gera okkur ljóst að sá hópur sem hér um ræðir, fatlaðir, er samsettur og að vandamálin eru margvísleg á sama hátt og fötlun er af ýmsu tagi.

Þess ber að gæta í þessu sambandi að flestar þær aðgerðir sem unnar eru vegna ferlimála fatlaðra sérstaklega, nýtast mun stærri hópum í þjóðfélaginu, t. d. öldruðum. Almennt má segja að þessar aðgerðir stuðli að betra og manneskjulegra umhverfi.

Varðandi 2. lið fsp. — Eins og ég gat um áður er vandinn, sem við stöndum frammi fyrir í þessum málum, tvíþættur. Annars vegar eldri byggingar og síðan nýframkvæmdir. Mér er ekki kunnugt um að gerð hafi verið tilraun til að meta kostnað sem hlytist af því að breyta eldri byggingum. Hann er trúlega verulegur. Þess ber þó að geta í þessu sambandi að furðu margt er hægt að gera í gömlum húsum án mikils tilkostnaðar, lagfæringar sem geta skipt sköpum. Í öðrum tilfellum þarf meiri háttar framkvæmdir.

Á vorþinginu 1981 voru samþykkt lög um breytingar á lögum vegna umbóta á opinberum byggingum í þágu fatlaðra, lög nr. 47 1981 sem hæstv. fyrirspyrjandi taldi hér upp áðan. Þessi lög kveða á um það að kostnaður við að breyta heilbrigðisstofnunum, grunnskólum, dagvistunarheimilum fyrir börn, félagsheimilum og íþróttahúsnæði greiðist á sama hátt og um stofnkostnað væri að ræða. Þetta er mikilvægt atriði. Því miður hafa þessi lög ekki haft í för með sér umtalsverðar framkvæmdir en þarna er þó möguleiki til að takast á við vandann ef áhugi og vilji eru fyrir hendi.

Á fjárlögum 1982, 1983 og 1984 var fjárveiting hjá fjmrn. sem ætluð var til úrbóta í ferlimálum. Þessi fjárhæð var fyrst og fremst ætluð vegna breytingar á Þjóðleikhúsinu. Af ýmsum ástæðum var þessi fjárhæð ekki nýtt til þeirra þarfa.

Ég vil geta þess hér að á s. l. ári hafði bæði félmrn. og ferlimálanefnd þess samband við forráðamenn leikhússins og vakin var athygli á þessari fjárlagaheimild og brýnni þörf aðgerða, ekki síst þar sem yfir stóðu framkvæmdir við aðalinngang leikhússins. Þær upplýsingar fengust að ferlimál í húsinu yrðu leyst sem hluti af stærra viðhalds- og endurbótaverkefni sem stæði yfir og yrði það verk unnið í samræmi við þær tillögur sem unnar voru og samþykktar á árinu 1981.

Nú hefur fyrirspyrjandi lagt fram þáltill. um þetta mál sérstaklega. Ég vil því nota tækifærið til að gera stuttlega grein fyrir afskiptum félmrn. af því. Ég fagna þeim áhuga sem hér hefur komið fram frá hv. þm. og minnist þeirrar baráttu sem ég átti hér í nokkur þing til að koma lyftu í Þjóðminjasafnið sem er nú komin þangað. En enn, tveimur árum eftir að lyftan var sett í húsið, er aðgengið ekki eins og til var ætlast. Svona draga menn lappirnar.

Ríkisvaldið hefur því skv. þessu annars vegar sett þau lög sem ég áður nefndi og ætlað fjárhæð til sérstaks verkefnis á þessu sviði á fjárlögum í þrjú ár.

Í umræðum árið 1981 um fjármögnun vegna breytinga á eldra húsnæði komu fram mjög skiptar skoðanir hvernig best væri að útvegun þess fjármagns staðið. T. d. voru hugmyndir uppi um sérstakan nefskatt, að hluti fasteignaskatts færi til þess og að ákveðið framlag kæmi árlega á fjárlögum til ákveðinna verkefna. Mín skoðun er sú að eðlilegast sé að fara síðastnefndu leiðina. Ég tel að í kjölfar þeirrar úttektar sem ég hef þegar gert grein fyrir eigi að koma framkvæmdaáætlun fyrir hverja ríkisstofnun fyrir sig og síðan eigi að ráðast í framkvæmdir eftir heildaráætlun og verja til þess fé sem hverri stofnun er úthlutað fyrir sig á fjárlögum. Slíkt gæti hæglega tengst viðhaldi og stofnkostnaði. Svipaðri aðferð gætu sveitarfélögin beitt. Og um sameignir ríkis og sveitarfélaga gilda áðurnefnd lög nr. 47 1981.

Að lokum vil ég síðan ítreka að vandinn vegna nýbyggingarframkvæmda er mér áhyggjuefni. Það er hörmulegt til þess að hugsa að í nýjum og glæsilegum byggingum skuli enn gerast þau slys að ekki er gætt hagsmuna allra Íslendinga, fatlaðra jafnt sem ófattaðra. Þar verða allir sem hlut eiga að máli að taka höndum saman og koma í veg fyrir að við búum við aðstæður sem útiloka fólk frá vinnu, þjónustu og þátttöku í daglegu lífi þjóðarinnar.