19.03.1985
Sameinað þing: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3644 í B-deild Alþingistíðinda. (2993)

352. mál, breytingar á húsnæði fyrir hreyfihamlaða

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda að taka þetta mál upp sem vissulega er brýnt. Það kom fram í máli ráðh. að þessu máli þokar sorglega seint áfram og fatlaðir eiga mjög erfitt með aðgengi víðast hvar, þrátt fyrir hástemmd loforð, yfirlýsingar og samþykktir, jafnvel lög. Ég veit til þess að ekki er nóg að því gætt hjá byggingarnefndum sveitarfélaga að aðstaða fyrir fatlaða sé eins og hún þarf að vera. Ég tel að það sé yfirleitt látið afskiptalaust af þeim byggingarnefndum sem um teikningar fjalla. Ég veit um dæmi hjá stofnun sem ég þekki til sem var að láta endurskipuleggja sitt húsnæði. Sú stofnun fékk hæfan arkitekt til að teikna fyrir sig bygginguna en þegar því var lokið kom í ljós að ekki var gert ráð fyrir aðgengi fatlaðra og byggingarnefnd stofnunarinnar þurfti sérstaklega að biðja um það. Þetta segir sína sögu um það hvernig þessum málum er háttað.

Ég tel að ekki sé nóg að skipa ferlinefndir ef þær starfa ekki. Ég tel að þar sem ferlinefndir hafa verið stofnaðar hafi vissulega áunnist nokkuð. En síðan eftir nokkurt átak hafi þessi mál verið látin afskiptalaus. Hjá byggingarnefndum er það svo að það þarf að hafa fulltrúa brunamála á fundum til að athuga þær teikningar sem fyrir byggingarnefnd liggja. Spurningin er sú hvort ekki er ástæða til þess að láta ferlinefnd fjalla um þessar teikningar líka til þess að tryggja það að farið sé að lögum. Ég held að það væri ráðlegt og það þurfi ekki að seinka afgreiðslu mála heldur aðeins að tryggja að löglega sé að farið og að viti bornir aðilar geti bent á hvað megi betur fara.

Ég tel að það væri rétt af félmrh. að taka upp þetta mál, skrifa bæjarstjórnum eða byggingarnefndum og fara fram á að þetta verði gert og reka á eftir því að ferlinefndirnar verði virkari í starfi en verið hefur. En ég tek það fram að þær hafa vissulega margar hverjar unnið vel en aðrar miður. Og þessar nefndir þurfa víðar að vera til.

Ég endurtek þakkir mínar til fyrirspyrjanda og vona að þessi umr. verði til að ýta við mönnum í þessum efnum.